07.05.1936
Neðri deild: 66. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

34. mál, atvinna við siglingar

*Pétur Ottesen:

Ef um er að ræða öfgar í sambandi við þessar umr., þá er erfitt að gera mun á, hvoru megin þær eru meiri, — hjá þeim, sem að frv. standa, eða hinum, sem vilja breyta því.

Hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. Hafnf. tilfæra sem öfgar þau orð hv. 3. landsk., að skipin séu því öruggari, sem þau eru stærri og betur úr garði gerð, en sjálfir byggja þeir afstöðu sína á því, að ef nógu oft sé bætt við 15 smálestum, þá verði þetta svo eða svo. Hér er ekki um annað að ræða en ein 15 tonn, og ef ummæli hv. 3. landsk. stefna út í ófæru, þá lenda þessi orð ekki síður á kafi í þeirri keldu.

Það, sem hér á að gera upp með sér, er ekkert annað en það, hvort sú bóklega fræðsla og verklega þekking, sem kröfur eru gerðar um við smápróf, sé nægjanleg til þess að fela þeim mönnum, sem það próf hafa tekið, stjórn á þeim skipum, sem eru 75 smálestir að stærð. Allt það, sem fer út fyrir þetta, er til þess eins að kasta ryki í augu fólks og gera málið tortryggilegt.

Það er yfirleitt álit sjómanna, að sú verklega og bóklega þekking, sem þessir menn þurfa að hafa, sé nægileg til þess, að þeim sé trúað fyrir að stjórna skipum af þessari stærð, og það því fremur sem þessi skip sigla alveg eins eftir því, hvernig stendur á með fisk hér við strendur lands á hverjum tíma árs. Þar á er enginn munur, hvort sem skipin eru 60 eða 75 smálestir að stærð.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði um, að siglingaleiðirnar breyttust, ef skipin væru höfð stærri. Nei, síldin og fiskurinn halda sinni göngu jafnt fyrir það, hvort skipin eru stór eða lítil, og við sækjum fiskinn og síldina nákvæmlega á sömu mið á 60 og 75 tonna skipunum. Það, sem hér er um að ræða, er ekkert annað en það, hvort það sé ekki full sanngirniskrafa, að þeir menn, sem hafi þessa bóklegu og verklegu þekkingu, hafi leyfi til að stjórna þessum skipum. Það er þess vegna engin fjarstæða, sem hv. 3. landsk. hefir haldið fram, og það á ekki að spilla fyrir þessari sanngirniskröfu, þótt skipin séu þessu stærri.

Ég vænti þess, að hv. d. líti svo skynsamlega á þetta mál, að hún geti orðið við kröfum sjómanna og útgerðarmanna, sem standa að smærri útgerðinni, og samþ. frv. Við verðum þess oft varir hér á þingi, að skólagengnir menn, og þá einkum þeir langskólagengnu, gera lítið úr þeirri þekkingu, sem er fengin með reynslu í daglegu lífi, í samanburði við þá bóklegu fræðslu. Því ber ekki að neita, að bókleg fræðsla er góð, en ef henni fylgir ekki sú þekking, sem fengin er í skóla reynslunnar, þá verður sú fræðsla oft haldlítil. Þess vegna má ekki gera of lítið úr þeirri þekkingu, sem aflað hefir verið með reynslu, og það er raunalegt, hve illa gengur að fá þessari þekkingu fulla viðurkenningu, og hér kemur það glögglega fram. Í þessu sambandi má ef til vill benda á þær siglingaþjóðir, sem eru í nágrenni við okkur; t. d. Danir gera ekki meiri kröfur um nám fyrir þá, sem sigla innanlands, þótt skipin séu 100 smálestir að stærð. Ég hygg, að þetta sé svipað í Noregi. Þetta er sönnun þess, að það, sem hér er farið fram á, getur ekki talizt óforsvaranlegt, þegar bæði er litið á álit sjómannastéttarinnar sjálfrar og á það, hvernig með þetta er farið hjá jafnmiklum siglingaþjóðum eins og Norðmönnum og Dönum.