08.05.1936
Efri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

137. mál, viðbótarrekstrarlán handa Landsbanka Íslands

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. ráðh. gerði ekki annað en snúa út úr orðum mínum. Ég var ekki að heimta neina tryggingu eða ábyrgð af ríkisstj. Ég var aðeins að spyrja, hvort hæstv. ríkisstj. treysti sér til að halda gangandi viðskiptum við útlönd með ekki hærri lántökuheimild en þetta. Ef það er talin óhjákvæmileg nauðsyn eftir útlitinu nú að dæma að fá lántökuheimild fyrir erlendu láni og leita eftir því, þá spurðist ég fyrir um, hvort ekki væri rétt að hafa heimildina hærri. Ef hægt er að fá hærra lán, eða stj. treystir sér til þess að fá það, þá er ekkert vit í öðru en hafa heimildarupphæðina hærri; það er þar fyrir engin þörf á að nota hana alla, enda hefir hæstv. ráðh. lýst yfir því, að hann muni ekki nota þessa upphæð alla, nema í ýtrustu nauðsyn, auk heldur aðra stærri.