07.05.1936
Neðri deild: 66. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

34. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Ég hefi aldrei haldið því fram, að ekkert þurfi annað en að stækka skipin, en ég hefi haldið því fram, að það væri aukið öryggi að því að hafa skipin stærri, ef um sömu siglingar væri að ræða. Ef um er að ræða 60 smálesta skip, sem siglir vissa leið, þá hlýtur að vera fullt eins mikið öryggi í því að öðru jöfnu, að skipið sé 75 smálestir.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að ég hefi ekki orðið þess var, að meira prófs væri krafizt af þeim bílstjórum, sem stýra stóru bílunum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, heldur en öðrum bílstjórum.

Hinsvegar eru kannske einhverjir, sem halda, að það sé nóg að stækka hlutina. Hv. 3. þm. Reykv. hefir kannske einhverja reynslu í því að bæta úr ágöllum með því að stækka þá. (JakM: Ég skil ekki þessa rökfærslu hv. þm.). Ég sé ekki, að það sé nokkurt öryggistap í því, þótt þeir, sem hafa smápróf, fái að sigla 75 smálesta skipum, í staðinn fyrir 60 smál. skipum, á sömu siglingaleið. Þetta er eingöngu miðað við fiskiskip, sem sigla við strendur landsins, en hvortveggja notuð við sama starf og hafa nákvæmlega sömu siglingaleið.