11.03.1936
Efri deild: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

34. mál, atvinna við siglingar

Jón Auðunn Jónsson:

Ég á nokkrar brtt. við þetta frv., sem þó eru ekki nema að mjög litlu leyti efnisbreytingar. — við 4. gr. geri ég þá brtt., að e- og d-liður falli niður. Þessi gr. er um kunnáttuskilyrði formanna á 6–15 tonna bátum. Um þessa báta er nú það að segja, að þeir koma daglega að landi og liggja ekki úti. Ég tel ekki nauðsynlegt öryggis vegna, að formenn á þessum bátum kunni að setja stefnur og miðanir á sjókort eftir seguláttum. Hinsvegar er ástæða til, að þeir kunni að nota handlóð, þó að varla sé það notað í sambandi við sjókort, nema þá á stærri bátum, yfir 20 tonn, sem hafa ástæður til að hafa sjókort um borð. Þar eru vanalega tveir klefar, annar fyrir yfirmenn, en hinn fyrir hásetana, en á litlu bátunum er ekki nema einn klefi fyrir alla skipverja, og því varla rúm til að hafa sjókort, enda treysta þessir menn á staðarkunnugleika sinn, er þeir nota handlóðið. Vegmæli nota þeir stundum, en þó fremur sjaldan, og því miður kemur vegmælir ekki að verulegum notum á svo litlum bátum, því að þegar sjór er, þá er ekkert á honum að byggja. Báturinn sigur aftur úr öldunni, og mælingin verður skökk.

Þá er önnur brtt. mín, við 6. gr. frv. Ég tel hættulaust að veita manni, sem verið hefir form. í 5 ár á skipi yfir 30 rúmlestir að stærð og aldrei hefir hlekkzt á sakir vankunnáttu eða trassaskapar, og hefir auk þess vottorð tveggja kunnugra sjódómsmanna — að veita honum rétt til að taka við stærra skipi, allt að 100 rúmlestir að stærð. Það hefir sýnt sig fyrir vestan, að mönnum, sem verið hafa með 40 rúmlesta báta og farið hringinn í kringum landið eftir aflanum, þeim hefir yfirleitt ekki hlekkzt á vegna vanþekkingar og ekki nema um trassaskap hafi verið að ræða; það getur alla hent jafnt, hvort sem þeir hafa meiri eða minni þekkingu. En þessir menn hafa svo mikla praktíska reynslu, að ekki er ástæða til að óttast, að þeir færu sér eða öðrum að voða, þó að þeir fengju leyfi til að fara með skip upp í 100 rúmlestir. Hér er þá aðeins átt við fiskiskip, en ekki flutningaskip. Auðvitað verður það á valdi atvmrh. í hvert skipti, hvort maðurinn fær þessa undanþágu eða ekki.

Þá flyt ég brtt. við 51. gr. c., á þskj. 124. Í þeirri gr. eru ákvæði um það, hver tala vélamanna skuli vera á skipum, miðað við hestaflafjölda vélanna. Flokkunin er 300–800, 800–1200, 1200–2500 hestöfl. Finnst mér heppilegra, þegar byrjuð er að flokka með 500 hestafla millibili, að halda því þá áfram um næsta flokk og láta hann ná frá 800–1300 hestafla. Sumir hafa haldið því fram, að þetta myndi geta breytt samningum, sem gerðir hafa verið milli eimskipafélagsins og Vélstjórafélags Íslands um kaupgjald á skipum. En það getur ekki verið rétt, því að slíka samninga má auðvitað miða við allar hestaflastærðir véla.

Þessi till. hefir verið flutt af því, að komið hefir fram, að á einu skipi eimskipafél., Gullfossi, ætti að fjölga vélstjórum um einn. Þetta skip er nú orðið gamalt og farið að ganga úr sér, og eru ekki líkur til, að það verði haft í förum mörg ár enn. Eru því talsverðir erfiðleikar og mikill kostnaður við að búa út sérstakan klefa banda aðstoðarmanni þessum. Í skipinu var reyndar áður fyrr slíkur klefi, en hann var tekinn handa þjónustufólki. Ef nú ætti að fara að útbúa annan slíkan klefa, hlyti því að fylgja mikill, kostnaður, og við það myndi auk þess tapast pláss fyrir farþega. Hlyti því af þessu að leiða mikil útgjöld fyrir eimskipafélagið, sem yrðu öllu tilfinnanlegri, þegar þess er gætt, að þetta er 20 ára gamalt skip, sem líklega fer bráðum að hætta ferðum. Er ekki ástæða til að heimta meira af útgerðinni en þarf, og kunnugir segja, að á þessu skipi sé ekki þörf á að bæta við nýjum vélamanni, þar sem komizt hefir verið af án hans hingað til.