20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (2197)

60. mál, sauðfjárbaðanir

Magnús Torfason:

Mér kemur það dálítið á óvart, að hv. landbn. skuli leggja svo fast á móti þessu frv. Ég tel það engin rök í þessu efni, þótt slíkt frv. hafi ekki gengið fram í fyrra, vegna þess að aðstæður voru þá aðrar. Ég held, að það geti ekki komið til mála, að útrýmingarböðun geti farið fram á næsta ári; en í fyrra var litið svo á, að það væri í vændum, og mátti þá líta svo á, að ekki væri ástæða til að breyta lögunum frá. 1914.

Fyrir mitt leyti verð ég að geta þessu frv. mitt atkv. Í fyrsta lagi af því, að ég tel ekki unnt að koma á útrýmingarböðun á þessu ári, og sennilega ekki á næsta ári. Í öðru lagi vegna þess, að ég sé ekki annað en það eigi að taka fastara á um þrifaböðun heldur en gert er í gömlu lögunum frá 1914. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að sérstakur baðstjóri verði hafður í hverjum hreppi. Þetta hefir verið gert í Árnessýslu um langt skeið og gefizt svo vel, að margt ár hefir vart sézt þar kláðakind. Þá hygg ég einnig, að þetta frv., ef að lögum verður, verði mikil hjálp til að undirbúa útrýmingarböðun, þegar þar að kemur; þá verður búið að gera sundþrær og annað, sem fer betur með féð en áður, og menn orðnir kunnugri böðunum.

Þegar það er vitað, að kláðinn er plága í sumum héruðum, virðist mér ekki rétt að spyrna á móti því, að hert sé á þrifaböðunnm, og ég lýsi því yfir, að ég tel til muna verr farið, ef frv. verður ekki samþ.