13.03.1936
Neðri deild: 23. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2178)

60. mál, sauðfjárbaðanir

*Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Ég hefi nú áður gert grein fyrir, að þetta frv. er mjög frábrugðið þeirri löggjöf, sem nú gildir um sauðfjárbaðanir hér hjá okkur. Það eru m. ö. o. tekin upp í þetta frv. öll þau tryggingarákvæði, sem nauðsynlegt þótti að taka upp í l. um útrýmingarböðun, og er þar af leiðandi svo frá þessu frv. gengið hvað þetta snertir, að gert er ráð fyrir, að viðhafðar séu við þrifabaðanirnar allar þær ráðstafanir, sem mönnum hefir nú hugkvæmzt að nota við útrýmingu fjárkláðans og við að halda honum í skefjum. Þetta frv., ef að l. yrði, gæti því hvað þetta snertir algerlega komið í staðinn fyrir 1. um útrýmingu fjárkláðans, en það, sem þá leiddi af því, ef þetta frv. yrði samþ., er það, að það spöruðust þær nokkur hundr. þús. kr. úr ríkissjóði, sem nú á að fara að verja til útrýmingar fjárkláðanum, og byrjað er á með því að taka upp í fjárlög fyrir árið 1937 milli 20 og 30 þús. kr. framlag. Ég verð að segja, að þeir menn líta einkennilega á hlutina, sem telja, eins og nú er ástatt hjá okkur, óþarfar þær till., sem fram koma á Alþingi og geta létt af ríkissjóði svo gífurlegum útgjöldum, samtímis því, að málefnalega séð er eins vel séð fyrir, að það verk sé unnið, sem vinna á, með þessu frv. eins og þeim l., sem hafa þennan mikla kostnað í för með sér fyrir ríkið.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Það er náttúrlega á valdi hv. d., hvort hún lítur á þessar till. sem algerlega óþarfar, og þeir menn, sem það gera, sýna þar vitanlega með sínu atkv., hvernig þeir líta á fjárhagsafkomu ríkissjóðs og hvernig þeir telja að eigi að mæta þeim erfiðleikum. sem við nú horfumst í augu við um allar greiðslur úr ríkissjóði, þegar fara þarf eins djúpt niður í vasa skattþegnanna eins og nú er farið á öllum sviðum. Þetta sýnir atkvgr. um þetta mál; við flm. frv. gerum það, sem í okkar valdi stendur, og verðum svo að sætta okkur við þá niðurstöðu, sem hv. d. kemst að. Þeir, sem þetta frv. fella, bera ábyrgð á því fjárbruðli, sem hér á sér stað, því annað er það ekki.