13.03.1936
Neðri deild: 23. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (2184)

60. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Það var ekki lítið uppi í hv. síðasta ræðumanni. er þóttist ætla að sýna hv. þd., hvernig hann leiddi okkur fjóra úr landbn. af villigötum, sem við værum á, og yfir á rétta braut, þ. e. til sín. Hann talaði mikið um skilningsleysi sitt á því, að við, sem hefðum verið kosnir til að verja hagsmunamál bændanna, trúnaðarmenn landbúnaðarins, skyldum snúast svona móti frv. þessu.

Það mætti vissulega lítt skiljanlegt og undarlegt heita, ef 4 af 5 landbnm. snerust gegn góðu máli. En það er nú bara svo með þetta frv., að engin þörf er á því, af því að öll þessi ákvæði og atriði, sem hv. þm. Borgf. var að telja upp, eru nú þegar í lögum, ýmist í gildandi lögum um þrifabaðanir eða í l. um útrýmingarböðun. Hvað snertir t. d. tæki til böðunar, þá er svo mælt fyrir í 1. um útrýmingarböðun, sem á að fara fram á þessu ári, að tæki skuli vera til á hverju heimili, og þá hljóta þau vitanlega að verða til í framtíðinni, og þá til afnota við þrifabaðanir. Þetta ákvæði er því ekkert annað en vitleysa.

Hvað baðstjóra snertir, þá tók ég það fram í fyrri ræðu minni, að um það eru í gildandi 1. fullnægjandi ákvæði. — Hvað snertir atriðið um val baðlyfs, að forstöðumaður rannsóknarstofnunar háskólans sé hafður þar með í ráðum, þá er ákvæði í l. um útrýmingarböðun um að það skuli gert, og ef það tekst vel, þá er ekki að efa, að hans ráð verða notuð í framtíðinni.

Hv. þm. sagði, að það væri leiðinlegt að stangast við menn eins og okkur. Ég býst við, að við getum sagt nokkuð svipað, þar sem flutningsmenn þessa frv. höfðu ekki athugað það betur en svo, að fyrst þegar það kom fram var í því ákvæði um að nema úr gildi lög, sem ekki voru til. Í öðru lagi var sagt, að samþ. hefði verið dagskrá, sem aldrei kom til umræðu, og í þriðja lagi sögðu þeir, að ekki væri hægt að útrýma fjárkláðanum. M. ö. o., það voru 3 rúsínur, eða sín rúsínan á hvern flm. Ég skal ekki fara út í að feðra þær, — það getur hver fyrir sig. En það er margt, sem bendir til þess, að hv. flm. séu svipaðir í sinni trú og gömlu mennirnir, sem ekki töldu neitt annað hægt en skera niður til að útrýma kláða. Þó að það sé rétt, að sú útrýmingarböðun, sem fór fram rétt eftir aldamótin, hafi ekki losað okkur við þennan vágest að fullu, þá er það ekki sönnun þess, að slíkt sé ekki hægt, því með bættri þekkingu og aðstöðu má ná því marki. Og vissulega er það að stangast við vanþekkinguna, að deila við þá menn, sem halda því fram skilyrðislaust, að ekki sé hægt að losna við þennan vágest, og því sé bezt að hafa aðeins þrifabaðnir.