14.04.1936
Neðri deild: 48. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2169)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Frsm. 2. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Það er orðið nokkuð langt síðan 2. umr. þessa máls var frestað í þessari hv. d., og ég var farinn að halda, að þessi frestur mundi þýða það, að málið kæmi ekki aftur á dagskrá að þessu sinni, enda hefði ég að ýmsu leyti talið það bezt farið. Það er orðið áliðið þingtímans, og þetta er 2. umr. í fyrri d., og ég geri líka ráð fyrir, að út frá sjónarmiði hv. flm. málsins sé litið við það unnið, að miklar umr. verði hafðar um málið úr þessu, því að það eru litlar líkur til þess, að málið geti gengið fram á þessu þingi, jafnvel þótt það kynni að fást meiri hl. fyrir því, sem ég geri ekki ráð fyrir eftir þeirri afstöðu að dæma, sem hv. þm. hafa tekið til málsins á undanförnum þingum.

Ýmsir hv. þm., sérstaklega hv. þm. Borgf., hafa tekið fram allgreinilega þær röksemdir, sem við, sem erum þessu frv. andvígir, höfum fært fram gegn því, að rýmkað verði um heimild til dragnótaveiða í landhelgi. Við höfum haldið því fram að Alþingi mætti alls ekki ganga lengra í þessu efni en þegar hefir verið gengið með þeirri undanþágulöggjöf, sem gerð var frá lögunum um bann gegn dragnótaveiði frá 1928, en þá var stórkostlega rýmkað um veiðina við Suður- og Vesturland, og þessi breyt. sætti mjög mikilli andstöðu á þingi, þó að hún kæmist í gegn. — Það er óþarft að rifja upp einstök atriði þessa máls, en ég vil þó endurtaka það, sem við höfum lagt megináherzluna á í þessu efni, sem sé það, að Alþingi verður að gæta mikillar varúðar í því að draga úr þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til þess að vernda landhelgina hér við land. Við höfum bent á, að það eru í rauninni ekki frambærileg rök í þessu máli, sem haldið hefir verið fram af sumum hv. flm., t. d. hv. þm. Ísaf. og hv. 3. landsk., að það væri réttlátt að gera þessar breyt. sem einskonar kreppuráðstöfun á þeim tímum, þegar útgerðin á við erfiðleika að búa að ýmsu leyti, og að þessar ráðstafanir ætti að gera til þess að hjálpa útgerðinni í bili. Við höfum bent á, að það er mikil skammsýni að ætla sér að hafa stundarhagnað af þessu, sem enginn veit, hversu mikill yrði, og fórna því að rýra landhelgisvarnirnar stórkostlega.

Við þetta tækifæri vil ég aðeins minna á það, að þegar frv. um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi var flutt á þingi 1928, þá var það samþ. í báðum d. þingsins með miklum meiri hl., og ég minnist þess sérstaklega, að frsm. sjútvn. Ed. tók það fram sérstaklega fyrir hönd n., að það, sem hún hefði helzt út á þetta frv. að setja, væri það, að það gengi ekki nógu langt í því að friða landhelgina fyrir dragnótinni. Það, sem hefir hinsvegar gerzt síðan í þessu máli, er það, að ýmsir menn á nokkrum stöðum virðast hafa komið auga á, að ef þeir gætu fengið rýmkað um þessa löggjöf, þá gætu þeir í bili haft einhvern hagnað af því, en því miður hafa þessir menn ekki komið auga á það, að hér er um framtíðarmál að ræða, sem hefir stórkostlega þýðingu fyrir sjávarútveginn.

Vil ég svo vænta þess, að afstaða þingsins sé sú sama og verið hefir, og legg ég til, að frv. verði fellt.