28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

103. mál, landsreikningurinn 1934

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að ef almenningur mæti þessar 4 bifreiðar, sem hér um ræðir, þá kæmist hann að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti ekki nema 2. Ég veit ekki, á hvaða rökum þessi niðurstaða hv. þm. er reist, og ég veit ekki, hvort hv. þm. er þess umkominn að dæma um það, hvort bifreiðaeftirlit ríkisins þarf 1 eða 2 bíla eða hvort sá maður, sem hefir sérstakt eftirlit með vegum og heldur uppi stórkostlegri starfsemi til þess að koma í veg fyrir áfengisbruggun, þarf engan bíl; ég veit ekki, hvort hann getur dæmt um þetta, en ég held, að hann skorti kunnugleik til þess að kveða upp dóm um þetta, og vil ég benda hv. þm. á það, að hann ætti a. m. k. að treysta því, að flokksbróðir hans, hv. 1. þm. Skagf., hefði ekki lagt of mikið í kostnaðinn við þessi mál, þegar hann var ráðh., en það var þó svo, að hann hafði sama bílakosti á að skipa til þessara mála og núverandi stj. hefir. Þá voru 2 bílar til afnota fyrir bílaeftirlitið og 1 fyrir Björn Blöndal, eins og nú er.

Hv. þm. sagði, að Björn Blöndal hefði 2 bíla; það er rangt. Hann hafði bílskrjóð, sem orðinn var mjög gamall og svo dýr í rekstri, að ekkert vit var í að halda þessum bíl, og var því keyptur annar bíll, en gamli bíllinn, sem lagður var til hliðar, er skráður enn, enda þótt hann sé ekki í notkun lengur mér vitanlega, svo að það er algerlega rangt með farið hjá hv. 6. þm. Reykv., að þessi löggæzlumaður hafi tvo bíla til afnota við starf sitt.

Annars þykir mér vænt um, að þessar umræður komu fram um þessi bílamál, því að á þann hátt hefir gefizt tækifæri til þess að upplýsa það, að núv. ríkisstj. hefir einmitt gert það til sparnaðar í þessu máli, að hún hefir látið stjórnarráðið fá lítinn bíl í staðinn fyrir stóran, og hún hefir hætt að láta stjórnarráðið hafa sérstakan bílstjóra, sem hafði, eftir því sem hv. 6. þm. Reykv. hefir sjálfur upplýst, á sjötta þús. kr. í laun. Mér þykir vænt um, að þessi hv. þm. hefir minnzt á þetta, til þess að geta upplýst það, að núverandi ríkisstj. hefir ekki aukið þennan kostnað, heldur þvert á móti gert þessar ráðstafanir til þess að lækka hann.

Þá talaði hv. þm. um, að auglýsingakostnaður áfengisverzlunarinnar hefði mjög aukizt. Ég hefi ekki í höndunum, frekar en hv. þm. gat til um, nákvæmar upplýsingar um þetta, en ég vil benda honum á það, að hann þarf ekki annað en að snúa sér til þess fulltrúa, sem Sjálfstfl. á í rekstrarráði því sem hefir eftirlit með áfengisverzluninni, til þess að hann geti fengið sundurliðaðan þennan kostnað. Annars finnst mér koma fram í þessum ummælum hv. þm. vantraust á þeim manni, sem hans flokkur hefir kosið til þess að vera endurskoðandi landsreikninganna, því að ef hv. þm. treystir honum, þá hefði hann ekki þurft annað en að biðja hann um að athuga vel þessar stofnanir, sem hv. 6. þm. Reykv. hefir grun um, að ekki séu vel reknar. Að svo stöddu vil ég ekki taka undir þetta vantraust með hv. þm., því að ég hefi ekki orðið var við annað en að þessi hv. þm. hafi leyst þetta verk af hendi með samvizkusemi. Út af fyrirkomulagi endurskoðunarinnar vil ég segja það, að endurskoðun er allsstaðar þannig háttað, þar sem ég þekki til — og ég hefi dálítið kynnt mér, hvernig þessu er háttað á Norðurlöndum — að hún er framkvæmd af tveim aðiljum; annarsvegar er sú deild stjórnarráðsins, sem hefir endurskoðun með höndum, og er sú endurskoðun að mestu tölulegs eðlis, en svo er endurskoðun landsreikninganna í hverju landi, og er þar höfð með höndum frekar það, sem margir kalla „kritiska“ endurskoðun; þar er ekki farið eins nákvæmlega út í tölurnar, en hinsvegar er frekar farið í gegnum reikningana með það fyrir augum að gagnrýna sjálfan reksturinn, og held ég, að til þess sé ætlazt í stjskr. okkar og í þeim lögum, sem sett hafa verið um endurskoðun hjá ríkinu, að það sé sérstaklega höfð þessi gagnrýnandi eða „kritiska“ endurskoðun. Það má vitanlega deila um það, hvort núverandi endurskoðendum landsreikninganna eru ætluð það mikil laun, að þeir geti eytt nógum tíma í starfið; ég man ekki, hvað launin eru mikil, en ég hygg, að þau séu þó það há, að þeir geti komizt yfir mjög mikla „kritisku“ endurskoðun með því að vinna hæfilegan tíma fyrir þeim launum, sérstaklega ef þeir notfæra sér þær upplýsingar, sem standa þeim til boða í sambandi við starf þeirra.