28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

103. mál, landsreikningurinn 1934

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 6. þm. Reykv. minntist á, að það væri eðlilegt, að endurskoðendur hefðu skyldu og aðstöðu til að skyggnast í reikninga hinna einstöku ríkisstofnana- og að tilhögun endurskoðunar þyrfti að breyta í það horf. En þetta er misskilningur. Hér þarf engu að breyta. Endurskoðendum er skylt að skoða alla undirreikninga, að því leyti, sem þeir ekki treysta hinni umboðslegu endurskoðun, alveg jafnt hvort heldur eru skilagreinar frá embættismönnum eða frá einstökum ríkisstofnunum, ef þeir ekki treysta hinni umboðslegu endurskoðun.

Mér er ekki kunnugt um, að hve miklu leyti þeir athuga reikninga einstakra fyrirtækja, en ég sé á aths. þeirra að þeir gera það að einhverju leyti; ég sé, að sumar þeirra eru um ríkisstofnanir, eins og eðlilegt er. Þess vegna þarf hér engu að breyta. Endurskoðendur hafa þessa skyldu, og ég efast ekki um, að þeir rækja hana eftir því, sem tími þeirra leyfir.

Auk þess vil ég benda á, að á síðari tímum hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess, að þingið geti líka á annan hátt fylgzt með rekstri ríkisstofnananna. Með rekstarráðunum er flokkum þingsins tryggt að fá viðbótarkontrol við það, sem endurskoðendur hafa tíma til að framkvæma það hefir ekkert komið fram, sem gefur tilefni til að ætla, að endurskoðun landsreikninganna sé ekki í lagi.

Hv. þm. minntist á eitt atriði í landsreikningnum frá 1934, sem hann áleit að sýndi, að það væri þörf fyrir frekara eftirlit í þessum greinum en nú væri, og byggði hann á því, að endurskoðendur landsreikninganna hefðu ekki skyldu til þess að endurskoða hjá ríkisfyrirtækjum, sem er rangt, því að þeir hafa einmitt skyldu til þess; þetta dæmi var það, að í rekstrarreikningi, sem hefði komið frá skipaútgerð ríkisins, væri tilfærður rekstrarkostnaður yfir til 1934, og byggði hv. þm. dæmi sitt á því, að þessi reikningur mundi aldrei hafa komið fyrir augu endurskoðenda landsreikninganna, af því að hann var saminn af skipaútgerð ríkisins. En þetta er mesti misskilningur, því að auk þess, sem endurskoðendur landsreikninganna hafa þá skyldu að líta eftir reikningum skipaútgerðarinnar, þá er þessi sérstaki kostnaður við bifreiðina lagður út til bráðabirgða í skipaútgerðinni, en honum er ávísað af 19. gr. landsreikningsins til skipaútgerðarinnar aftur, og reikningur bifreiðarinnar kemur sem fylgireikningur við 19. gr. fjárlaganna, sem endurskoðendur landsreikninganna athuga allra greina bezt, svo að því fer fjarri, að þetta dæmi hv. þm. gefi nokkuð undir fótinn með það, að nauðsynlegt sé að breyta nokkuð til í þessu efni. Þessi bíll, sem hv. þm. er að tala um, er ekki lengur í eigu ríkisins, því að þegar það kom í ljós, hvað hann var dýr í rekstri, var hann seldur; eins og hv. þm. drap á, var hafður sérstakur bifreiðarstjóri í þjónustu ríkisstj., sem hafði 5500 kr. í laun en jafnframt því sem það ráð var tekið, að selja bílinn, var þetta embætti afnumið og þessi bifreiðarstjóri var gerður að bifreiðaeftirlitsmanni í stað annars manns, sem látinn var víkja úr þjónustunni af ástæðum, sem ekki er rétt að blanda inn í þessar umr. Ég skal geta þess, að í stað þessarar bifreiðar var keypt önnur minni, sem höfð er til afnota fyrir stjórnarráðið án sérstaks bifreiðarstjóra. Svo skal ég geta þess að fyrir utan þennan bíl, sem stjórnarráðið á, eiga ríkisstofnanirnar einn bíl, sem stjórnarráðið fær stundum lánaðan, ef sérstaklega þarf á að halda, og er þetta sambærilegt við það að t. d. landssíminn á bíl, og vegamálastjóri hefir bíl til afnota í þágu vegamálanna, bílaeftirlitsmennirnir hafa tvo bíla, og loks hefir Björn Blöndal löggæzlumaður frá upphafi haft bíl til afnota við sitt starf. Þessir bílar eru ekki settir á efnahagsreikning, en vitanlega er til skrá yfir þá og önnur tæki og áhöld, sem ekki eru á reikningi.

Ég hygg nú að þessar upplýsingar nægi til þess að sýna, að þetta dæmi, sem hv. þm. nefndi því til rökstuðnings, að nauðsynlegt væri að breyta til um fyrirkomulagið á endurskoðun landsreikninganna, nær ekki tilætluðum tilgangi, því að bæði er endurskoðendum landsreikninganna skylt að endurskoða líka reikninga ríkisstofnananna, og svo kemur þessi reikningur, sem hér um ræðir, alveg sérstaklega fram sem undirreikningur á 19. gr. landsreikningsins.