11.03.1936
Efri deild: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

34. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég nenni ekki að pexa meira við hv. minni hl. sjútvn., þm. N.- Ísf., um það, hvað bátsformenn eigi að kunna, en ég hygg, að réttara sé, að ákvæði 4. gr. frv. standi óbreytt, og; tel það öruggara. Brtt. sína skilst mér hann miða helzt við sérstaka staðhætti í einum landshluta, á Vestfjörðum, eða við Ísafjarðardjúp eingöngu. Um hina brtt. á sama þskj. er það að segja, að hún gengur of langt. Kröfur um aukinn rétt fyrir minnaprófsmenn eru háværar, og n. hefir tekið þær nokkuð til greina, þar sem hún leggur til að auka réttindi þeirra til 75 rúmlesta skipa frá 60, en lengra er ekki rétt að fara. N. hefir hér miðlað málum og reynt að fara bil beggja.

Um brtt. á þskj. 124 má að sjálfsögðu deila. Hann vildi halda því fram, að ég hefði ekki verið sjálfum mér samkvæmur í því, sem ég sagði um þá brtt., en það er ekki rétt. Ég benti á vélafjöldann í skipunum sem eina höfuðástæðu gegn till. Hann var að tala um þrískipta vakt; ég hafði ekkert á það minnzt. Ég veit, að þegar skipin sigla milli landa, mun gilda þrískipt vakt, enda mun það vera orðin algild regla fyrir þá menn, sem undir þiljum vinna, og er víst óhætt að segja, að sú regla muni nú vera upp tekin í öðrum löndum. En það gerir þrískipta vakt auðveldari, ef mannafjöldinn verður eins og gert er ráð fyrir í frv. Það er rétt hjá hv. þm., að það er viðurkennt, að meðferð vélanna í Gullfossi hefir verið prýðileg, en ég skal honum til upplýsingar geta þess, að fyrstu árin, sem það skip sigldi, var á því aðstoðarmaður við vél auk þriggja vélstjóra, þó að hann færi vegna samninga, sem gerðir voru við vélstjórana, að vísu ekki nema til bráðabirgða, þó hann væri aldrei endurnýjaður.

En þar sem, eins og ég hefi tekið fram, að þetta skip, sem brtt. á þskj. 124 á að fría frá því að hafa aðstoðarmann í vél, er ekki það stórt, að það komi undir það ákvæði, eins og frv. nú er, þá tel ég brtt. ekki einasta alveg óþarfa, heldur muni hún verða til þess að valda ruglingi á máli þessu og spilla þeim friði, sem um frv. er nú, eins og það er.