07.05.1936
Neðri deild: 66. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

34. mál, atvinna við siglingar

*Jakob Möller:

Það vill nú svo til, að misjafnar kröfur eru gerðar til bifreiðarstjóra eftir því, hve mikils þykir vert um öryggi, eða eftir því, hve sá flutningur, sem þeir flytja, er talinn dýrmætur. Það eru gerðar meiri kröfur til þess bifreiðarstjórans, sem á að fá leyfi að flytja fólk, heldur en til þess, sem stjórnar vöruflutningabifreið. Það sama á við um stærri og minni skip. Það eru gerðar meiri kröfur til þeirra, sem stjórna stóru skipunum, vegna þess að þeim er ætlað að sækja verri sjó og lengri leiðir og erfiðari, og þau hafa fleiri menn.

Ég vísa því algerlega frá að svara því, að hér sé aðeins um 15 tonna stækkun að ræða. Það er búið smásaman að auka réttindi smáprófsmanna frá því að hafa rétt til að sigla 12 tonna bát og upp í það að mega sigla 60 tonna skipi. Það er búið að fara fram á, að þeir fái rétt til að stjórna 100 smálesta skipum. Að vísu fór það svo, að ýmsum blöskraði sú krafa, og henni fékkst ekki framgengt, en þá var gengið á hitt lagið, að ná því takmarki í smærri skrefum, og það er engin hætta á, að ekki verði haldið uppteknum hætti og reynt að læðast áfram í stærri eða smærri skrefum eftir því, sem getan leyfir.

Hv. þm. sagði líka, að þetta skipti ekki miklu máli, þegar haldið sé sömu siglingaleiðum. En þetta er ekki rétt. Jafnóðum og skipin eru stækkuð, breytast siglingaleiðirnar, og þá breytist öryggið meira en hv. þm. vill vera láta.

Ég geri ráð fyrir, að öllum þeim, sem um þetta mál hugsa, sé það þegar svo ljóst, að ég bæti ekki um það með lengri ræðu.