28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

81. mál, iðja og iðnaður

*Guðbrandur Ísberg:

Hv. þm. Hafnf. fór í einu atriði með vísvitandi blekkingar, og er þetta í annað sinn, sem ég verð að standa upp til að leiðrétta það sama. Ég hefi bent á, að í frv. þessu, sem hér er um að ræða, eru kröfur iðnaðarmanna, og við verðum að líta á það sem einhliða kröfur þeirra manna, og ég gat þess, að við það væri ekkert að athuga. Ég tók hliðstætt dæmi af bindindismönnum hér á landi, sem gerðu svo óbilgjarnar kröfur, að þeir glötuðu aðstöðu sinni og velvild, sem þeir nutu í sveitum landsins. Ég benti eingöngu á, að oft hefðu komið fram kröfur af hendi barnakennara, þar sem þeir hefðu skýlaust heimtað alla tilsögn smábarna, jafnvel að kenna þeim að stafa, í hendur lærðra kennara. Og ég benti á þetta sem hliðstætt dæmi um, að hér mundi eins fara, ef iðnaðarmenn færu of langt í kröfum sínum, þá yrði það þeim ekki til hagsbóta, heldur hins gagnstæða.

Það er vísvitandi blekking, þegar hv. þm. Hafnf. kemur hér með slúður um, að ég vilji gera mun á bindindisstarfseminni í kaupstöðum og í sveitum. Hann endurtók þetta. Ég áleit, að þetta væri af misgáningi sagt, er hann sagði það í fyrri ræðu sinni. En nú endurtekur hann það. Þetta er að vísu utan við efni þess máls, sem er til umr. En ég gat ekki látið hjá líða að minnast á þetta, til þess að leiðrétta þessa vitleysu.

Hv. þm. Hafnf. fór lofsamlegum orðum, og það að verðleikum, um iðnaðarmenn á Akureyri. Ég viðurkenni fúslega, að þar er dugandi iðnaðarmannastétt og margir dugandi iðnaðarmenn. En hv. þm. Hafnf. hefir komið þar, og hann mun hafa athugað sjálfur og heyrt getið um tvær eða þrjár húsbyggingar, sem byggðar voru af meisturum í iðninni, en hrundu þó saman eftir örfá ár fyrir fúsk þessara manna. Þó að við höfum marga ágæta iðnaðarmenn á Akureyri, þá höfum við einnig dæmi þess, að meistara í vissri iðn hefir mistekizt svona herfilega. Þar fyrir má ekki hv. þm. Hafnf. né aðrir taka orð mín svo, að ég vilji kasta rýrð á kunnáttumenn. Síður en svo. Ég viðurkenni, að að öðru jöfnu má vænta þess af þeim, að þeir leysi verk sín vel af hendi, og enda betur en ólærðir menn. En við hv. þm. Borgf. höfum bent á, að úti um sveitir er fjöldi manna, sem eru fagmenn í eina átt, en ekki fagmenn þannig, að þeir geti hér eftir sem hingað til innt af höndum byggingarstörf, ef ströngustu ákvæði þessa frv. verða lögfest, þó að þessum mönnum væri óhætt að fela þessi byggingarstörf. Ég vil benda hv. þm. á, að það er einatt svo í héruðunum í kringum Akureyri, að þaðan hefir verið mikið leitað aðstoðar faglærðra manna um húsbyggingar á þann hátt, að aðeins hefir verið leitað leiðbeininga þeirra, m. a. á þann hátt, að þeir hafa verið sóttir til þess að athuga efni og segja til um blöndun í steypu. Þessum mönnum hefir verið borgað fyrir þessar ferðir, en bóndinn í hverju tilfelli hefir hinsvegar ekki þurft að borga fagmanni allan tímann á meðan á byggingunni stóð. Þegar búið er að sýna mönnum, hvernig á að blanda tiltekna steypu, þá geta menn gert það, því að úti um sveitir landsins er fullt af þeim mönnum, sem vanir eru að vinna þá vinnu.

Ég vil endurtaka það, að það er alls ekki af andúð gegn iðnaðarmönnum — síður en svo — að ég beiti mér gegn því, að 2. brtt. n. verði samþ. eins og hún liggur fyrir. Það er miklu fremur af umhyggju fyrir iðnaðarmönnum, til þess að þeir vindi ekki snöru að sínum eigin hálsi með því að gera allt of frekar kröfur.