13.03.1936
Neðri deild: 23. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (2182)

60. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Það var hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. N.-Þ., sem gaf mér nokkurt tilefni til að bæta ofurlítið við það, sem ég hefi áður sagt. Hann ítrekaði það, sem félagar hans og meðflm. undirstrikuðu báðir áður, að það mundi aldrei verða hægt að útrýma fjárkláðanum að fullu úr þessu landi.

Ég skal ekki fara mikið út í að ræða þetta atriði; það er fullyrðing, sem ekki er hægt að sanna, nema með reynslunni, og stendur þar orð á móti orði. (PO: Við höfum reynsluna). Við höfum reynslu um, að það hefir ekki tekizt, en við höfum enga reynslu um, hvað er hægt að komast, og svo er um ýmsa hluti í okkar þjóðfélagi, sem við erum alltaf að glíma við. Og við erum ekki svo trúlausir í meiri hl. landbn., að við trúum því, að ekki sé hægt að útrýma kláðanum eins og hverri annari pest í okkar sauðfé.

En það var ekki þetta, sem gerði það að verkum, að ég kvaddi hér hljóðs, heldur hitt, að hv. síðasti ræðumaður skildi ekki afstöðu okkar, sem falið væri að gæfa hagsmuna landbúnaðarins, að við vildum ekki bæta löggjöfina í þessu efni, heldur snúast gegn þrifaböðun. Vitanlega dettur engum okkar í hug að vera á móti þrifaböðun, en hitt álitum við, að í þessu frv. séu engin þau ákvæði, sem geri nauðsynlegt, að það verði samþ. Í lögunum frá 1914 eru öll þau ákvæði, sem þurfa að gilda til þess að þrifaböðun sé framkvæmd eins og vera ber. (ÞorbÞ: Því eru þau þá ekki framkvæmd?). Það eru engin lög til svo trygg, að ekki sé hægt að brjóta þau; það tryggja engin lög, og þetta frv. tryggir í engu betur framkvæmdina en gildandi lög. Þar stendur t. d., að hreppsnefndir skuli sjá um, að framkvæmdar séu þrifabaðanir; um það þarf ekki ný ákvæði. Ég vil því vísa frá okkur meiri hl. landbn., að þetta álit sé byggt á misskilningi eða óaðgæzlu, heldur af því, að við teljum þessa frv. enga þörf.