28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

81. mál, iðja og iðnaður

*Guðbrandur Ísberg:

Ég hefði nú óskað að beina orðum mínum til hv. þm. Hafnf., en hann sést nú ekki hér innan veggja. Ég þurfti að bera af mér sakir. (Forseti: Hann heyrir. –TT: Hann hlerar). Er ekki hægt að fá hann inn í d. á meðan? — Nú, jæja. Mér er þetta nóg, hann er kominn í dyrnar.

Hv. þm. Hafnf. sló því hér fram, að ég hefði einhverntíma kallað hann flugumann iðnaðarmanna hér á þingi. Ég vænti, að hv. þdm. hafa heyrt þetta líka. Ég get ekki skilið þetta á annan veg en þann, að ég hafi átt að bera það, að hann væri sendur hér inn á þing sem flugumaður af hendi iðnaðarmanna. (EmJ: Þetta er vísvitandi rangfærsla líka). Hv. þm. Hafnf. getur þá sagt, hvað hann meinti með ummælum sínum. Ég hefi aldrei sagt þetta, heldur sagði ég við umr. um landssmiðjuna hér á dögunum, þegar rætt var um að setja á stofn heilmikið ríkisverksmiðjubákn í samkeppni við iðnaðarmenn á vissu sviði, og hv. þm. Hafnf. barðist fyrir þessu, þá sagði ég, að ég harmaði það, að hann kæmi fram í því máli sem flugumaður í herbúðum iðnaðarmanna. Ég sagði ekki, að hann væri, heldur að hann kæmi fram eins og flugumaður í herbúðum iðnaðarmanna. En ég gat ekki skilið hans orð áðan þannig, að þau og mín orð gætu samrýmzt. En ef hv. þm. Hafnf. hefir meint eitthvað annað en ég hélt, eins og mér nú skilst á honum, þá er náttúrlega ekkert sérstakt við því að segja. En þetta þurfti í öllu falli að leiðréttast.