27.03.1936
Neðri deild: 35. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (2155)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

2155*Frsm. 2. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Þegar umr. var frestað um þetta mál fyrir tveimur dögum, þá hafði hv. frsm. fyrri minni hl. sjútvn., hv. þm. Ísaf., síðastur talað, til að andmæla þeirri ræðu, er flutt var af minni hálfu sem frsm. 2. minni hl. sjútvn. Ég þarf í raun og veru ekki að svara miklu. Í hans ræðu kom ekki neitt nýtt fram í málinu. Hann lagði, eins og fyrr, megináherzluna á það, hve mikið væri hægt að hafa upp úr þessu í bili fyrir útgerðarmenn eða fiskimenn, og vildi gera það sjónarmið gildandi, að á þetta bæri fyrst að líta. Hann hafði þau orð um, að við vildum ekki að neinu leyti taka tillit til atvinnu landsmanna í þessu efni. En þetta er ekki rétt. Við viljum fyllilega taka tillit til atvinnu landsmanna í þessu efni, og það er okkar skoðun, að við gerum það betur en hv. þm. Ísaf. Við viljum fyrst og fremst taka tillit til þess, að ekki séu gerðar ráðstafanir, sem geti orðið til skaðræðis í framtíðinni, en það, að rýra gildi hinnar föstu landhelgi, hefir í för með sér fjárhagslegt skaðræði fyrir atvinnuna í framtíðinni. Ég er þeirrar skoðunar, að þegar um það tvennt er að ræða, annarsvegar það, sem miðar að eflingu atvinnuvegarins í framtíðinni, og hinsvegar það, sem getur orðið til hagnaðar í svipinn, en ekki nema með því móti að verða til skaða í framtíðinni, þá eigi fyrst og fremst að taka tillit til framtíðarinnar. En aftur á móti vill hv. þm. Ísaf. og skoðanabræður hans í þessu máli láta sjónarmið hinnar líðandi stundar ráða. Þeir tala um atvinnuleysi og bágan veg útgerðarinnar, sem réttmætt er, og mála með sem sterkustum litum, hve mikið sé hægt að hafa upp úr þessu í bili, en forðast að geta um hitt, hvaða áhrif þetta mundi hafa í framtíðinni.

Hv. þm. Ísaf. virtist hneykslast á því, að við, sem skipum 2. minni hl. sjútvn. í þessu máli, höfum í nál. okkar, svo og ég í framsöguræðu minni, rakið sögu dragnótamálsins á Alþingi. Ég get ekki séð, að það sé með nokkrum rökum hægt að hafa á móti því, að sú saga sé rakin og að málið sé upplýst sem bezt. En það get ég skilið, að þeim, sem vilja koma þessu máli fram, sé ekki vel við það, að saga þess sé rakin og það sýnt, hvernig tilraunir þeirra manna, sem hafa viljað opna landhelgina fyrir dragnótaveiði, hafa sí og æ strandað á andúð sjómannanna og meiri hl. Alþingis.

Hv. þm. Ísaf. talaði um, að fiskifræðingar landsins álitu, að dragnótaveiði væri ekki skaðleg veiðiaðferð. En flm. þessa máls hafa ekki lagt fram neitt álit frá fiskifræðingum landsins um þetta atriði. Og hvað meina þeir með því að segja, að dragnótin sé ekki skaðleg? Ég býst við, að hún sé skaðleg fyrir þá fiska, sem á að veiða. En þeir munu ekki hafa átt við það, heldur að hún væri ekki skaðleg fyrir framtíðarfiskiöflun. (FJ: Hún er a. m. k. ekki skaðleg fyrir hv. þm. N.-Þ.). En þótt hv. flm. tækist nú að fá hjá fiskifræðingum landsins eitthvert álit, sem þeir teldu sig geta notað fyrir stoð við málstað sinn, þá legg ég miklu meira upp úr því, sem fiskimennirnir segja sjálfir, og mitt álit, sem ég held hér fram, byggi ég fyrst og fremst á því. Og það er skoðun fiskimannanna sjálfra víðsvegar að af landinu, sem ég held fram, þegar hv. þm. Ísaf. og hv. 3. landsk. grípa fram í og segja, að ég hafi enga þekkingu á þessu. Eg hygg, að hv. þm. Ísaf. kunni ekki að fara með dragnót, en þrátt fyrir það dettur mér ekki í hug að halda því fram, að hann hafi ekki haft aðstöðu til þess að afla sér upplýsinga um það, hvort dragnótaveiði sé skaðleg eða ekki. Þar sem hann býr, eru stundaðar fiskiveiðar, og ég býst við, að hann hafi haft fullgóða aðstöðu til að kynna sér þau áhrif, sem sérstakar veiðiaðferðir hafa.

Hv. þm. Ísaf. var að gera gabb að manni, sem hefði ritað um þetta mál og segði t. d., að síldartorfa hefði átt að fælast svo við dragnótaveiðarnar, að hún hefði flúið yfir í aðra flóa eða aðra landsfjórðunga. Ég býst við, að hann hafi átt við rit það, sem oddvitinn í Gerðahreppi sendi Alþingi í fyrra. Ég sé ekki, að það sé ástæða til að lítilsvirða það, sem þessi reyndi maður hefir að segja um þessi mál.

Hv. þm. Ísaf. hefir ekki getað mótmælt því, sem ég sagði í framsöguræðu minni, að öðrum þjóðum, sem ég sérstaklega hefði kynni af, þætti óhjákvæmilegt að setja í lög takmarkanir á dragnótaveiðum. Nefndi ég þar sérstaklega Dani, sem hafa langa reynslu í þessu efni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að sinni. Ég sé ekki heldur, að neitt það hafi fram komið í ræðu hv. þm. Ísaf., sem ég er ekki búinn að gera að umræðuefni.