13.03.1936
Neðri deild: 23. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2180)

60. mál, sauðfjárbaðanir

*Þorbergur Þorleifsson:

Þegar mál þetta lá fyrir síðasta þingi, voru dregin fram þau mörgu rök, sem mæltu með því, að það væri afgr. á þeim grundvelli, sem gert er ráð fyrir í því frv., er hér liggur fyrir. En þá varð nú ofan á sú stefna í þessu máli, sem miklu óheilbrigðari er og meiri kostnað hefir í för með sér fyrir ríkissjóð. Með því að flytja frv. aftur höfum við viljað gefa Alþingi tækifæri til að leiðrétta þá röngu afgreiðslu, sem þetta mál fékk á síðasta þingi. Það er vitanlegt, og það er í rauninni kjarni þessa máls, að fjárkláðinn hefir magnazt í landinu vegna þess, að þeirri löggjöf, sem gilt hefir um þrifabaðanir, hefir ekki verið nægilega framfylgt. Það er fyrir trassaskap einstakra manna og héraða, að fjárkláðinn hefir magnazt á þann hátt, sem orðið er og til vandræða horfir, en einmitt með því að setja strangari löggjöf um þrifabaðanirnar, sem gerir eftirlitið með þeim fullkomnara, á að vera hægt a. m. k. að halda kláðanum í skefjum og hefta útbreiðslu hans. Það er ekki rétt hjá hv. þm. A.-Húnv., að það sé beinlínis tekið fram í grg. frv., að aldrei verði hægt að útrýma fjárkláðanum. Það hefir bara ekki tekizt enn þann dag í dag, og óséð, hvort það tekst nokkurntíma. Þess vegna þarf að vera löggjöf, sem tryggir það, að þessum vágesti sé haldið í skefjum, og það á einmitt þessi löggjöf að gera. Hvernig sem menn annars líta á þetta mál, er það víst, að einmitt með tilliti til þess að halda þessum vágesti, fjárkláðanum, í skefjum, er nauðsynlegt að setja löggjöf eins og þá, sem hér er farið fram á.

Andstæðingar frv. hafa fært svo lítil og léleg rök gegn því, að það er í rauninni ekki hægt að ræða málið við þá. Þeir hafa sem sagt engin rök fært fyrir því, að fella beri frv., og því er ástæðulaust fyrir okkur, sem frv. flytjum, að vera með langar umr. Ég vænti, að þeir, sem greiddu atkv. gegn því í fyrra, átti sig nú á því, að hér er um gott og nauðsynlegt mál að ræða, og stuðli að því, að það verði afgr. frá þessari hv. d. að þessu sinni.