04.03.1936
Efri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

34. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Eins og ég gerði grein fyrir við 1. umr. fyrir hönd n., er þetta frv. samið af sérstakri n., og fór sjútvn. vandlega í gegnum það á síðasta þingi og gerði ýmsar brtt. við það. Ég gat þess þá, að ég mundi við þessa umr. málsins skýra nánar þær brtt., sem n. gerði fyrir þinglokin síðustu og nú er búið að taka upp í frv. Á þann hátt hefir málið ekki enn verið rætt. Á síðasta þingi fylgdi frv. allýtarleg grg., en hún fylgir því ekki núna, og getur því verið, að hv. þm. eigi örðugt með að glöggva sig á ýmsu, sem frv. hefir að geyma. 1. kaflinn er, eins og frv. ber með sér, inngangur og orðaskýringar, sem gerðar eru til þess að það geti ekki leikið á tveim tungum seinna, þegar um þessi mál verður fjallað, hvað í þeim orðum felst, sem oftast koma fyrir. Ég tel ónauðsynlegt að fara frekar út í það, því að það skýrir sig sjálft. Höfuðbreytingin, sem n. gerði á síðasta þingi á þessu frv., er í raun og veru brtt. á þskj. 707. N. sú, sem samdi frv., hafði gengið svo frá þessu, að réttur þeirra, sem heimild hefðu til þess að flytja skip, væri aukinn þannig, að samkvæmt ákvörðun n. höfðu þeir leyfi til þess að fara með 100 rúmlesta skip. Þessi till. á sína forsögu hér á Alþingi, m. a. þá, að á haustþinginu 1934 lá fyrir hv. Nd. till. um að veita þessum mönnum undanþáguheimild í lögum allt upp í 130 rúmlestir. Þessi krafa er sérstaklega runnin frá mönnum, sem búa fjarri Reykjavík og hafa tekið smáskipapróf úti um land, því að eins og kunnugt er, þá eru slík próf leyfð á Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði og í Vestmannaeyjum, og þeir, sem hafa öðlazt þetta próf á seinni árum, hafa farið fram á það, að réttur þeirra yrði rýmkaður að miklum mun frá því, sem nú er, en nú er hann, eins og kunnugt er, miðaður við 60 rúmlestir. Á haustþinginu leit hv. Nd. svo á, að rétt væri að verða við þessum kröfum. Þetta frv. kom svo fyrir hv. Ed., svo sem kunnugt er, og var þá vísað til sjútvn., en n., sem skipuð var sömu mönnum og nú, vildi ekki fallast á þetta og taldi vera of langt gengið. Upp úr því spratt svo till. sú, sem n. gerði þá til þess að láta endurskoða þessa löggjöf um stýrimenn, skipstjóra og vélstjóra, og mér er óhætt að fullyrða, að þessi till. n. átti yfirleitt stoð í öllum þeim stéttum, sem hér eiga hlut að máli. Ég hefi áður sagt, að yfirleitt sé reynslan sú, jafnt í þessum efnum sem öðrum, að með breyttum tímum verði að breyta löggjöfinni. Nú hefir þessi till. n. mætt allverulegri mótstöðu, sérstaklega frá skipstjórum hér sunnanlands, og er mörgum hv. þm. kunnugt um þær röksemdir, sem þeir færðu fyrir máli sínu. Hinsvegar hefir legið fyrir sjútvn. álit annara stétta úti um land, og vilja þær toga í sinn rétt og auka jafnvel meira en mþn. hafði viljað gera. Sjútvn. komst að þeirri niðurstöðu til þess að brúa á milli þeirra, sem gera háværastar kröfur, og þeirra, sem vilja „status qvo“, að heppilegast væri að fara meðalveginn og binda takmarkið við 75 rúmlesta skip. Þeir, sem um þetta mál fjölluðu í mþn., voru yfirleitt þeirrar skoðunar, að ef smáskipaprófsmenn kynnu vel það, sem af þeim er krafizt samkv. reglugerð skólanna, þá væri enginn vafi á því, að þessir menn væru að því, er bóklega þekkingu snertir, fullhæfir til þess að flytja skip meðfram ströndum landsins, og þótti hæfilegt að fara upp í 100 rúmlestir. N. studdist að nokkru leyti við það, sem tíðkazt hefir í þessu efni í nágrannalöndum okkar, t. d. í Noregi, en þar hefir þessu verið þannig háttað til skamms tíma, að menn, sem hafa a. m. k. öllu minna próf en krafizt er af þeim mönnum, sem taka smáskipapróf hér á landi, hafa haft leyfi til þess að flytja skip allt að 200 rúmlestir að stærð meðfram allri strönd Noregs og jafnvel inn í Kattegat, og þeim er líka leyft að fara norður í Íshaf og til Íslands, ef þeir losa aðeins aflann þar. Hinsvegar er því þannig farið hjá þeim, að menn, sem fara með skip upp í 25 rúmlestir að stærð, sem aðeins eru notuð við ströndina sjálfa, en fara ekki út á opið haf, þurfa í raun og veru ekkert próf. Það svarar til 12 rúmlesta hjá okkur. N. hefir rýmkað þetta nokkuð og gert till. um það, að ekki þurfi sérstakt skólapróf til þess að flytja skip, sem er allt að 15 rúmlestir að stærð, og hafði hún fyrir sér þá reynslu, sem fengizt hefir hér fyrir því, að skip af þessari stærð fara ekki til fjarlægra landa að jafnaði.

Um Dani er svipað að segja í þessu efni og Norðmenn: þeir hafa nokkuð rúm prófskilyrði fyrir þá menn, sem ætla að sigla á smærri fiskiskipum: það próf, sem til þess þarf, kalla Danir Kystskipperpröven, og svarar það til smáskipaprófsins hjá okkur. Mönnum, sem það próf hafa, er leyft að sigla á fiskiskipum, sem eru yfir 100 rúmlestir að stærð, en ekki yfir 200, til Færeyja og Íslands. Í Englandi gilda hinsvegar allt aðrar reglur í þessu efni; þar þarf raunverulega sama og ekkert próf til þess að geta siglt 25 lesta skipi og 50 lesta, ef um reknetaskip er að ræða. En svo hafa þeir allmikið próf fyrir þá, sem sigla togurum. Englendingar sigla skipum sínum, eins og kunnugt er, alla leið norður í Hvítahaf og til Grænlands, og af þeim mönnum, sem sigla þessum skipum, er heimtað próf, sem í öllum aðalatriðum svarar til fiskimannaprófs hins meira hjá okkur.

Þannig er þessu háttað hjá nágrannaþjóðum okkar, og með hliðsjón af þessu gerði n. þessa till., sem ég hefi lýst. Hjá okkur Íslendingum hafa verið gerðar harðari kröfur í þessu efni en hjá öðrum þjóðum. Það er afareðlilegt, þar sem land okkar liggur fyrir opnu hafi og úthafið tekur við jafnskjótt og siglt er eitthvað út frá landinu, má því gera ráð fyrir, að oft þurfi á allri sjófræðiþekkingu að halda til þess að vita með vissu, hvar menn eru staddir á hafinu.

En síðan lögin um smáskipapróf komu, og eftir að réttindin voru rýmkuð í því efni, þá virðist sú þekking, sem þeir menn að jafnaði hafa átt við að búa, er þetta próf hafa tekið, hafa orðið fullnægjandi til þess að stjórna okkar fiskiskipum umhverfis landið, en það skal tekið fram, að n. vildi ekki láta þetta ná til skipa, sem gera má ráð fyrir, að stundum verði siglt út yfir hafið, og hafði n. þá sérstaklega í huga allar tegundir botnvörpuskipa, sem eru stærri en þetta og reikna má með, að notuð verði til þess að flytja ísfisk til útlanda. En ertu rök hafa verið færð gegn þessu, að skip, sem eru undir 100 rúmlestum að stærð, mundu jafnvel í ýmsum tilfellum verða notuð til siglinga milli landa, og skal ég ekki neita því, að dæmi eru til þess. Það var meðfram af þessari ástæðu, sem sjútvn. breytti hámarkinu og færði það niður í 75 rúmlestir, með það fyrir augum, að það væri einstök tilviljun, ef siglt væri héðan til annara landa á smærri skipum. Aðalhugsunin í þessu efni var sú sama hjá sjútvn. og hjá mþn., sem sé að binda þetta atriði nokkuð við þær leiðir, sem á að sigla.

Hefi ég þá nokkuð skýrt, hvað fyrir n. vakti með till. sínum. Hitt var henni vitanlega ljóst, að hér á þingi eru deildar meiningar um það, hvað réttast sé að gera í þessu efni, og mér er kunnugt um það, að í hv. Nd. eru skörp öfl fyrir því að auka þetta mark, sem sjútvn. þessarar hv. d. hefir lagt til, að sett yrði, og tel ég, eftir því sem efni standa til, ekki rétt að fara hærra en við höfum lagt til.

Þá kem ég að annari aðalbrtt. n., þar er gert ráð fyrir, að þessir smáskipaprófsmenn megi sigla 60 sjómílur út frá landi. Þessi brtt. kom frá sjútvn. Af brtt., sem ég hefi minnzt á, má sjá, hvaða skilyrði eru sett þeim, sem sigla til annara landa.

Þá kem ég næst að brtt., sem fjallar um hásetana. Í því efni er tekinn af allur vafi um það, að það er aðeins átt við þá, sem sigla á skipunum, en ekki, eins og átt hefir sér stað hér sunnanlands, menn, sem að vísu hafa verið lögskráðir hásetar á skip, en hafa hinsvegar ekkert siglt á skipunum, heldur verið í landi og beitt lóðir. Sá tími, sem þessir menn vinna slíka vinnu, nefnist ekki siglingatími þeirra.

Svo koma næst ýmsar orðabreytingar eða leiðréttingar. Það er efnisbreyting við 3. gr. frv.; n. þótt rétt að færa 16 ára aldurstakmarkið ofan í 15 ár.

Ég get nú farið fljótt yfir sögu héðan af, því að af þeirri breyt., sem gera þurfti við 4. gr. frv. viðvíkjandi rúmlestatölunni, leiddi ýmsar hliðstæðar breyt., sem eru að meira eða minna leyti bein afleiðing af þeirri fyrrnefndu. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að það liggja engar brtt. fyrir. Ég er að skýra þær breyt., sem sjútvn. hefir gert á frv. eins og það kom frá mþn.

Hvað snertir ákvæðin um siglingatímann í 3. gr., má segja, að þar sé um nýmæli að ræða að ýmsu leyti, þar er þessi tími lengdur frá því, sem gilt hefir í eldri löggjöf. Það vakti fyrir n. í þessu efni, að í nágrannalöndum okkar hefir þessum málum verið þannig háttað, að undirbúningstími þeirra manna, sem ætla sér að verða yfirmenn skipa, hefir verið lengdur.

Annar kafli þessa frv. er um skipstjórnarmenn, og er þar ekki ýkjamiklu breytt frá því, sem verið hefir í lögum í því efni, en þó er heimtuð dálítið meiri kunnátta af þeim en áður. Það er nýmæli í þessu efni, að þess er krafizt af þessum mönnum, að þeir hafi þekkingu á vitakerfi landsins og björgunarstöðvum og kunni að nota björgunartæki.

Ég hefi þegar skýrt út, hvaða breyt. hafa verið gerðar á 5. gr. af n. hálfu; það er sem sé lagt til, að miðað sé við 75 rúmlestir, en ekki 60.

6. gr. fjallar um skipstjóraskírteini og hefir verið mikið um það atriði deilt; út í það er ég þegar búinn að fara að nokkru leyti. Í fyrsta lagi er siglingatíminn aukinn upp í 36 mánuði úr 24 mánuðum. En svo kemur nýmæli, þar sem talað er um hin skipin; eru það skip, sem sumpart eru notuð til fólksflutninga og sumpart eingöngu til vöruflutninga. Er þar krafizt meiri sjófræðiþekkingar og meiri farmennsku og gert ráð fyrir, að þar komi aðeins til greina menn með meira fiskimannsprófi frá stýrimannaskólanum.

Það mun víðast vera svo hjá nágrannaþjóðum vorum, að strangari kröfur eru gerðar til þeirra, sem sigla fólksflutningaskipum og skipum, sem flytja dýra farma, heldur en til þeirra, sem sigla venjulegum fiskiskipum. Þetta er ekki efnisbreyt. Þetta var 8. gr. Þar segir svo neðst: „Til þess að öðlast stýrimannaskírteini á flutningaskipi komi auk siglingatíma þess, er getur um í stafl. b., 6 mánaða siglingatími sem háseti á verzlunar- eða flutningaskipi yfir 30 rúmlestir.“ Það er gert ráð fyrir, að þeir, sem verði yfirmenn á þessum skipum, hafi fengið nokkra þekkingu í meðferð farms á verzlunarskipum.

Um 9. og 10. gr. er það að segja, að þar er um að ræða íslenzk fiskiskip af hverri stærð sem er, og með ákvæðum þeirra greina er átt við menn, sem hafa leyfi til að stýra hvaða íslenzku fiskiskipi sem er og hvert um heim sem vera skal. Að heimila skipstjórn í innanlandssiglingum á skipum allt að 300 rúmlestum að stærð hefir nú verið rýmkað þannig, að heimildarákvæðin ná nú til skipa, sem ekki eru yfir 400 rúmlestir, og var hugsað, að jafnvel flóabátar væru á þessari stærð, því frv. er hugsað fram í tímann, og er aðalefnisbreyt. sú, að stærð skipsins er aukin um 100 rúmlestir. Við 10. gr. er heldur engin veruleg efnisbreyt. frá n. hálfu, heldur leiðrétting.

11. og 12. gr. eru um stýrimannsréttindi og þar nákvæmlega sama leið farin eins og ég hefi áður tekið fram. Það er tekið fram, hvaða kröfur séu gerðar til þess að fá stýrimannsskírteini. Þar er tekið fram, hvers prófs sé krafizt, hve lengi viðkomandi maður þurfi að hafa verið háseti og á hverskonar skipum. Við þessar gr. hefir n. ekki gert nokkrar brtt.

Svo er III. kafli, sem er um skipstjórnarmenn á verzlunarskipum og varðskipum ríkisins. Um hann má í fáum orðum segja það, að aðalefnisbreyt. hans er sú, að lengdur er siglingatími sá, sem krafizt er; verða þeir hásetar, sem ætla sér að fá þar stýrimannsréttindi nú, að hafa siglt í 48 mánuði, en áður aðeins 36 mánuði. Er þetta fyrirkomulag nákvæmlega í samræmi við það, sem tíðkast annarsstaðar á Norðurlöndum, og stafar það bæði af því, að mikið er orðið til af þeim mönnum, sem hafa þessi réttindi, og líka af hinu, að aldrei er álitið, að of langur tími hafi verið ætlaður til þess að búa þá undir starf sitt, sem stjórna verzlunarskipum og stórum skipum, og er af þeim krafizt meiri þekkingar en áður, bæði bóklegrar og verklegrar. Þótt þessi kafli sé ekki í öllum verulegum atriðum nýr, þá er ein grein hans, 21. gr., alveg ný. Hún fjallar um þá menn, sem eiga að stýra varðskipum ríkisins. Er hér verið að reyna að skapa brú á milli þeirra, sem stjórna verzlunarskipum, og þeirra, sem eiga að stýra varðskipum ríkisins, en meginatriðið er það, að sá, sem hefir rétt til að stjórna varðskipi, geti ekki tekið að sér stjórn á íslenzku verzlunarskipi í utanlandssiglingum, nema hann hafi áður fengið æfingu sem stýrimaður í utanlandssiglingum, og nákvæmlega sama gildir um þann, sem hefir fengið meira skipstjóraskírteini, að hann verður að hafa siglt sem stýrimaður á varðskipi, áður en hann getur öðlazt rétt til skipstjórnar á því. Er þetta gert vegna þess, að þær tegundir skipa, sem hér ræðir um, þurfa sérfróðra manna, sem kunnir eru þeim hlutverkum, sem skipin hafa, og er á þennan hátt skapaður sá grundvöllur, sem nauðsynlegur er til slíkrar sérþekkingar. Um þetta efni fjalla 21.–23. gr., og með þeim kröfum, sem þar eru gerðar, er hert á frá því, sem áður hefir verið. Vitanlega er það svo um skipherra á varðskipum annara þjóða, að af þeim er krafizt meiri þekkingar heldur en hjá oss. Á erlendum varðskipum eru oftast menn með svonefndu „lautinants“prófi.

Þá kem ég að IV. kafla, og er hann um vélamenn á eimskipum. Hér er steypt saman í eitt ákvæðum um rétt til að stjórna mótorvélum, sem eru yfir 400 hestöfl, og eimvélum yfir 300 hestöfl og tekin inn þau lög, að þeir einir hafi rétt til að stjórna slíkum vélum, sem auk annars nauðsynlegs undirbúnings hafa staðizt hið meira próf við vélstjóraskólann í Reykjavík. Er IV. kafli sérstaklega um vélamenn á eimskipum, en V. kafli um vélamenn á mótorskipum, og er það vendilega aðgreint, sem krafizt er af hvorum fyrir sig. Í þessum kafla er helzta nýmælið, að krafizt er lengri tíma af þeim mönnum, sem ætla að vinna sig upp, þar sem lengri þjónustu er krafizt í starfinu en áður var af þeim mönnum, sem stunda þetta nám. En það var n. ljóst, að það þarf að búa svo um hnútana, að þeir, sem koma út af vélstjóraskólanum, fái meiri tækifæri til verklegrar æfingar heldur en verið hefir, og kemur n. því fram með kröfu um, að fleiri menn séu hafðir á vissum skipum heldur en áður hefir verið. Er það gert til þess, að þeir, sem koma út af vélstjóraskólanum, fái möguleika til að æfa sig nægilega við hin vandasömu störf og geti unnið sig upp samkv. þeim kröfum, sem um starfstíma eru gerðar í lögum. Ég sé ekki ástæðu til að fara ýtarlega út í hverja grein í þessum kafla, en n. hefir yfirlitið þennan kafla frv. og gert á honum lítilsháttar breyt. frá því, sem hann var í fyrra, þegar hann lá hér fyrir á þinginu. Ég skal því stikla á stóru yfir þennan kafla; ég veit, að hv. þdm. sjá, hvað í honum felst, og hann þarf ekki skýringar við.

Þá koma almenn ákvæði. Er þar ákveðið um, hve margir stýrimenn og vélstjórar skuli vera á skipum eftir stærð þeirra, og eru þar ýms nýmæli. En sjútvn. hefir alls ekki gert breyt. á þeim kafla, og er hann eins og hann var lagður hér fyrir á síðasta þingi. Hér er gert ráð fyrir að lögfesta það, sem venja hefir verið, að tveir stýrimenn séu á togurum. Áður hefir ekki verið lögskráður nema einn stýrimaður á togara, en það hefir verið venja um langt skeið að hafa þá tvo, og sýnir það, að þess er full þörf. Ég hefi ekki heldur orðið var við, að þetta mætti nokkrum andmælum, og álít sjálfsagt, að það sé lögfest. Viðvíkjandi strandferðaskipum er krafan sú, að stýrimenn séu þrír, þó ekki á þeim, sem eingöngu flytja vöru; er þá krafan aðeins sú, þar sem skipið er innan 300 rúmlesta, að þar sé einn stýrimaður, en þau, sem stærri eru, hafi tvo. Er þetta í samræmi við kröfur Dana um þetta efni. Sama er að segja um varðskipin, að þar er krafan skilyrðislaust, að hafðir séu tveir stýrimenn á þeim skipum, sem eru frá 60–200 rúmlestir, en þrír á þeim, sem eru stærri. Ég sé ekki ástæðu til að rekja það nánar, hvaða rök liggja að þessum kröfum, en ef andmælum verður hreyft, mun ég gefa betri skýringar um það efni. Ég hefi gert nokkra grein fyrir þeim nýmælum, sem eru í sambandi við vélgæzluna. Þessi ákvæði eru í 51 og 52. gr., og er þar skýrt tekið fram, hvernig vélstjórum skuli fjölgað eftir stærð vélanna. Í þessum kafla, 54. gr., er einnig skýrt frá því, hvað greiða skuli fyrir skírteini þau, sem um getur í frv., og er það svipað og áður var. Ég skal játa, að það eru fleiri stig og meira flokkað, en það er í samræmi við það, sem var fyrr. Lægsta gjald er 2 krónur, og getur farið upp í 30 krónur, og eru það þau skírteinin, sem veita rétt til þess starfa, sem hæst er launaður. Vitanlega leggst þar að auki á þetta stimpilgjald, svo að upphæðin verður nokkru hærri en hér er nefnt.

Svo er 59. gr., og er hún að verulegu leyti breytt frá því, sem hún var í fyrra, og taldi sjútvn. nauðsynlegt að breyta henni í sambandi við það að færa markið á stærð skipanna niður í 75 rúmlestir. Ég tel óþarft að lesa gr., en ef hv. þdm. lesa hana og bera saman við það, sem hún var í fyrra, þá sjá þeir greinilega breyt. Aðrar greinar VII. kafla eru bein afleiðing af því, sem ég hefi áður talað um, t. d. sektarákvæðin, og 60. gr., sem er að því leyti ný, að hún er miklu fyllri nú en áður, en efni hennar í aðalatriðum hið sama.

Í 59. gr. eru ákvæði um, að þeir, sem öðlazt hafa rétt samkv. eldri lögum, haldi þeim rétti áfram, og einnig um það, hvernig þeir, sem fengið hafa rétt með gömlu prófi, nái meiri réttindum. Er hér gert ráð fyrir vottorðum tveggja valinkunnra skipstjóra eða sjódómsmanna, sem dæmi um, hvernig viðkomandi aðilja hafi farizt skipstjórn, og að þeim dómi fengnum öðlist hlutaðeigandi maður rétt til að stjórna skipum, sem eru allt að 75 rúmlestum að stærð.

Ég býst ekki við, að það hafi mikla þýðingu að fara frekar út í þetta, en ég taldi mér að sjálfsögðu skylt að gera því nokkur skil við 2. umr. Ég hygg, að ef Alþingi getur fallizt á frv., þá sé betur séð fyrir öryggi en áður var, og í samræmi við ný lög fyrir vélstjóraskóla og stýrimannaskóla, og ekki sízt vegna þess að með skólalærdómnum verði aukið við eitt og annað, sem lýtur að starfslegri menntun, og því betur fyrir komið, og gæti það gert oss hæfari að stunda siglingar bæði hér við land og annarsstaðar. Það er ekki minnst um vert, að verklega þekkingin sé aukin, að hið verklega nám verði aðalskilyrði og það gert að prófsatriði. Ég vil ekki fara frekar út í það, en það hefir reynslan sýnt þeim, sem fylgzt hafa með, að skipstjóraefni okkar geta fylgzt með.

Sjómannseðli er annað en sjómannsverk eða sjómennska, sem svo er venjulega nefnt, og það getur í eðli sínu verið ágætur sjómaður, þ. e. haft ríkt sjómannseðli, þótt hann vanti verklega og bóklega menntun um það, sem að sjómennsku lýtur. Það er þess vegna mjög nauðsynlegt, að sjómenn vorir fái sem beztan undirbúning, svo hæfni þeirra fái að njóta sín sem bezt, og þetta er eitt það markmið, sem fyrir augum er haft með þessu frv., sem hér liggur fyrir, og ég tel þetta meginatriði frv.

Sú deila, sem virðist vera um það, hvort smáprófsmaður eigi að fá rétt sinn hækkaðan, má líka skoðast frá þessari hlið, og virðist mér, að sú verklega þekking, sem þeir verða að hafa aflað sér, eigi að gera þá hæfa til að stjórna þeim skipum, sem frv. gerir ráð fyrir, að þeir fái rétt til. Ég legg þess vegna eindregið til, að frv. verði að engu rýrt að þeim till., sem stefna í þá átt.

Ég skal svo ekki eyða löngum tíma í að minnast á brtt. hv. 1. þm. Reykv. Ég veit það og skil það, að skipstjórafélagið leggur mikla áherzlu á, að kröfurnar verði ekki auknar, og er ekki óeðlilegt, að það komi fram. En ég vil mælast til, að þessi hv. d. afgreiði frv. samkvæmt till. okkar. Ég veit, að um þetta atriði verða átök í hv. Nd., og óráðið, hvernig þetta fer þar. En ég get ekki greitt atkv. með brtt. hv. 1. þm. Reykv. vænti ég þess fastlega, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað óbreyttu til 3. umr.