02.05.1936
Sameinað þing: 16. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

Hlutleysi útvarpsins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Það er ekki rétt hjá hv. þm. G.-K., að ég haldi því fram, að Alþýðuflokkurinn og Alþýðusambandið sé tvennt ólíkt. Hitt er rétt, að það voru félögin í Alþýðusambandinu, sem sáu um hátíðahöldin 1. maí. Ég vil því ekki fallast á, að með þessu sé skapað fordæmi fyrir því, að pólitískir flokkar geti fengið umráð yfir útvarpinu kvöld og kvöld. Því fer fjarri. Hinsvegar hefi ég orðið var við það, að útvarpið hefir stundum verið notað öðruvísi en ég hefði kosið, og á ég þar við umr. háskólastúdenta nú fyrir skömmu.