25.03.1936
Neðri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (2150)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. 1. minni hl. (Finnur Jónsson):

N. hefir klofnað í þessu máli. Tveir nm., þeir hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. N.-Þ., legga til að fella frv., en hv. 3. landsk. og ég viljum samþ. það. Einn nm., hv. þm. Vestm., er fjarstaddur og getur því ekki veitt frv. það brautargengi, sem hann er vanur, þegar mál sem þetta koma fyrir hv. deild.

Þau ákvæði, sem nú gilda um dragnótaveiðar, eru, að almennt er dragnótaveiði ekki leyfð nema frá 1. sept. til 30. nóv., með þeirri undantekningu, að á svæðinu frá Hjörleifshöfða að Látrabjargi er veiðin leyfð frá 15. júní til 30. nóv. ár hvert, þó svo, að á Breiðafirði og Faxaflóa er veiðin aðeins heimil þeim skipum, sem skrásett eru innan flóanna. Auk þessa er heimilt með héraðasamþykktum að loka alveg ákveðnum svæðum á þeim tímum, sem veiðin er annars leyfð almennt. — Í frv. er lagt til að lengja veiðitímann um 2½ mánuð, svo að hann verði um land allt 5½ mánuður. frá 15. júní til 30. nóv., og verða þá héraðabönnin þar með afnumin.

Eins og nú er komið málum sjávarútvegsins, er mikið undir því komið, að sá skipastóll, sem til er, notist sem mestan hluta ársins. En nú er vitanlegt, að tilfinnanlegur misbrestur er á því og að mörgum skipum er lagt upp hluta úr árinu, vegna þess að þeim er ekki heimilt að stunda þann veiðiskap, sem helzt væri arðbær þann tíma. Einkum vill á því bera, að mikill hluti vélbátaflotans liggi ónotaður tímunum saman, og þá sérstaklega minni bátarnir, en það er enginn vafi á, að fyrir þá væri hagkvæmt að stunda dragnótaveiði nokkurn hluta ársins, og að það gæti orðið mjög arðvænlegt, ef rýmkað væri um veiðileyfin. — Í þessu sambandi má benda á, að markaður okkar fyrir ísfisk í Bretlandi er takmarkaður við magn og er nú fylltur að miklu leyti með verðlitlum þorski, sem greitt er fyrir komið um borð í skip 7–9 aur. kg., og þó telja þeir, sem kaupa, sig oft skaðast. Það er alkunnugt, að þorskur, sem fluttur er út í ís, selst oft fyrir svo lágt verð, að það borgar stundum ekki flutningsgjaldið. Af þessu má sjá hvaða vit er í því að loka svo landhelginni, að ekki sé hægt að veiða kolann, sem er verðmesti fiskurinn, en fylla kvótann í Bretlandi með verðlitlum þorski. Verðmunur á kola og þorski er ca. 26 aurar á kg., þannig að þegar þorskurinn er seldur á 7–9 aura, selst kolinn 35 aura kg., kominn um borð í skip. Auk þess hefi ég aldrei heyrt kvartað um skaða af því að kaupa kola, og mun það eins algengt, að menn hagnist á því að kaupa hann fyrir 35 aura, eins og hitt, að menn skaðist á að kaupa þorsk fyrir 7–9 aura kg.

Það mun vera svo, að l. um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi og héraðssamþykktirnar hafa verið sett svo þröng sem raun er á af hræðslu við samkeppni um veiðina frá sambandsþjóð okkar, Dönum. Þeir hafa stundað hér veiði um mörg ár og eru því kunnugir veiðiaðferðum og botnlagi. Mun því hafa verið óttazt, að Íslendingar stæðust ekki samkeppnina. En nú síðan opnað var svæðið frá Hjörleifshöfða til Látrabjargs og Íslendingar hafa kynnzt veiðiaðferðum og botnlagi, er ég viss um, að þeir eru það meiri veiðimenn — að Dönum ólöstuðum —, að þeir eru fullkomlega samkeppnisfærir. Og þar sem héraðabönnin eru, eins og ég hefi sagt, sett með tilliti til Dana, er nú svo komið, eftir að Íslendingar hafa um nokkurt skeið stundað kolaveiðar, að öllum ætti að vera ljóst, að héraðabönnin eru óhæfileg höft á framtakssemi og sjálfsbjargarviðleitni sjómanna, og því sjálfsagt að afnema þau.

Reynslan hefir sýnt, að alstaðar þar, sem notuð hefir verið dragnót, hefir hún reynzt ódýrt veiðarfæri, og þeir, sem þá veiði hafa stundað, gert það með betri árangri en þeir, sem við aðra veiði hafa fengizt á sama tíma, auk þess sem bátar, sem annars hefðu staðið uppi, hafa og þannig veitt mönnum atvinnu, sem annars hefðu verið atvinnulausir. Ég get bent á glöggt dæmi í þessu efni. Fyrir tveimur árum voru Önfirðingar mjög á móti því að afnema héraðabönnin, en nú hefir reynslan kennt Önfirðingum eins og öðrum, svo að nú, eftir að þeir hafa kynnzt veiðiaðferð og botnlagi, hafa þeir sent áskorun til Alþingis um að afnema héraðabönnin. — Fyrir tveimur árum byrjuðu Eyfirðingar á dragnótaveiði, þótt það væri á ólöglegan hátt, og hafa gert það með ágætum árangri. Þannig mun það vera, að dragnótaveiðin er víða stunduð á ólöglegan hátt inni á lokuðu svæðunum, án þess löggjafarvaldið hafi treyst sér til að framfylgja l. á þann hátt að sekta lögbrjótana. Það má að vísu segja, að það út af fyrir sig, að l. séu brotin, réttlæti ekki nauðsyn þess að afnema þau. En þar sem hér er um að ræða l., sem fara algerlega í bága við hagsmuni sjómanna og útgerðarmanna, með hömlum á kolaveiðinni, verður að krefjast þess, að þau séu tafarlaust afnumin, ekki sízt þegar þess er gætt, að þessi veiði getur verið arðsöm fyrir þann hluta vélbátaflotans, sem annars stendur uppi ónotaður mikinn hluta ársins.

Ég get svo vísað til nál. 1. minni hl. sjútvn., þar sem bent er til ummæla og ályktana fiskiþingsins, er mælir með því, að frv. nái fram að ganga með þeirri breyt., sem við leggjum til, að fyrir „15. júní“ komi: 1. júlí. Þá er séð fyrir því, að kolinn sé ekki veiddur um hrygningartímann. Það er upplýst, að fiskifræðingar telja dragnótina óskaðlega ungviði og að hún á engan hátt spilli annari veiði. — Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um málið að sinni, en vona, þar til ég reyni annað, að hv. d. geti fallizt á rök þau, sem fram eru færð í nál. 1. minni hl. á þskj. 149.