30.04.1936
Neðri deild: 60. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

34. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið af mþn. þeirri, sem sett var til þess að semja löggjöf um atvinnu við siglingar og skilaði frá sér þremur lagabálkum, sem lágu fyrir þinginu í fyrra, en ekki varð útrætt um, en liggja nú fyrir þessu þingi með nokkrum breyt., sem aðallega hafa verið gerðar fyrir tilmæli þeirra aðilja, sem þessi mál snerta. Eitt af þessum frv., frv. um vélstjóraskólann í Rvík, er nú þegar orðið að l. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er nú komið til 2. umr. Og frv. um stýrimannaskólann er unnaðhvort að eins ófarið frá Ed. eða að komast til Nd.

Frv. þetta er flutt af sjútvn. Ed., og það hefir verið athugað í sjútvn. þessarar d. Fyrir n. lágu ýms plögg frá meðlimum ýmissa stéttarfélaga þeirra manna, sem við þessi l. eiga að búa. Og ég hygg, að það sé nokkuð almenn skoðun meðal þessara manna, að þetta frv. stefni til bóta frá því, sem nú er, þó að svo sé reyndar, að nokkurs ágreinings gæti á milli manna um einstök atriði frv.

Sjútvn. Nd. var það ljóst, að það er mjög brýn nauðsyn á, að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi. Þess vegna varð það að samkomulagi, að n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, þó að í n. væri til athugunar sérstaklega eitt atriði, sem snertir þá vélstjóra, sem hafa útskrifazt úr vélstjóraskólanum hér í Rvík, áður en rafmagnsdeildin var sett á stofn við skólann. Frv. gæti orðið þess valdandi, að þessir menn gætu ekki komizt lengra á þeirri braut sökum þeirra ákvæða, sem eru í þessu frv. Þetta mundi geta snert sárfáa menn, eitthvað 3 eða 4, sem reyndar mætti segja um, að hefðu verið svo ungir í skóla, að þeim væri kannske ekki ofætlun að bæta við þessu nýja aukanámi. Samt kom það álit fram innan n., að gjalda bæri varhuga við því að leggja stein í götu þessara manna, og hafa því tveir sjútvnm. flutt brtt., sem gengur í þá átt, að þeir geti haldið áfram á braut sinni þrátt fyrir hina nýju lagasetningu. Býst ég þó við því, að samkomulag geti orðið um það, að þeir taki brtt. sína aftur til 3. umr., svo að n. geti tekið hana til velviljaðrar athugunar og lagað frv. með tilliti til hennar, ef þurfa þykir.

Þá vil ég víkja nokkuð að tveim atriðum, sem hafa verið talsvert umdeild og snerta skipstjóra- og stýrimannaréttindi á smærri skipum. Önnur breyt. frá núgildandi lögum er sú, að í stað þess að hingað til hafa próflausir menn eigi mátt stjórna stærri bát en 12 smálesta, er nú smálestatalan hækkuð upp í 13 smál., ef vissum skilyrðum er fullnægt. En skilyrði þau, sem sett eru, eru svo ströng, að ég ætla, að þau jafngildi að miklu leyti þeim kröfum, sem áður voru gerðar við hið minna fiskiskipstjórapróf, og með tilliti til þessa tel ég fullkomlega réttmætt að hækka smálestatöluna.

Þá kem ég að því atriðinu, sem mest er umdeilt, en það er, að rúmlestatala þeirra skipa, sem menn með smáskipstjóraprófi hafa rétt til að stjórna, verði færð úr 60 upp í 75. En jafnframt eru auknar mjög kröfur um undirbúning og menntun frá því, sem var. Til þess að menn geti orðið skipstjórar hefir stýrimannstími þeirra verið lengdur um 4 mánuði, og sé um skipstjóra á flutningaskipi að ræða, verða þeir að hafa siglt sem stýrimenn áður á slíku skipi. Hásetatími þeirra, sem geta orðið stýrimenn, hefir verið lengdur um ár o. s. frv. Ég verð í þessu sambandi að víkja að frv. því um stýrimannaskólann, sem liggur nú fyrir þinginu. Þar eru gerðar þær kröfur til þeirra, sem taka smáskipapróf, að þeir stundi nám í 4 mánuði minnst. Þá hafa kröfur við smáskipapróf í ýmsum atriðum verið mjög auknar, einkum í siglingafræði. Menn verða að kunna að fara með sextant o. s. frv., sem ekki hefir verið krafizt við slík próf áður. Þá eiga menn að hafa kunnáttu í því að fara með segl og aðra skipshluti, kunna helztu lagaákvæði í sjórétti og geta veitt algengustu hjálp í viðlögum. Þetta eru allt nýmæli, enda var sjálfsagt að gera auknar kröfur með auknum réttindum. Ég sé, að hér liggur fyrir brtt. frá hv. þm. Hafnf., um að færa smálestatöluna niður í 60 smálestir, eins og áður var. Ég vænti þess þó, að hann geti tekið þessa brtt. aftur til 3. umr., eins og sjútvnm. tveir munu gera um sína brtt., svo að n. gefist kostur á því að athuga hana.

Ég vil að lokum benda á það, að mikil áherzla er lögð á það, að þetta frv. nái nú fram að ganga. Ýms ákvæði, sem snerta vélastærðir o. þ. h., vantar nú alveg, eða eru svo óljós, að atvinnumálaráðuneytið er í vandræðum með, hvað gera skuli í hvert skipti. Auk þess er samþykkt þessa frv. nauðsynleg í sambandi við frv. þau um stýrimanna- og vélstjóraskólana, sem að lögum verða á þessu þingi.