28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

103. mál, landsreikningurinn 1934

*Jakob Möller:

Ég skal vera mjög fáorður og afplána þannig brot hv. 6. þm. Reykv., sem hæstv. forseta fannst flytja nokkuð langa aths. síðast.

Hæstv. fjmrh. var að tala um það, að ég sem bæjarfulltrúi og bæjarráðsmaður hefði misnotað aðstöðu mína á sama hátt og forstjóri áfengisverzlunarinnar til þess að ákveða um það, í hvaða blöðum bærinn auglýsti. En ég get sagt honum það, að ég hefi ekkert til þessara mála lagt, nema það, sem ég hefi sagt um afstöðu blaðs hans í sambandi við þetta mál, því að áður en ég kom í bæjarstjórn, var búið að taka ákvörðun um það, í hvaða blöðum bærinn skyldi birta auglýsingar sínar.

Afstaða mín og forstjóra áfengisverzlunarinnar, sem sjálfur er einn af eigendum Nýja dagblaðsins, er því gerólík. Í bæjarstjórninni er ég ekki nema einn af 15, en forstjóri áfengisverzlunarinnar tekur sínar ákvarðanir um auglýsingarnar einn, þótt fyrirtæki það, sem hann veitir forstöðu, sé ríkisfyrirtæki. Ég spurði hæstv. ráðh., hvort ekki hefði átt að bera slíkar ráðstafanir sem þessar undir stjórnina, en hæstv. ráðh. staðfesti það ekki, svo að ég verð að álykta, að forstjórinn hafi úthlutað auglýsingunum upp á sitt eindæmi. Afstaða mín og forstjóra áfengisverzlunarinnar, eiganda Nýja dagblaðsins, er því mjög ólík.

Um það, hvar auglýsingar koma að mestu gagni, ætla ég ekki að fara að ræða, því að allir vita, hver munur er á Nýja dagblaðinu og hinum þrem blöðunum.