11.03.1936
Efri deild: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

34. mál, atvinna við siglingar

Jón Auðunn Jónsson:

Við höfum nú rætt allmikið um þetta frv., og ætla ég ekki að fara lengra út í þær umr. að þessu sinni, en út af því, sem hv. frsm. meiri hl. sjútvn. sagði um mínar brtt., vil ég gera nokkrar aths. Viðvíkjandi brtt. mínum við 4. gr., um formenn á 6–l5 rúmlesta bátum, þá skal ég taka það fram, að þegar slíkir bátar fara í langferðir milli landsfjórðunga, þá eru það alltaf meiraprófsmenn, sem flytja þá. Viðvíkjandi bátum, sem koma daglega að landi, er því krafizt nauðsynlegs öryggis með minni brtt.

Hv. frsm. er hræddur við brtt. mína við 6. gr. og telur, að hún muni fá harða mótstöðu. Meiraprófsmenn eru nú alltaf mótfallnir því að auka réttindi minnaprófsmanna, en þó hefir n. gengið inn á að auka réttindi þeirra úr 60 rúmlestum í 75 rúmlestir, og jafnvel viðurkennt, að þeir ættu að fá rétt til að færa skip upp í 100 rúmlestir. Þess vegna hefi ég flutt þessa brtt. um undanþágu fyrir þá menn, sem fulltreysta má um meðferð þessara skipa og manna þeirra, sem á þeim eru. Það er rétt hjá hv. frsm., að ég mun ekki leggja það kapp á að fá þessa brtt. samþ., að ég greiði atkv. gegn frv., þó að hún verði felld, því að ég tel, að það feli í sér það veigamiklar umbætur frá eldri lögum, að frv. eigi fram að ganga. Að því er snertir brtt. mína á þskj. 124, þá sagði hann, að það þyrfti að skapa aðstöðu fyrir vélstjóraefni með því að stofna handa þeim aðstoðarmannspláss á þessum skipum, en hinsvegar talaði hann um, að skipið, sem hér var um að ræða, Gullfoss, mundi ekki mælast það stórt, að þar yrði skylt að hafa aðstoðarmann. Hér þykir mér kenna mótsagnar hjá hv. þm. Það má vel vera, að vélin í Gullfossi mælist ekki hafa 1200 hestöfl, en brtt. mín er miðuð við það, sem hann viðurkenndi, að að mundi verða stefnt, sem sé að auka kraft véla í skipum í hlutfalli við stærð frá því, sem nú er. Þannig að jafnvel smærri skip en Gullfoss gætu komizt yfir hámarkið, 1200 hestöfl. Hinsvegar er það vitað, að engin vanræksla hefir átt sér stað um meðferð á vélinni í Gullfossi, þó að þar hafi ekki verið nema þrír vélstjórar og enginn aðstoðarmaður. Ég hygg, að það komi niður á yfirvélstjóranum aðallega, að ekki er aðstoðarmaður. Það mun vera reglan að skipta sólarhringnum í 8 tíma vaktir milli vélstjóranna, en þegar aðstoðarmaður er, mun hann aðallega létta starf yfirvélstjórans, en ég sé ekkert á móti því, að hann hafi meira starf en hinir vélstjórarnir, þar sem hann hefir talsvert hærra kaup en hinir. Með tilliti til þess, að vélastærð skipanna verði aukin, er brtt. mín einnig sanngjörn, því að ekki sýnist óeðlilegt, að tillit verði tekið til þess með starfsmannafjöldann, hvað mikið skipin geta innunnið sér í rekstrinum, án þess þó að skerða öryggi þeirra eða misbjóða starfsmönnunum. Við hv. þm. höfum deilt um það á öðrum grundvelli, hvað fært væri að leggja á íslenzka útgerð af kostnaði og hvort íslenzk útgerð bæri meiri kostnað en útgerð nágrannaþjóða vorra, einkum Norðmanna, og við höfum ekki orðið á eitt sáttir. Ég hefi ekki átt kost á því að bera kostnaðinn á farþegaskipum okkar saman við kostnað við slík skip með öðrum þjóðum, en á flutningaskipunum er kostnaðurinn við mannahald þriðjungi hærri hjá okkur en Norðmönnum, en við Norðmenn eigum við harðasta samkeppni á því sviði.