21.02.1936
Neðri deild: 5. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (2142)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Flm. (Páll Þorbjörnsson):

Það var að vonum, að hv. þm. Borgf. kveddi sér hljóðs um þetta frv., því að eins og kunnugt er, hefir hann verið hér á þingi einn aðaltalsmaður hinnar gömlu innilokunarstefnu. Nú talaði hann nokkuð í öðrum dúr en áður, og er ég því að vona, að hann hafi látið almenningsálitið og reynslu og þekkingu fiskimanna hafa nokkur áhrif á skoðun sína í þessu máli, því að það, sem hann barðist hatramlegast á móti áður, virðist nú aukaatriði fyrir honum, sem sé rýmkun veiðitímans. Það, sem hann vill nú halda í, er leyfi einstakra héraða til þess að banna veiði úti fyrir strandlengju sinni. Annars er það að segja um héraðssamþykktirnar, að þær hafa verið mjög fávíslega gerðar. T. d. vitum við, að sumstaðar er bannað að taka síldina innan fjarða. Við þekkjum líka, hversu misjafnar skoðanir manna eru innan héraðanna. Þarf ekki langt að leita til þess að finna þess glögg dæmi. Við vitum, að Garðurinn hefir verið eitt helzta heimkynni innilokunarstefnunnar. Þar hefir verið haldið fast í bannið gegn dragnótaveiðunum. En í Keflavík er stór meiri hl. með að leyfa veiðina, af því að þar hafa menn haft framkvæmd í sér til að nota þetta ódýrasta veiðarfæri til að afla þessa verðmætasta fiskjar, en ekki skilið hann eftir erlendum veiðiþjófum til gagns.

Hv. þm. Borgf. vakti athygli á áskorunum, sem hefðu borizt síðasta þingi á móti frv. Ég vil aftur á móti leyfa mér að vekja athygli á áskorunum, sem drifu að líka víðsvegar af landinu og fóru fram á, að rýmkað væri til um leyfi á þessum fiskveiðum.

Ég þykist vita, að þetta mál muni fá greiðan gang gegnum þingið, þó að hv. þm. Borgf. hafi ekki tekið frekari sinnaskiptum ennþá en það, að nú vill hann halda í héraðssamþykktirnar fyrst og fremst.