07.05.1936
Neðri deild: 66. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

34. mál, atvinna við siglingar

*Jakob Möller:

Það er meira en svo, að ég dragi það í efa, að hv. þm. Borgf. hafi sjómannastéttina að baki sér í þessu máli. Ég þverneita því. Ég er viss um, að það er algerlega tilhæfulaust. Það, sem sjómennirnir krefjast fyrst og fremst, er öryggi.

Aðrar fullyrðingar hv. þm. er auðvelt að hrekja. Hann heldur því fram, að siglingaleiðin sé hin sama, hvort sem skipin séu stór eða lítil. Hvers vegna hafa menn þá verið að smíða stærri og stærri skip? Hvers vegna var nokkurntíma farið að smíða önnur skip en litla árabáta? Var það eingöngu til þess að auka öryggið? Það vita allir, að þetta er gert til þess að geta komizt víðar yfir, til þess að geta breytt siglingaleiðunum og geta sótt betur sjó. En hvað fylgir þessu? Eftir því, sem skipin hafa orðið stærri, hafa þau verið lögð í meiri hættu, en því meiri kröfur um þekkingu hafa líka verið gerðar til þeirra, sem skipunum stjórna. Það er þess vegna augljóst, að það, sem hv. þm. Borgf. fer með í þessu sambandi, er ekkert annað en þvættingur, enda getur hver maður sagt sér það sjálfur, að skipin eru höfð stærri og stærri af því, að þau eiga að fara víðar yfir, og þau eru lögð í því meiri hættu, sem þau eru stærri og betur útbúin, og þess vegna þarf þekking og leikni skipstjórans að vera því meiri.

Í sambandi við það, sem hv. þm. sagði, að þetta væru aðeins 15 smálestir, sem hér væri talað um, skal ég aðeins geta þess, að þetta eru a. m. k. þriðju ef ekki fjórðu l5 smálestirnar, sem bætt er við stærð þeirra báta, sem smáprófsmenn hafa rétt til að stjórna. Ég man eftir því, þegar um þetta sama atriði var deilt á þingi 1922, hvernig þá söng í hv. þm. Borgf. og þeim öðrum, sem honum fylgdu þá, og þeir hafa ekki dregið af sér við að auka rétt þeirra manna, sem hafa minnstu þekkinguna, og ég veit, að þeir halda áfram á sömu braut svo langt sem þeir komast. En það er þetta, sem þarf að stöðva, og það nú þegar, vegna öryggis sjómannanna.