28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

81. mál, iðja og iðnaður

*Frsm. (Emil Jónsson):

Það er hvorttveggja, að hér í d. eru ekki orðnir margir til að hlusta, og líka hitt, að þessi ágreiningur milli meiri og minni hl. n. liggur svo ljóst fyrir, að ég tel ekki, að um hann þurfi að fara mörgum orðum. Mig furðar stórlega á því, að þessi háttv. þm., sem er fulltrúi Akureyrarkaupstaðar, þar sem ég hefi vitað, að utan Reykjavíkur hafi mest og bezt skynbragð verið borið á góða iðnaðarvinnu og metið starf iðnaðarmanna að verðleikum, að hann, fulltrúi þessa iðnaðarbæjar, skuli einn í n. snúast á móti frv., því að þótt hann fullyrði, að þetta verði ekki iðnaðinum til framdráttar, þá get ég eins fullyrt hið gagnstæða. Það verður kannske hvorugt sannað, en það má leiða líkur að því, að það verði aldrei iðnaðarmönnum til gagns að hleypa ólærðum mönnum inn á verksvið þeirra og láta „fúska“ í því og vinna verkið á þann hátt, að iðnaðarmönnum sjálfum sé skömm að því, því að það get ég sagt þessum háttv. þm., að ég hefi mörg iðnaðarverkin séð unnin svo mislukkuð af mönnum, sem eru að vinna þetta meira af vilja en mætti, að það væri betur ógert látið. Það væri betra bæði fyrir þann, sem vann verkið, og þann, sem unnið var fyrir. Háttv. þm. taldi upp þá fagmenn, sem þyrfti að fá til bygginga. Hann sagði, að það þyrfti að fá steinsmiði. Þetta er ekki fyllilega rétt, en það þarf náttúrlega að fá múrsmiði, trésmiði, raflagnamenn og miðstöðvamenn. Það er eðlilegt, því þetta eru verk, sem þurfa að kunnast. Það getur enginn unnið þessi verk, svo í lagi sé, nema hann kunni þau, en ef hann kann þau, þá er honum opnuð leið með brtt. til þess að sýna kunnáttu sína og fá hana viðurkennda.

Þessum mönnum er opnuð leið til þess að ganga undir próf án nokkurs aukanáms, og geta þar með sannað kunnáttu sína og öðlazt sömu réttindi og iðnaðarmenn geta öðlazt með löngu námi, svo ég sé ekki, að þessir menn hafi yfir neinu að kvarta. Það er misskilningur, þótt hann sé nokkuð útbreiddur, að ef einhver maður getur klaufazt við að byggja einhverja byggingu, leggja svo í hana mislukkaða miðstöð og raflögn, sem kannske kviknar út frá, að þá sé það hagnaður. Tryggingin fyrir því, að þetta sé unnið eins og vera ber, fæst aðeins, þegar verkið er unnið af manni, sem eitthvað hefir lært til þess. Hann undirstrikaði það, háttv. þm., að byggingarnar mættu ekki vera of dýrar. Ég er honum sammála um það, en það er engin sönnun fyrir því, að þær verði dýrari, þótt fulllærðir menn vinni að þeim. Ég hefi þá reynslu persónulega, að það borgar sig miklu betur að borga fulllærðum manni hærra tímakaup fyrir verk, sem hann kann, heldur en ólærðum manni fyrir að burðast við að vinna verk, sem hann ekki kann. Því vil ég halda því fram, að það borgi sig í flestum tilfellum, jafnvel þó um smá verk sé að ræða, að fá fulllærðan mann til að vinna verk, sem einhver kunnátta útheimtist við. Ég skal taka það fram að gefnu tilefni, að það er ekki meiningin með þessu frv. að hindra verkamenn eða ólærða menn í að vinna þau verk við byggingar, sem ekki þarf neina kunnáttu til. Það eru ýms störf við byggingar, sem verkamenn geta auðvitað haldið áfram að vinna, þótt þeir séu ekki iðnlærðir, þó að þetta frv. verði samþ. Háttv. þm. sagðist vilja gefa eigendum bygginganna frjálsari hendur en áður um framkvæmd þessara verka, en sannleikurinn í þessu máli er sá, að hann vill ekki gefa þeim frjálsari hendur, heldur fullkomlega frjálsar hendur. Mér þótti vænt um það, að háttv. þm. gerði að lokum samanburð á bindindishreyfingunni og smábarnakennslunni annarsvegar, og þessari stefnu iðnaðarmanna hinsvegar. Ég er ánægður með þennan samanburð, því að það verða allir að viðurkenna, að ef bindindisstarfsemin á rétt á sér í kaupstöðum og stærri kauptúnum, þá á hún ekki síður rétt á sér í sveitum og minni kauptúnum. Þá þótti háttv. þm. það ámóta furðulegt, að kennaraslétt landsins væri að gera kröfu til að fá smábarnakennsluna í sínar hendur, eins og að iðnaðarmenn væru að gera kröfu til að fá alla iðnaðarvinnu úti um sveitir í sínar hendur. Ég hefi heyrt kennara segja, að einhver þýðingarmesta kennslan sé smábarnakennslan og það ríði mest á henni. Ég get sagt það sama um iðnaðarmennina, að það ríður ekki hvað minnst á því, að a. m. k. einhver iðnaðarmaður fáist út í landsbyggðina, þar sem fáir hafa kunnáttu á þeim málum. Það er almennt sú skoðun uppi, að þegar um frumatriði einhverrar kennslu er að ræða, þá geti allir kennt byrjunaratriðin, en fróðir menn segja, að það geti verið hvað mestur vandinn að gera það vel. Eins er það úti um landsbyggðina, þar sem eru hvað fæst tæki og skortir góð efni, og þau sem þess þarf að gæta með sérstakri kostgæfni, að ekki sé tekið óþverraefni, þá er einmitt nauðsyn, að valdir séu til þess menn, sem vit hafa á. Ég get t. d. ímyndað mér, að það sé öllu hægara að fá steypt upp hús hér í Reykjavík af ólærðum munni en úti um land. Hann fer bara inn í sandgryfju og fær þar harpað efni, sem hann sér, að notað er við húsabyggingar, og gerir yfirleitt eins og hann sér að hinir gera, en þegar komið er út á landsbyggðina, þar sem ekkert er til samanburðar, þá verða menn að nota sína kunnáttu. Þetta er svo augljóst mál, að það er óhæft að láta þetta ekki eins ná til sveitanna og kauptúnanna eins og stærri kaupstaðanna, sem lögin eiga nú að ná til.