28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

81. mál, iðja og iðnaður

*Frsm. (Emil Jónsson):

Iðnn., sem hefir haft þetta mál til meðferðar, leggur í aðalatriðum til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt. Einn nm., hv. þm. Ak., hefir þó skrifað undir nál. með fyrirvara og borið fram sérstaka brtt. á þskj. 445.

Ég skal þá með örfáum orðum gera grein fyrir þeim breyt., sem meiri hl. n. er sammála um að flytja, en þær eru allar á þskj. 438. Fyrsta brtt. er við 2. gr. frv., og er hún aðeins orðalagsbreyt., um það, að þegar einhver einstaklingur rekur iðnað, en hefir ekki rétt til þess, þá skuli annar vera til þess að veita honum forstöðu, eða sá, sem er meistari í iðninni. N. leggur til, að í stað orðanna „veiti honum forstöðu“ komi: hafi þar alla verkstjórn á hendi. Þetta er orðalagsbreyt., sem nær betur en orðalag frv. sjálfs þeim tilgangi, sem átti að felast í frv. upphaflega.

Þá er brtt. við 3. gr. frv., og er það önnur brtt. n. og sú brtt., sem olli ágreiningnum milli meiri hl. n. og hv. þm. Ak. Meiri hl. n. leggur til, að aftan við gr. bætist svo hljóðandi ákvæði: „Í sveitum og kauptúnum með 500 íbúa eða færri mega óiðnlærðir menn þó vinna að minni háttar byggingariðnaðarstörfum við verk, sem kosta undir 3000 kr., þegar um steinsteypubyggingar er að ræða, en 4000 kr., þegar byggingarnar eru úr timbri. Sé verkið dýrara, skal það unnið af iðnaðarmönnum.“

Tilgangur frv. er, eins og ég lýsti við 1. umr. þessa máls, tvennskonar. Í fyrsta lagi að tryggja það, að iðnaðarvinna sé unnin af iðnaðarmönnum, til þess að þeir, sem hafa lært þessi verk, fái atvinnu við þau, og í öðru lagi, að þeir, sem þurfa að láta vinna þessi verk, fái þau unnin af kunnáttumönnum.

Eins og 1. eru núna, þá gilda þau aðeins fyrir kaupstaðina, en með þessu frv. er ætlazt til, að þau nái til alls landsins. En til samkomulags, þá féllst meiri hl. n. á að undanskilja byggingarverk upp að þessu marki, 3000 kr. steinsteypubyggingar og 4000 kr. timburbyggingar í sveitum og kauptúnum með 500 íbúa eða færri. Þetta er gert með tilliti til þess, að það geta verið ýmsar smáar byggingar í sveitum, sem ekki þykir ástæða til að hafa fulllærða menn við. Hér er það, sem hv. þm. Ak. og n. greinir á. Hann vill ekki hafa þá skyldu á, að iðnlærða menn þurfi við neinar byggingar í sveitum og kauptúnum með 500 íbúa eða færri. Hann vill heimila öllum mönnum að vinna að þessum verkum, þó þeir kunni ekkert til þeirra, ef það er aðeins utan kaupstaða og kauptúna með yfir 500 íbúa.

2. brtt. n. er samkomulagstilraun milli okkar 4. nm., en mér sem flm. frv. þótti of skammt gengið, að ekki skyldu iðnlærðir menn látnir vinna alla vinnu, en til samkomulags var gengið inn á þessa miðlunartill.

3. brtt. n. er við 4. gr. frv., en við hana eru tvær brtt. Í fyrsta lagi sú, að sá hafi iðnréttindi, sem hefir félagsréttindi í sveinafélagi fyrir 1. janúar 1936, en í frv. var miðað við 1. janúar 1930. Það er sjálfsagt rétt að færa þetta fram til þessa tíma, svo að þeir, sem nú hafa réttindi, fái að halda þeim áfram, en ekki að miða þetta við l. janúar 1930. — N. leggur til, að aftan við 4. gr. bætist ákvæði um það, að menn utan kaupstaða, sem hafa stundað iðnaðarvinnu að staðaldri síðustu 10 árin áður en lög þessi öðlast gildi, fái að ganga undir próf í iðn sinni, án þess að stunda iðnaðarnám frekar en þeir hafa þegar gert, og öðlist þannig sveinsréttindi í iðninni, ef þeir standast prófið. Þetta er gert með tilliti til þess, að l. er ætlað að gilda fyrir landið allt. En það er vitað, að úti um land eru ýmsir menn, sem hafa fengizt við þetta og geta það að nokkru leyti, þar sem þeir hafa kannske fengizt við þetta um langt skeið, en þeim er með þessu tryggður réttur til þess að sýna kunnáttu sína og ganga inn í iðnina, ef þeir standast prófið. Að vísu kemur þetta í bága við l. um iðnaðarnám, sem ekki gera ráð fyrir því, að neinn geti öðlazt réttindi sem iðnaðarmaður, nema hann hafi lært sína iðn svo og svo lengi, en það er ekki hægt að komast framhjá því, að þegar l. eru látin ná til miklu stærra svæðis en áður, þá verða þessir menn, sem hafa stundað þessa iðnaðarvinnu, að fá tækifæri til þess að sýna kunnáttu sína, enda er það sama og iðnaðarmenn höfðu rétt til í kaupstöðum landsins eftir að iðnaðarlögin gengu fyrst í gildi 1927.

Þá er við 5. gr. frv. sú brtt., að þegar talað er um, hvað langan tíma sveinn þurfi til þess að vinna sér inn meistararéttindi, þá er í frv. talað um, að hann þurfi til þess 3 ár, annaðhvort við sjálfstæða vinnu eða með meistara. En n. þótti rétt við athugun málsins að láta nám á teknískum dagskóla jafngilda vinnu hjá viðurkenndum meistara eða sjálfstæðri vinnu, og hefir því lagt til, að nám í tekniskum dagskóla sé tekið með í þessum undirbúningstíma fyrir meistararéttindi, þó þannig, að það þurfi alltaf að vera eitt ár með meistara til þess að öðlast meistararéttindi, annaðhvort með meistara eða vinna sjálfstætt eftir sveinsprófið.

Þá er brtt. við 6. gr., þar sem ráðh. er heimilað að ákveða, að enginn skuli fá meistararéttindi án þess að ganga undir próf. Í frv. er þetta orðað þannig, að ráðh. skuli þetta heimilt að fengnum tillögum Landssambands iðnaðarmanna, og er það eðlilegt, þar sem það er sá aðili, sem á að innibinda í sér öll iðnaðarsamtök í landinu. En það hefir verið á það bent, að enn eru ekki öll iðnfélög í því, og þeim gæti dottið í hug að gera slíkar tillögur til ráðh. N. féllst því á og breyta gr. þannig, að ráðh. sé almennt heimilt að ákveða, að þetta skuli gert, eða að meistararéttindi skuli bundin við próf, hvort sem till. koma um það frá öðrum eða að hann tekur það upp hjá sjálfum sér, en ekki bundinn við það, að það sé þetta eina félag, sem gerir till. um það.

Þá er brtt. við 8. gr., sem er leiðrétting. Það stendur í frv., að í byggingarsamþykktum kaupstaða megi ákveða, að enginn megi veita hústryggingum forstöðu, nema hann hafi til þess löggildingu. enda sé hann meistari í húsasmíði eða múrsmíði. Þetta átti að gilda fyrir alla staði, sem byggingarsamþykktir hafa, en það var ekki athugað, að það eru fleiri en kaupstaðir, sem hafa byggingarsamþykktir. og þótti því rétt, að það yrði einnig heimilað, að í þeim kauptúnum, sem hafa byggingarsamþykktir, verði löggiltir byggingarsmiðir við hverja húsbyggingu. Um þetta er enginn ágreiningur.

Þá er brtt. við 15. gr. frv., þar sem eru sektarákvæðin. Þar er lágmarkið fært niður í 100 kr. úr 500 kr., en hámarkið er eins og áður 2000 kr. Þetta er vegna þess, að n. þótti það fullstrangt ákveðið, að fyrir smávægileg brot gætu sektir ekki orðið minni en 500 kr.

Þá, er loks brtt. við 17. gr., um það, að l. öðlist þegar gildi fyrir kaupstaðina, en ekki fyrr en 1. júlí 1937 fyrir alla aðra staði á landinu. Í kaupstöðum landsins hafa gilt l. um þetta efni í aðalatriðum mjög svipuð þessum l., en nú er þetta fært svo út, að l. eiga að gilda fyrir allt landið, og þá þótti rétt að hafa þetta með nokkrum fyrirvara, svo að það yrði a. m. k. eitt ár, sem fólkið á þessum stöðum hefði til þess að undirbúa sig undir gildistöku l. Þessi breyt. er því ekki veruleg.

Aðalbreyt. er sú, sem er við 3. gr. frv., að heimila undanþágu fyrir byggingarvinnu upp í 300–4000 kr., og var þetta gert til samkomulags í nefndinni.

Með þessum breyt. leggur svo meiri hl. n. til, en það eru allir nm., nema þv. þm. Ak., að frv. verði samþ. Hv. þm. Ak. ber fram brtt. um það, að 1. nái aðeins til kaupstaða og kauptúna með meira en 500 íbúa.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta frv., en vonast til, að það fái að ganga áfram hina venjulegu leið.