21.03.1936
Neðri deild: 30. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

81. mál, iðja og iðnaður

*Flm. (Emil Jónsson):

Með l. frá 1927, nr. 18 31. maí það ár, var gerð fyrst. tilraunin til þess að setja löggjöf um réttindi og skyldur iðnaðarmanna hér á landi. Þetta mál á sér nokkuð langa sögu, því að þótt iðnaðarmannastéttin hér á landi sé ekki mjög gömul, þá er hún þó nokkuð gömul, og meðal iðnaðarmanna hafa verið uppi ýmsar uppástungur að þessari lagasetningu, áður en lögin voru staðfest. Þessi lög frá 1927 fóru aðallega í þá átt að gera grein fyrir því, hvaða skyldur iðnaðarmenn eiga að uppfylla og hvaða réttindi þeim verða síðan áskilin í staðinn. Síðan þetta gerðist hefir margt breytzt hér á landi. Iðnaðarmönnum hefir fjölgað, sennilega meira en nokkurri annari atvinnustétt landsins, og henni hefir meira að segja fjölgað á sama tíma, sem einni aðalatvinnustéttinni hefir fækkað. Við þessa fjölgun, og eins við sköpun á ýmsum nýiðnaði í landinu, hafa kröfur iðnaðarmanna breytzt, svo að afleiðingin af því verður nauðsyn á því, að þessum lögum verði breytt.

Það var að vísu svo í upphafi, þegar lög þessi voru sett 1927, að iðnaðarmenn voru þá þegar nokkuð óánægðir með eitt atriði laganna. Þeir tóku að vísu fegins hendi við því, sem þeir fengu, en strax árið eftir, 1928, hóf iðnaðarmannafélagið og iðnráðið hér í Rvík undirbúning til þess að fá þessum lögum breytt. Það, sem þeir voru aðallega óánægðir með, var það, að lögin gilda aðeins fyrir kaupstaðina. Eins og nú er, nær þessi lagasetning ekki lengra, en nú eru, eins og kunnugt er, hafðar um hönd ýmiskonar þýðingarmiklar iðngreinar fyrir utan kaupstaðina, bæði í kauptúnum og sveitum, og það er náttúrlega ekki síður ástæða til þess, að þessi lagasetning nái líka til þeirra staða. Þess vegna var það þegar í upphafi fyrsta krafa iðnaðarmanna, að lögin næðu til alls landsins. Þessi breyt. er tekin upp í þetta frv., sem hér liggur fyrir, og er hún höfuðbreyting frv. Annað aðalatriðið í aðfinnslum iðnaðarmanna á gömlu lögunum var það, að samkv. þeim getur hver sem er unnið hvaða iðnaðarvinnu sem er, án þess að þurfa til þess nokkurt prófleyfi eða kunnáttu, ef hann ekki tekur aðstoðarmenn við vinnuna. Viðleitni iðnaðarmanna hefir frá upphafi gengið í þá átt að fá þetta ákvæði, sem er í 13. gr. gömlu laganna, fellt burt, og er það fellt niður með þessu frv.

Að öðru leyti var í lögunum frá 1927 gert ráð fyrir því, að bæjarstjórnir gætu veitt mönnum, sem hafa ekki fullkomin iðnréttindi, leyfi til þess að stunda iðnvinnu, en hér er þetta fellt niður. Aftur á móti eru gerðar ráðstafanir til þess að tryggja, að nægilegur vinnukraftur sé til iðnaðarvinnu, þótt fullkomlega faglærðir menn séu ekki til á viðkomandi stað; er ætlazt til þess, að meistarafélög og sveinafélög komi sér saman um þetta, þar sem þess gerist þörf.

Þessi breyt. er ekki ókunn hér í þingi, því að hún hefir verið flutt af ýmsum allt frá árinu 1930, en þá fluttu hana 3 þm. úr öllum aðalflokkunum, og síðan var hún flutt 1931, en náði í hvorugt skiptið fram að ganga. Aftur á móti náðu nokkrar breyt. fram að ganga 1933, en engin af þessum, sem ég nú nefndi. Það eru nokkrar fleiri breyt., sem frv. gerir ráð fyrir, eins og t. d. að gera greinarmun á því, hvað er að reka iðnað og hvað er að stunda iðnað og hvað þurfi til hvors fyrir sig. Iðnbréfin eiga að falla niður eftir frv. Iðnréttindi verða hér eftir, ef frv. nær fram að ganga, eingöngu bundin við sveinsbréf og meistarabréf. Ennfremur gerir frv. ráð fyrir því nýmæli, að heimila ráðh. að ákveða, að meistarapróf séu haldin að sínu leyti eins og sveinspróf. Þetta er gert til þess að tryggja, að meistararnir séu álíka vel færir í sínu starfi eins og sveinarnir eftir að þeir taka sin sveinspróf. Það hefir komið fram óánægja yfir því meðal iðnaðarmanna, að menn geta fengið meistararéttindi 3 árum eftir sveinspróf, án þess að uppfylla nokkur skilyrði. Ég þarf ekki að taka það fram, það er sjálfsagt öllum hv. þm. ljóst, hver nauðsyn er á, að til séu iðnaðarmenn, sem kunnu sitt verk, og um leið sé tryggt, að aðrir ólærðir menn geti ekki farið inn á þeirra verksvið. Það er þýðingarmikið fyrir iðnaðarmennina sjálfa, en það er engu síður mikils um vert fyrir þjóðina í heild sinni, að henni sé tryggt, að það séu kunnáttumenn, sem vinna þau verk, sem hún þarf að láta vinna, en ekki fúskarar, sem lítið kunna. Það hefir margur glæpzt á því að kaupa ólærða menn til að vinna ýms handverk, en það reynist oft ódýrast, þegar frá líður, að nota iðnaðarmennina. Þó að það líti svo út, að hér sé fyrst og fremst verið að vinna fyrir iðnaðarstéttina, þá er langt frá því, að það sé ein, sjónarmið þessa frv. Ég vil að lokum geta þess, að að þessu frv. standa allir iðnaðarmenn í landinu án tillits til flokkaskiptinga, og það hafa verið samþ. frv. í svipaða átt og þetta á hverju ári í iðnaðarmannafélögunum hér í Reykjavík, síðan l. voru sett 1927. Það hafa líka á 3 iðnaðarþingum, sem háð hafa verið síðan, verið samþ. frv. í mjög svipaða átt, og loks var á síðasta iðnþingi, sem haldið var á Akureyri í fyrra, samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, svo að segja óbreytt eins og það kemur hér fram. Iðnaðarmenn sjálfir vita það náttúrlega bezt, hvar skórinn kreppir, og þess vegna er eðlilegast, að frumkvæðið komi frá þeim. Ég flutti þetta frv. fyrir eindregin tilmæli þeirra sjálfra. Ég þarf svo ekki við þessa umr. að fara frekar út í þetta mál, en vil leggja til, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til iðnn.