08.05.1936
Neðri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

34. mál, atvinna við siglingar

*Finnur Jónsson:

Síðast er atkvgr. fór hér fram um þetta mál, stóðu flestir þeir þm., sem greiddu atkv. með brtt. hv. þm. Hafnf. og hv. 3. þm. Reykv., í þeirri trú, að þeir væru að samþ. till., sem væri í samræmi við till., sem hafði verið samþ. hér áður, en var það alls ekki ljóst, að með samþykkt brtt. þeirra væru þeir að gera þeim mönnum, sem tekið hafa hið eldra próf, órétt. Það er með öllu víst, að sú aukna kennsla, sem gert er ráð fyrir í stýrimannaskólanum. gerir ekki betur en vega upp á móti þeirri 5 ára reynslu, sem ætlazt er til, að þeir menn með eldra prófinu hafi, sem öðlazt geta þessi réttindi. Það, sem mestu varðar, er að þekkja og kunna að fara með áhöld þau, sem nauðsynleg eru til siglinga á þessum skipum, og geta áttað sig á landtöku. Til þess þurfa menn að þekkja á áttavita, logg og sjókort. Hver maður með smáskipaprófi lærir allt, sem hann þarf til að kunna á þetta. Ég fullyrði það, að maður með hinu eldra prófi er færari um að taka að sér stjórn á 75 smálesta skipi eftir fimm ára skipstjórn heldur en maður, sem nýskroppinn er úr skóla. Það er því aðeins rangfærsla, að þessi breyting Ed. dragi úr öryggi fyrir skip og skipshafnir. Ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að hv. þdm. vilji láta þetta frv. daga uppi, svo að bæði hin lögin um skólana verði ónýt.