02.05.1936
Sameinað þing: 16. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

Hlutleysi útvarpsins

*Ólafur Thors:

Herra forseti! Ég vil ekki láta undir höfuð leggjast að hreyfa því hér á Alþingi, að ég tel í gær hafa farið fram misbrúkun á hlutleysi útvarpsins í sambandi við 1. maíhátíðahöld Alþýðuflokksins. Ræður þeirra Jónasar Guðmundssonar og Haralds Guðmundssonar hefðu vel fallið í rammann, ef um hefði verið að ræða útvarpsumræður milli stjórnmálaflokka. Ég tel þetta brot á hlutleysi útvarpsins og atriði, sem mjög fer illa á. Ég tel þetta að vísu ekkert svipað hneyksli og simanjósnirnar, en samt er þetta mjög fjarri því að vera afsakanlegt. Af þessu leiðir, að hver stjórnmálaflokkur í landinu gæti krafizt þess að fá útvarpið til sinnar þjónustu eitt kvöld á ári. Er furðulegt, að Alþfl. skuli taka sér þetta bessaleyfi án þess að nokkrir samningar fari fram við aðra aðilja. Ég viðurkenni, að þetta er ekki í fyrsta skipti, sem Alþfl. hefir notað útvarpið sér til framdráttar, en hann hefir þó aldrei misbeitt því eins og í gær, og á ég þar þó eingöngu við ræðu Jónasar Guðmundssonar, sem var með hörðustu ádeiluræðum, sem þessi annars hógværi og sanngjarni þm. hefir flutt. Ég leyfi mér að mótmæla þessu.