04.03.1936
Efri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

34. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég finn ástæðu til, að svara hv. 1. þm. Reykv. örfáum orðum, því að fyrir utan stefnumuninn kom fram misskilningur hjá honum á nokkrum atriðum. Hann vildi láta skína í það, að ég hefði haldið því fram, að hér væri verið að rýra öryggið. Ég vildi a. m. k. hafa sagt, að hér væri í engu atriði verið að rýra öryggið, enda er það líka svo. Það, sem um er deilt, er þessi aukning frá 60 rúmlestum upp í 75 rúmlestir. Það er 15 rúmlesta aukning. Hann vildi ennfremur láta skína í það, að hér væri verið að draga úr þekkingarskilyrðum þeirra manna, sem taka minna próf. Ég hafði getið þess og mun geta þess nánar, þegar frv. um stýrimannaskólann kemur fyrir, að kröfurnar um þekkingarskilyrði minnaprófsmanna eru auknar frá því, sem þær eru nú, og þó að sumum finnist það kannske vera í óverulegum atriðum, þá er það sumsstaðar í verulegum atriðum Og það á ekki sízt að tryggja með því frv., að það sé gengið svo frá við prófin, að þeir einir fái próf, sem kunna það, sem þeim er ætlað að kunna. En ég skal geta þess, að það hefir verið talinn nokkur misbrestur á því, að það væri gengið nógu ríkt eftir því, að minnaprófsmenn kynnu það, sem ætlazt er til, að þeir ynnu. Prófið hefir ekki verið nógu strangt á ýmsum stöðum á landinu. En með frv. um stýrimannaskólann er ætlazt til, að 2 menn, kjörnir af skólastjóra stýrimannaskólans, eigi að vera prófdómendur úti á landi, svo að samræmi fáist í prófin og það sé ekki hleypt frá prófi öðrum en þeim, sem kunna það, sem þeim er ætlað að kunna. Það, sem af þessum mönnum á að vera heimtað, er talið af hinum færustu mönnum fyllilega nægilegt til þess að leiða skip með ströndum fram. Ég skal bæta því við, að sú þekking, sem menn afla sér með meira prófi, er þess eðlis, að menn eiga að geta siglt til annara landa, en reynslan hefir sýnt, að menn fá engu æfingu í að nota þann lærdóm við að sigla hér við strendur landsins, svo að sú þekking, sem menn afla sér með því að taka meira prófið, hverfur í tímans djúp, ef menn sigla hér við strendur landsins, því að hún er ekki notuð nema að litlu leyti. Af þessu sést, að það er alveg nægileg þekking, sem þessir menn fá með hinu minna prófi. Ég hefi mína reynslu af þeim 20 árum, sem ég var til sjós, og var þessi lærdómur ekki notaður nema að mjög litlu leyti á þeim skipum, sem ég sigldi á. Það er annað mál, að ég álít, að menn, sem eru skipstjórar eða stýrimenn, þurfi að fá meiri almenna menntun en þeir hafa haft, sem ekki heyrir beint til sérfræðigreinar. Það, sem ég hafði líka haldið fram, var, að það, sem gert er til þess með þessu frv., er að auka verklega kunnáttu, lengja siglingatímann o. s. frv. Þetta á að auka öryggið. En við erum þeirrar skoðunar, að sú sérfræðilega þekking, sem veitt er með minna prófinu, sé nægileg. Út frá þessu sjónarmiði er það, sem fram hafa komið kröfur um það frá minnaprófsmönnum, að aukið sé við réttindi þeirra og að þeim verði að lögum leyft að sigla á stærri skipum. En hitt er álitamál, hvað langt eigi að ganga í þessu efni. Ef Alþingi hnígur nú að því að láta sitja við það, sem er, og auka ekki réttindi smáprófsmanna, þá er ég sannfærður um, að það verða alltaf uppi kröfur um það að rýmka frá því, sem nú er. Og reynslan verður sú, alveg eins og á þinginu l934, að það verður hópur þm., sem fellst á þessar kröfur, eins og varð í Nd. á því þingi. Hitt er annað mál, sem hv. þm. minntist á, að það er til í landi núna hópur manna, sem hafa meira prófið. En það fer ekki alltaf saman að hafa meira prófið og veru eftirsóttur sem formaður á fiskiskipi. Og þessi krafa er oft sameiginleg sumum útgerðarmönnum og skipstjórunum sjálfum, að veita þeim rétt til þess að fara með stærri skip, og er það af því, að útgerðarmenn hafa reynt þessa skipstjóra hina beztu menn og góða í sínu starfi. Þetta frv. ætlast til þess, að hér sé loku fyrir það skotið, að menn með þessu prófi geti fengið undanþágu, eða þeim sé veittur réttur fram yfir þetta stærðarmark, og segir, að hingað skuli farið og ekki lengra, í eitt skipti fyrir öll.

Þá kem ég að þekkingarskilyrðunum. Ég verð að líta svo á, að sú reikningslega þekking, sem þessir menn fá, sé alveg nægileg fyrir þá, sem eru á fiskiskipum hér við land. Ég býst við, að það sé svo með hv. 1. þm. Reykv., að það, sem hann hefir numið, sé hann alltaf að nota í starfi sínu. En það er það, sem skipstjórar á fiskiskipum gera ekki, a. m. k. ekki á þeim skipum, sem eru staðbundin hér við land. „Hverjir hafa gagn af þessu?“, spyr hv. þm. Vitanlega þeir, sem nú þegar hafa öðlazt minna próf, því að ef þeir hafa reynzt heppnir formenn, þá á að auka réttindi þeirra, svo að þeir megi stjórna skipi, sem er 75 rúmlestir. Og svo eiga allir þeir, sem taka þetta próf hér eftir, að fá þessi sömu réttindi, ef þeir hafa fullnægt þeim skilyrðum og reglum, sem eru settar.

En þá komum við að öðru mikilsverðu atriði, en það er, hvort það eigi að hafa einn skóla eða fleiri. Það er skoðun sjútvn., og það eru fleiri þeirrar skoðunar, að það sé ekki gott að leggja niður smáskólana í þessum fræðum úti á landi. Kröfur landsmanna eru þær, að hafa skólana sem dreifðasta, svo að tilkostnaður við námið verði sem minnstur. Ég býst við, að hér sé um þá sanngirniskröfu að ræða, að við komumst ekki hjá því að hafa skólana fleiri en einn. Í Noregi er 21 skóli, sem undirbýr menn undir þetta starf. Ég man ekki, hvað þeir eru margir í Danmörku, en ég held, að þeir séu 5 eða 6. Ég held, að við komumst ekki hjá því atriði að leyfa þessa smáskóla í stærstu bæjum á landinu.

Um fjárhagslegu hliðina gagnvart útgerðinni í þessu efni er ekki að ræða, því að kostnaðurinn við námið lendir á einstaklingunum sjálfum. Og þar vil ég leggja sérstaka áherzlu á verklega námið, því það er ekki sama, hvort það er trassi eða hirðumaður, sem fer með skip. Það er verklegt, en ekki bóklegt. Það er hægt að veita undirstöðumenntun í því bóklega, en hitt er meiru meðfætt, og það kemur útgerðinni að mestu gagni. Í þessu sambandi má geta þess, að þó að skipstjórastaðan geti verið vel launuð, þá má um hana segja, að hún er ákaflega stopul. Hún er ekki lífstíðarstarf. Það getur verið, að skipstjóri hafi ágætt próf og sé duglegur, en ef honum misheppnast að fiska, þá er hann dottinn úr tigninni og missir stöðuna. Þá er spurningin sú, hvað eigi að gera harðar kröfur til þeirra, sem fá þetta hnoss kannske 1 eða 2 ár, og svo ekki meir, en falla niður í það að vera hásetar. Þess vegna verða menn að athuga það vel, hvort það eigi að vera að gera óþarfa kröfur til þeirra eða ekki. Sumir tolla aftur á móti lengi í þessari stöðu, og ráða þar ýmsar aðstæður.

Ég hafði gert grein fyrir því, að hverju á að hníga í þessu efni, og er það m. a. af því, að ég óttast, að hvað sem hv. Ed. gerir við till. um aukninguna, þá muni hv. Nd. ekki sætta sig við það. Ég get auðvitað ekki sagt um meiri hl. þar, en það eru þar sterk öfl með því að auka þetta úr því, sem við leggjum til.

Það er ekki alveg þýðingarlaust að benda á önnur lönd, og í sambandi við þessa till. má benda á það, að við erum kröfuharðari en aðrar þjóðir. Ég skal ekki dæma um Þýzkaland, en í samanburði við Noreg, Danmörku, Svíþjóð og England erum við kröfuharðastir um skilyrði okkar fiskimanna.

Þá kom hv. þm. að lokum inn á, að hann væri undrandi yfir afstöðu minni út af því, sem okkur hefði borið á milli áður hér á þingi um öryggismál sjómanna. Ég er nú búinn að skýra þá skoðun mína, en ég get endurtekið það enn, að ég álít, að öryggi manna á sjónum sé í engri hættu, og ég veit, að það er álit margra sérfræðinga, að það sé í engri hættu, og eru þeir á minni skoðun um það, að með þessu frv. sé það aukið frá því, sem er. Auk þess er vitanlegt, að með lögum þeim, er sett voru á síðasta þingi um talstöðvar í smáskipum, er þetta öryggi mikið bætt fyrir áhafnir smáskipanna, eins og ég hefi skýrt í umr. um það mál, og til þess að nota slík tæki þarf enga sérþekkingu, en þau geta komið að ómetanlegu gagni þeim skipum, sem aðeins sigla með ströndum fram, eða ekki lengra til hafs en svarar fiskimiðum. Að mannslífin á þessum skipum væru minna virði en á þeim stærri, hefir mér aldrei dottið í hug, því fer fjarri, enda hefði mér aldrei dottið í hug að ljá þessari till. fylgi mitt, ef ég teldi, að með samþykkt hennar væri öryggið skert. — Munurinn á 60 og 73 tonna skipum er ekki mikill, svo að í raun og veru er verið að deila um keisarans skegg. Það má alveg eins halda því fram, og er gert, að smáskipaprófsmaðurinn sé eins fær um að stýra 100 tonna skipi og 60 tonna í innanlandssiglingum; til þess hefir hann næga þekkingu. Reynslan er sú, að fiskimaðurinn getur ekki komið við leiðarreikningi eða „navigation“, vegna þess að hann er á eilífu ferðalagi með veiðarfæri sín og hefir ekki tíma eða tækifæri til að reikna slíkt í því veðri, sem sérstaklega krefst þess, og fer því meir eftir eðlisávísun en útreikningum, hvernig tekst að ná landi. Ég fer ekki frekar út í þetta hér, en þeir þekkja þetta bezt, sem við slíkt hafa átt að búa um áratugi. En mér er fyllilega ljóst, hvar ágreiningurinn er. Hann er um það, hvort þeir, sem hafa farmennskupróf, eigi að víkja fyrir þeim, sem hafa minna próf, eða ekki. Ég hefi ekki rannsakað, hvað mörg skip eru á stærðinni frá 60–75 tonn, en þau eru ekki ýkjamörg; sennilega mun ég geta upplýst hv. 1. þm. Reykv. um þetta atriði við 3. umr.

Þá vil ég drepa á aðra ástæðu, sem er nokkurs virði, og ég vil segja, að það sé mikils virði fyrir þá menn, sem hafa farmennskupróf, að Alþingi slái föstu í eitt skipti fyrir öll, hvar línan skuli dregin, því þá munu verða lægri raddirnar um rýmkun réttinda til handa smáskipaprófsmönnum, en eins og hv. þm. vita, hafa þær raddir verið allháværar undanfarið, sem krefjast rýmkunar.

Hv. þm. var að tala um, að öryggið á farþegaskipunum væri ekki meira samkv. þessu frv. en flutningaskipum nú eftir gildandi lögum. Nú er ekkert, sem bannar smáskipaprófsmönnum að stýra skipum, sem flytja farþega, en eftir þessu frv. er það ekki leyfilegt, heldur á þeim að vera stýrt af meiraprófsmönnum þeim, sem hafa æfingu í að fara með farm á skipum og reynslu um að sigla þeim. Þarna er því hert á kröfunum og öryggið bætt. (MJ: Þetta þykir mér einkennilegt, ekki er það eftir 6. gr.). Það stendur hér í frv. til l. um stýrimannaskóla, 5. gr., með leyfi hæstv. forseta:

1. Þekking á jarðarhnettinum, lögun hans og stærð. bauganeti hans, lengd og breidd. Kompáslínur og kompásstrik.

2. Þekking á kompásnum og á notkun hans, á misvísun, halla (inklination), segulskekkju og hvernig hún verði fundin með jarðlægum athugunum; á skriðmæli, vegmæli, grunn- og djúplóði.

3. Skyn á sjókortum, innihaldi þeirra og notkun

4. Þekking á dagbókarhaldi, leiðarreikningi, straumi, drift, að setja stefnu skipsins og á að finna stað skipsins á kortinu.

5. Að kunna að finna, hvenær flóð verður og fjara.

6. Að kunna að nota sextant til þess að geta fundið stað skips með jarðlægum athugunum. (MJ: Það er alltaf átt við smáskipaprófsmenn, aðeins aukinn siglingatíminn). Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. Ég bið afsökunar. Smáskipaprófið veitir réttindi, en það er gerð krafa um meiri verklega æfingu, sem hlýtur þó alltaf að teljast öryggisauki.

Ég geri ekki ráð fyrir, að þörf sé á að karpa um þetta, en atkv. verði látin skera úr. En þó ég til samkomulags gæti sætt mig við, að takmarkið yrði sett við 60 smálestir, þá veit ég, að því yrði breytt í Nd., því svo mikil sókn er þar í þessu máli. En Alþingi á að vera sá sáttasemjari í þessu máli, sem slær föstu um takmörkin.