27.03.1936
Neðri deild: 35. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (2157)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Hv. þm. N.-Þ. hefir nú gert mjög skýra grein fyrir þeirri almennu hættu, sem fiskveiðum landsmanna er búin af botnvörpu- og dragnótaveiðum og öðrum slíkum veiðiskap, sem hefir það í för með sér, að drepinn er jöfnum höndum nytjafiskurinn og fiskseiðin. Og get ég því verið miklu stuttorðari en ella.

Það er eiginlega töluvert eftirtektarvert og meinlegt skilningsleysi, sem fram kemur hjá þeim mönnum, sem eru hér hvað eftir annað að berjast fyrir því að brjóta niður þær varnarráðstafanir, sem settar hafa verið gegn því, að fiskveiðarnar gangi úr sér, þegar þeir eru að bera þessar veiðiaðferðir saman við ýmsar aðrar veiðiaðferðir, sem eru ekkert skyldar, eins og t. d. veiði á handfæri, veiði í þorskanet og á línu og yfirleitt annað þess háttar, eða að þeir skuli bera þetta saman við það, þegar ósk kom vestan úr Breiðafirði um að banna aðkomumönnum lúðuveiðar þar. Þetta sýnir, hvað þessir menn hafa ákaflega litið til brunns að bera í þessu efni og hvað þeir standa höllum fæti í vörn sinni í þessu máli, þegar þeir reyna að hengja hatt sinn á slíkan snaga sem þennan.

Við skulum nú í þessu sambandi athuga, hver er munurinn á dragnótaveiðum og botnvörpuveiðum hvað hættuna snertir. Hann er kannske ekki mikill, en ef hann er nokkur, þá er hann sá, að dragnótaveiðin er að þessu leyti hættulegri heldur en botnvörpuveiðar, og kemur það til af því, að dragnótina er heimilt að nota alveg upp við landssteinana, þar sem fiskseiðin leita skýlis fyrir gráðugum fiskum og hamförum sjávarins. Hvað þetta snertir er því dragnótin hættulegri heldur en botnvarpan. — Já, hv. 3. landsk. hlær. En ef hann hlær í alvöru, þá er hans hlátur af hans eigin heimsku í þessu máli; annars væri þetta blátt áfram fíflahlátur. Og hv. þm. ætti ekki að vera að gera sig að fífli, þegar eitt af okkar mestu þjóðþrifamálum er til umr., — það, hvernig tryggja eigi framtíð fiskveiða Íslendinga. Nei, ef hv. þm. vill ekki gera sig að algerðu fífli í þessu máli, þá ætti hann þó a. m. k. að sitja með alvörusvip undir þessum umr.

Í sambandi við dragnótaveiðarnar í Faxaflóa vil ég benda á óræka staðreynd fyrir skaðsemi þeirra. Það hafa nú um langt skeið verið stundaðar dragnótaveiðar að meira eða minna leyti í Faxaflóa. Og hver er svo afleiðingin af því? Hún er sú, að á síðustu árum hefir alltaf dregið meir og meir úr lúðu- og ýsuveiðum hér á flóanum. En það er alkunnugt, að það af okkar nytjafiski, sem helzt verður fyrir barðinu á dragnótinni, eru þeir fiskar, sem halda sig fast við botninn. Þegar línubáta- og mótorbátaveiði hófst á Faxaflóa, veiddist þar jöfnum höndum ýsa og þorskur. Nú er svo komið, að ýsa er ekki nema örlítill hluti af veiðiskapnum á Faxaflóa. Lúðuveiðar voru einnig stundaðar með ágætum hagnaði, en nú er svo komið, að þær eru að engu orðnar. Báðar þessar fisktegundir eru mjög verðmætar, og var sérstaklega góður markaður fyrir þær innanlands og einnig talsvert erlendis. En í hverju liggur þetta þá, hvernig komið er með þessar veiðar? Ber ekki fyrst og fremst að leita orsakanna fyrir því einmitt í því, hversu mjög hafa verið stundaðar dragnótaveiðar á þessum slóðum? Og með allri virðingu fyrir fiskifræðingum okkar, þá geri ég lítið úr þeirri fræðimennsku, raunverulegri eða ímyndaðri, þegar hún stangast svo gersamlega við þær staðreyndir, sem byggðar eru á reynslu sjómannanna sjálfra. Það mætti nú náttúrlega ennfremur benda á það sem afleiðingu af dragnótaveiðinni, ásamt því, að við höfum ekki nauðsynleg tæki til þess að verja okkar landhelgi, að nú er allmikið fiskileysi kringum strendur landsins. Það hefir svo sem áður bólað á þessu fiskileysi. Undanfarin ár hefir aflaleysi verið mikið á Austfjörðum, enda hefir dragnótaveiði verið stunduð þar mikið. Það er því ekki að ástæðulausu, þótt menn gruni, að þetta aflaleysi nú og á undanförnum árum eigi að einhverju leyti rót sína, að rekja til þess, hvernig landhelgin er fótum troðin með slíkum veiðiskap, sem jafnframt því að drepa nytjafiskinn, drepur í miklu ríkari mæli ungviðið. sem er að vaxa upp. Það er þess vegna ein hatramlegasta skammsýni, þegar verið er að nota ástandið, sem við eigum nú við að búa, sem skálkaskjól fyrir því að ráðast á landhelgina. Það er dálítið svipað því að drepa mjólkurkúna sína sér til bjargar í framtíðinni. Hv. þm. N.-Þ. hefir bent svo rækilega á þessa veilu í málflutningi bæði hv. 3. landsk. og hv. þm. Ísaf., að ég þarf ekki að fara út í það frekar.

Það má rétt til gamans skjóta því hér inn, sem hv. þm. N.-Þ. drap á og hv. 3. landsk. kallaði „brandara“. Þessi „brandari“ kom frá hv. þm. Ísaf., sem sagði það í gær, að dragnótin væri þó ekki skaðleg öðrum skepnum en þeim, sem í hana færu. Já, náttúrlega er hún ekki skaðleg þeim, sem skríða framhjá henni, og ef það væri svo, að það færi engin skepna í hana og hún dræpi enga, þá væri hún bæði gagnslaus og skaðlaus.

Ég hefi þá gert nokkra grein fyrir afleiðingum af dragnótaveiðinni í Faxaflóa og Breiðafirði og rakið nokkrar orsakir til þess, að draga mætti svipaðar ályktanir af dragnótaveiðinni, sem stunduð hefir verið fyrir Austfjörðum að undanförnu, og þarf ég ekki að fara frekar út í það.

Við nánari íhugun kemur fram svolítil skýring á þessum málflutningi, sem maður hefir raunar séð framan í áður — og það er umhyggjan fyrir Dönum — í sambandi við baráttuna fyrir því að ófriðhelga landhelgina. En ég hefi aldrei orðið eins var við þessa umhyggju eins og nú hjá hv. 3. landsk. og hv. þm. Ísaf. í sambandi við breyt. á þessari löggjöf. Það var þó svo, þegar sá óvinafögnuður var gerður hér á Alþingi fyrir 3–4 árum að kljúfa rétt borgara þjóðfélagsins í tvennt, með því að leyfa vissum svæðum á landinu að útiloka dragnótaveiði með héraðabönnum, þó að öðrum landshlutum væri fyrirmunað að njóta þess sama réttar, þ. e. a. s., þar sem bannaðar voru héraðasamþykktir á svæðinu frá Hjörleifshöfða og vestur um til Látrabjargs, — að þá þótti ekki fært að fara langt út í réttinn til draganótaveiða, nema því aðeins, að jafnframt væri fyrirbyggt, að Danir gætu notfært sér af þessari heimsku. Því var það sett inn í lögin um þetta efni, að á Breiðafirði og Faxaflóa skyldi slík veiði þó aðeins heimil skipum, sem gerð væru út frá héruðum, sem að þeim liggja. Að þetta var látið gilda Faxaflóa og Breiðafjörð sérstaklega, en ekki suðurströnd landsins, stafaði vitanlega af því, að á fjörðunum er dragnótaveiðin hættulegri, vegna þess að þar geta seiðin leitað skjóls, sem þau ekki geta fyrir suðurströnd landsins. — En hvað skeður, þegar á að flenna upp á gátt alla landhelgina, afnema allar heimildir, sem menn höfðu til þess að útiloka þennan veiðiskap? Hvað skeður þá, og hverjum verður það í vil? Vitanlega fyrst og fremst Dönum og þeirra fylgihnetti, Færeyingum. Þeir geta siglt þráðbeint, í þeim rétti, sem sambandslögin skapa þeim, inn í landhelgina og skafið þar upp hverja vík og hvern vog. — En það er ekki öll Danavináttan sögð með þessu. Fiskiþingið, sem ég verð að segja, að er ekki til fyrirmyndar að ýmsu leyti hvað snertir hagsmuni sjómanna, sá þó hættuna blasa við í þessu efni og hnýtti aftan við sína samþykkt, að dragnótaveiðar skyldu bannaðar stærri en 30 smál. skipum. Og var það byggt á því, að ekki skyldi hljótast meiri skaðsemi af þessari opnun heldur en sú, sem hlýzt af dragnótaveiði landsmanna sjálfra. Því að ef Danir væru útilokaðir frá því að sigla hingað sínum eigin skipum, sem yfirleitt eru stærri en þetta, þá hlytist ekki annað eins tjón af þessu og annars myndi vera. Minni hl. sjútvn., þeir hv. 3. landsk. og hv. þm. Ísaf., þvo hendur sínar af þessari samþykkt fiskiþingsins, þótt þeir vitni í þessar samþykktir að öðru leyti. Þeir álíta sér ekki fært að taka þetta upp, af því að þeir álíta, að það gangi á móti hagsmunum Dana í þessu sambandi, því að það eru ekki innlendir hagsmunir, sem þeir eru hér að vernda. Danir eiga nú ekki eftir að njóta nema 6 eða 7 ár, samkv. sambandslagasamningnum, jafnréttis við Íslendinga með atvinnurekstur hér á landi, svo að það virðist sem þessir hv. þm., hv. 3. landsk. og hv. þm. Ísaf., ætli að gera þeim vel til þennan tíma, sem eftir er, og lofa þeim að njóta atvinnurekstrar hér, sem þeir sækja mjög eftir. Þeir vilja leyfa þeim að stunda dragnótaveiðar uppi við strendur landsins í skjóli sambandslagasamningsins. Og það er vitað, að eftirsókn og eftirlöngun Dana, bæði fyrir sína hönd og Færeyinga, er að verða meiri og meiri í að geta gripið í skottið á sambandslagasamningnum og notið góðs af honum þennan tíma, sem eftir er, bæði vegna þess, hvað Færeyingar eru staddir höllum fæti með sínar fiskveiðar, og af því, hvað þessi veiðiskapur Dana hefir verið að ganga úr sér meir og meir síðastl. ár, en það sýna bezt þær ráðstafanir, sem þeir hafa sjálfir gert í þessu efni.

Hv. 3. landsk. var að rengja það áðan, að það væri til löggjöf í Danmörku, sem gerði frekari ráðstafanir í þessu efni heldur en sú, sem bannar þessar veiðar 2–3 mánuði af árinu. Þetta er rangt hjá honum, því 1931 voru sett lög í Danmörku, sem takmarka þennan veiðirétt miklu meira, og nokkuð svipað því, sem við höfum gert hér í þessu efni, auk þess, sem þeir veita vissum svæðum, sérstaklega við Limafjörðinn og annarsstaðar þar, sem kolaveiðar eru stundaðar, alveg samskonar rétt og er í 1. hér, eða m. ö. o., að héruðin gera samþ. og banna þessa veiði annaðhvort um lengri eða skemmri tíma á vissum svæðum við strendur Danmerkur. 1931 fékk ég hjá sendiherra Dana hér löggjöfina um þetta efni, og vitnaði ég í hana í ræðu, sem ég hélt hér á þingi þá. Ég hefi ekki 1. hér núna, en ég á þau heima. Ég athugaði það ekki að koma með þau. En það er hægt að draga það fram síðar, ef á þarf að halda, sem sýnir greinilega, að þetta var orðið svo aðkallandi í Danmörku, að þeir urðu þar að gera sömu varúðarráðstafanir og þær, sem eru í l. hjá okkur og hv. 3. landsk. og hv. þm. Ísaf. vilja gersamlega þurrka í burtu. Það er ekki aðeins að dragnótaveiðar séu bannaðar þar á vissum tímabilum gagnvart kolaveiðum, heldur líka gagnvart þorskveiðum og yfirleitt öllum nytjafiskveiðum. Þetta m. a. eykur á óskir Dana um það, að geta siglt dragnótaflota sínum hingað til Íslands og skafið þar innan hverja vík og hvern vog. Það er ekki þess að vænta af Dönum, sem vita, að sambandinu verður slitið við þá 1942, að þeir horfi í það, þó þeir spilli framtíðarveiðum Íslendinga, þar sem þeir sjálfir eru svo tómlátir að vilja láta allt standa opið upp á gátt.

Ég sé, að ég hefi líka 1931 vitnað í það, eftir upplýsingum, sem ég hafði þá, annaðhvort frá sendiherra Dana eða úr dönskum stjórnartíðindum, að það var ekki aðeins, að héruðunum hefðu verið veittar þessar heimildir, heldur notuðu þau það ár víðsvegar þessar heimildir um sérbönn, og það sýnir, hvernig Danir litu á þetta mál. og sýnir líka, að þeir eru ekki eins tómlátir um að vernda sínar framtíðarveiðar eins og flm. frv. eru um að vernda framtíðarveiðar Íslendinga.

Það er svo ekki miklu fleira, sem ég þarf að segja um þetta mál. Íslendingur eru þá öllum heillum horfnir, ef það gæti orðið ofan á, að slíkt frv. sem þetta næði samþykki, og það er þess vegna ekki ástæða til að fara lengra út í þetta mál. En ég vil aðeins víkja örfáum orðum að því að hv. 3. landsk. var að tala um það hér áðan, að í öðru tilfelli hefðu Íslendingar veitt erlendri þjóð vissan rétt, og minntist hann í því sambandi á norsku samningana. Ég minnist þess ekki, að Norðmönnum hafi verið veittur þar neinn réttur fram yfir það, sem þeir höfðu hér heimild til þess að nota og notuðu undanfarin ár. Það er rétt, að í samningunum fólst viðurkenning á þessum rétti þeirra, en ekkert umfram það, sem þeir notfærðu sér hér áður. Það er rétt að athuga það í þessu sambandi, þó að það sé dragnótaveiðunum óviðkomandi, að það er kunnugt, að jafnaðarmenn börðust á móti norsku samningunum og töldu þá landráð. Það getur verið, að þeir séu nú farnir að renna niður þessu landráðatali sínu, því að nú hefir ráðh. frá þeim setið í stj. á þriðja ár og farið með þau mál, sem þetta heyrir undir. En hvað hefir hann gert til þess að hrinda þessum ófagnaði af mönnum, þessum landráðum, sem fólust í norsku samningunum? Mér er ekki kunnugt um, að hann hafi hreyft legg eða lið, og ekki heldur þessir flokksbræður hans, sem töluðu um landráðin. Síðan þessi ráðh. tók við hafa þeir smjattað á þessum landráðum sem öðru góðgæti. Það er því gefinn hlutur, hvað mikið þessir menn meina með tali sínu og hvílíkt regindjúp er staðfest milli þess, sem þeir fleipra með hér á þingi, og þess, sem þeir gera, þegar þeir hafa aðstöðu til þess að sýna þessa hluti í verki. Það er rétt að nota þetta tækifæri, fyrst þessir hv. þm. minntust á norsku samningana, og benda á, að það er sitt hvað, orð og gerðir jafnaðarmanna í sambandi við þetta mál.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. En þess er að vænta, að Alþ. hafi þann þroska í þessu máli, að það láti ekki stundarhagsmunatal þessara manna og svona skýra umönnun fyrir dönskum hagsmunum hér á landi verða til þess að skyggja á það, hversu mikið framtíð okkar sem fiskveiðaþjóðar er undir því komin, að landhelgin sé sem bezt friðuð, svo að ég minnist nú ekki á það stórfellda mál, sem er verkefni Alþ. og síðan ríkisstjórnar á næstu árum, en það er að geta rýmkað landhelgina frá því, sem nú er, og fá firði og flóa smátt og smátt friðaða fyrir þessum veiðum. Við verðum vitanlega að byggja þá kröfu á því, að gæzla landhelginnar og fullkomin verndun ungfiskjarins og fiskseiðanna í landhelginni sé mikils virði og hafi ákaflega mikla þýðingu fyrir fiskveiðarnar við strendur Íslands. Og hér er ekki aðeins að ræða um hagsmuni Íslendinga, heldur hagsmuni allra, sem stunda nytjafiskveiðar við strendur Íslands. Og það er hætt við, að þær stórþjóðir, sem við þurfum að leita samkomulags við um þetta, bendi á það, að ef við ekki sýnum slíka viðleitni sjálfir, þá séu rök okkar létt á metunum, og okkur verði því þungur róðurinn að hrinda þessu hagsmunamáli í framkvæmd. Þetta ber að athuga í sambandi við afgreiðslu þessa máls og annara, sem snerta íslenzka landhelgi.