28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

81. mál, iðja og iðnaður

*Pétur Ottesen:

Mér virðist það alveg óþarflega langt seilzt til að fá röksemdir fyrir þeirri skoðun, sem hv. þm. Ak. heldur hér fram, að vera að seilast til bindindisstarfseminnar fyrr og nú. Mér finnst, að það renni, bara frá málefnisins sjónarmiði, nægar stoðir undir þá skoðun, sem fram kemur hjá hv. þm. Ak., að það geti verið töluvert varhugavert gagnvart sveitum landsins og smærri kauptúnum að setja svo strangar skorður sem hér er gert við því, hvaða menn vegi nota til að bæta úr þeirri þörf, sem er á endurbótum á húsabyggingum í sveitum landsins. Því að það, sem veldur því, að svo fá góð hús eru til í sveitum þessa lands, það er vitanleg, fyrst og fremst fjárskortur þeirra, sem þar búa, til þess að bæta úr þessari brýnu nauðsyn. Og eftir því sem þessir menn geta fengið þessa nauðsyn leysta með ódýrari hætti, þess fleiri eiga þá kost á að geta komið upp bættum húsakynnum. Nú er það vitanlegt, eins og hv. þm. Ak. benti á, að það leiðir af því aukinn kostnað að því er allt verkakaup snertir, ef menn úti í sveitum þurfa að hafa faglærða menn til þess að framkvæma þessa byggingu, í stað þess að geta fengið menn, sem heima eiga í sveitinni og eru færir um að vinna þessi verk. Og munurinn á kaupi þessara manna er ekki 5–10 aurar á hverja klst., heldur er hann miklu meiri. Það er alkunnugt, að þeir faglærðu, sem að þessu vinna, hafa með sér félagsskap um kaupkröfur fyrir sína vinnu, og það er alkunna, að þeir verðleggja sína vinnu nokkuð hátt samanborið við almennt verkakaup, sem goldið er a. m. k. í sveitum þessa lands. Ég veit, að það veltur mikið á því fyrir sveitamenn, hvort þeim verða nú settir þeir kostir, að þeir þurfi að nota faglærða menn til þess að vinna þessi verk eða megi nota menn, sem hafa með því að stunda þessi verk meira eða minna, fyrst undir handleiðslu fagmanna, aflað sér þeirrar þekkingar og lagni, sem með þarf til þess að koma slíkum byggingum upp. Ég veit, að það veltur mikið á þessu, hvað bændum verður ágengt í því að bæta úr þeirri brýnu þörf, sem er á því að auka góð húsakynni í sveitum þessa lands. Svo mikill munur er á þessu tvennu, að geta komið upp byggingum með þeim mannafla sem fyrir er í sveitunum til þess að geta leyst þetta af hendi, og hinu, að verða að fá faglærða menn til þess að gera þetta. Ég vil skjóta því til hv. þm. Hafnf., hvort það sé ekki rétt skilið, að það verði að vera sérstakur fagmaður í hverri grein. Við hverja byggingu verði að vinna bæði faglærður múrari og trésmiður. Það mun vera sú stefna í iðnaðinum, að hver maður snúi sér sem mest að ákveðinni grein iðnaðarins. Þetta, að þurfa að fá þannig 2 faglærða menn, þegar um er að ræða t. d. ekki meira en peningshúsbyggingu, er út af fyrir sig mikill ókostur samanborið við það að geta notað við það mann, sem fyrir er og getur leyst hvorttveggja verkið af hendi. Hv. þm. Hafnf. og þeir, sem að þessu frv. standa, hafa vitanlega mikið til síns máls um það, að það skiptir miklu máli fyrir þann, sem á að njóta þessara bygginga, að þær séu vel gerðar. En spurningin er þetta, — er meiri trygging fyrir því, að þessir faglærðu menn inni þetta betur af hendi heldur en t. d. þeir menn, sem undir handleiðslu faglærðra manna hafa unnið að þessu verki, þó það sé ekki nema ólærður verkamaður, ef hann er verkséður og hefir með því að vinna að þessu tileinkað sér þá þekkingu og þá lagni, sem nauðsynleg er? Það getur náttúrlega verið misbrestasamara en þetta.

En ég ætla, að margur maðurinn úti um sveitir landsins, sem hefir haft byggingar með höndum, hafi leyst það starf af hendi alveg sambærilega við marga iðnlærða. Og ég tel það mjög varhugavert að ætla að meina bændum að hafa hagræði af því að geta notað verklagna menn, og einskorða þetta við iðnlærða menn. Enda er það svo, að iðnn. hefir gengið inn á þá skoðun, að ekki væri fært að ganga þessa braut, að heimta eingöngu faglærða menn, og hefir því gert till. um, að nota megi ófaglærða menn við þær steinsteypubyggingar, sem að kostnaðarverði nema lægri upphæð en 3000 kr.. og við timburbyggingar, en þó því aðeins, að kostnaður sé undir 4000 kr. Ég vil nú benda á, að venjuleg peningshús, t. d. sambygging eins og fjós og hlaða, hvort heldur sem hún er reist úr timbri eða steini, kosta miklu meira en þessari upphæð nemur; sama má segja um fjárhús og hlöðu. Það felur ekki í sér út af fyrir sig auknar kröfur um byggingarkunnáttu, þó flatarmál byggingarinnar sé meira eða minna. Þess vegna finnst mér, úr því gengið er inn á tilslökun á annað borð, þá eigi að miða við venjulega byggingu af þessari gerð. Ég vildi því mælast til þess, að svo framarlega sem till. hv. þm. Ak. nær ekki fram að ganga, að iðnn. vilji ganga inn á að hækka þessa upphæð. Ég skal fúslega ganga inn á, að það er allt annað, þegar um dýr hús er að ræða, þar sem loft og gólf er úr steinsteypu, járnbentri, sem krefur þekkingar að byggja, svo vel sé, og tel ég ekki rétt að spyrna móti því, að þar vinni faglærðir menn að. Þó að það geti haft fjárhagslega þýðingu fyrir bændur að gera mjög harðar kröfur í þessu efni, þá er það þó réttlætanlegt, þegar um stærri byggingar er að ræða. Ég vildi því mjög mælast til þess, að iðnn. athugaði, áður en mál þetta kemur til 3. umr., hvort ekki væri rétt vegna hinnar brýnu þarfar fyrir bættan húsakost í sveitum, bæði hvað snertir íbúðarhús og peningshús, að taka til rækilegrar íhugunar, hvort ekki sé þrengt um of að bændum, svo að af leiði töf eða frestun á framkvæmdum, ef bændur þurfa að kosta miklu meira til vegna þeirrar vinnu, sem leiðir af byggingum. Það er svo í sumum héruðum þessa lands, að það skortir ákaflega mikið á, að húsakostur sé viðunandi, og eru jafnvel heilir hreppar, sem enn búa við torfbæi, og þó hlýindi séu þeirra kostir, þá hafa þeir mikla ókosti í jafnóþurrkasömu landi og hér er.

Þetta er það, sem ég vildi láta koma fram, að ég mun greiða till. hv. þm. Ak. atkv. mitt, en ef hún nær ekki samþykki, þá vildi ég leita eftir samvinnu við iðnn. um að hækka þá fjárupphæð, sem ganga má til hverrar byggingar, er ófaglærðir menn mega byggja, eða er leyft að vinna að. Mér finnst allt of harður dómur, er mér virtist hv. þm. Hafnf. kveða upp, að enginn óiðnlærður maður hefði verkkunnáttu til að inna af hendi jafngott verk og faglærður maður, sem er alrangt, a. m. k. um allmarga. Að því leyti, sem hv. þm. Hafnf. minntist á, að þekkingu þyrfti til að velja steypuefni, þá er það alveg rétt, en það eru margir menn í sveit, sem unnið hafa við húsbyggingar í mörg ár og hafa fengið næga reynslu til að velja steypuefni, og þó þeir hafi ekki próf, þá kunna þeir full skil á blöndun efnisins.

Þá er svo ákveðið í till. iðnn., að þeir, sem hafa stundað þessa vinnu í 10 ár, eigi rétt á að ganga undir próf. Nú geri ég ráð fyrir, að þeir menn, sem unnið hafa bæði að trésmiði og múrverki, þurfi þá að ganga undir próf í báðum þessum greinum. En ég ætla, að gerðar séu fleiri kröfur til prófs en þarf til að standa fyrir slíkum byggingum fyrir þá menn, sem fengið hafa verklega reynslu. Ég ætla, að nokkur kunnátta sé heimtuð í dráttlist. þ. e. að þeir geti gert teikningu at húsum. og sennilega fleiri kröfur, sem eldri mönnum t. d. að taka væri ekki fært að uppfylla, þó að þeir hefðu fullkomna leikni í þessum störfum. En þá vantar þá bóklegu fræðslu, sem krafizt er í sambandi við iðnaðarnám, og hafa því ekki aðstöðu til að standast prófið, þó að þeir hafi fullkomlega aðstöðu til að byggja eins vel og margir þeirra, sem iðnlærðir eru kallaðir, og séu eins góðir smiðir. — Þó að ég búist við, að lítil lausn fáist á þessu með brtt. hv. þm. Ak., þá vildi ég láta þetta koma fram, en það er ekki af neinni andúð við þá stefnu, sem uppi er í landinu, að ala upp sem bezta fagmenn í hverri iðngrein, en hinsvegar vil ég, að þeir menn, sem beztir eru til þessara verka í sveitum landsins, fái að njóta leikni þeirrar, er þeir hafa aflað sér með langri reynslu, en verði ekki að þarflausu skákað út af þessu sviði.