09.05.1936
Sameinað þing: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

Afgreiðsla þingmála

*Jörundur Brynjólfsson:

Ég held, að hv. 3. þm. Reykv. leggi fullmikið upp úr því orðalagi, sem er á 44. gr. þingskapanna, og honum skjótist yfir það, að sá þm., sem hefir neitað þátttöku í atkvgr., þegar nafnakall er viðhaft, hefir um leið afsalað sér hlutdeild í atkvgr. um málið. Það má að vísu, eins og hv. 3. þm. Reykv. minntist á, segja, að forseti ætti ef til vill að krefja þm. sagna, þegar hann neitar að greiða atkv., til þess að heyra ástæðurnar fyrir því. En ósjaldan hefir það borið við undir slíkum kringumstæðum, að þm. neitar að færa ástæður fram fyrir því, að hann greiðir ekki atkv. Þá á forseti ekki annars úrkost undir slíkum kringumstæðum en að láta meiri hl. af þeim atkv., sem koma fram, hvort sem þau eru með eða móti málinu, ráða úrslitum og telja afdrif málsins fara eftir því. Og samkv. ákvæðum þeim, sem nú koma inn í okkar þingsköp, þá gefst forseta enn fyllri réttur heldur en áður, einmitt til þess að álykta eins og hæstv. forseti Sþ. hefir gert í þessu efni. Það er einmitt af því að þm. færast undan að gera grein fyrir því, af hvað, ástæðum þeir neita að greiða atkv., að það hefir verið svo í seinni tíð, að forsetar hafa ekki krafið þm. sagna um það, hvers vegna þeir neituðu að greiða atkv.

Ég tel þess vegna, að hæstv. forseti Sþ. hafi farið hér fullkomlega löglega að, eftir því sem málavextir voru til, og að sú samþykkt, sem hann lýsti, og afgreiðslan á þessari till. hafi verið fullkomlega lögmæt.