27.04.1936
Efri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2208)

60. mál, sauðfjárbaðanir

*Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. er komið frá n. og fjallar um það að skipa eftirlit með þrifaböðun á sauðfé og miðar að því, að þrifabaðanir verði betur af hendi leystar en verið hefir. Þeir, sem eru kunnugir sauðfjárbúskap hér á landi, vita það, að böðun á sauðfé er nauðsynleg fyrst og fremst vegna þrifa í fénaðinum. Það er vitað, að ef ekki er í lagi með þrifabaðanir, þá eru óþrif í fénaðinum og fóðrið verður dýrara. Sumir álíta og að þrifaböðun sé bezta vörnin gegn því, að fjárkláðinn brjótist út. Það er álitið, að víða á landinu séu þrifabaðanir allt annað en góðar, og þess vegna sé ástæða til þess að stuðla að því, að þær verði betur af hendi leystar heldur en nú er, og einmitt það er tilgangur þessa frv.

Ég hefi heyrt því fleygt, að þetta frv. væri þrándur í götu þess, að útrýmingarböðun gæti farið fram í landinu, þegar það þætti við eiga, en ég get ekki séð, að það hafi nein áhrif á það.

Landbn. leggur til, að þetta frv. verði samþ., en einn nm. hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, og veit ég, að hann mun gera grein fyrir sínum fyrirvara.

Það er hér á þskj. 424 brtt. frá hv. þm. Dal. N. hefir ekki haft tækifæri til þess að taka neina ákvörðun um þessa brtt. Og þar sem hún er dálítið sérstök að efni til, þá þætti mér að vissu leyti gott, ef hv. þm. vildi taka þessa brtt. aftur til 3. umr., til þess að n. gæti athugað hana og komið sér saman um, hvernig hún vill við brtt. snúast. — Það eru því tilmæli mín til hv. þm., ef hann sér ekki á því neina sérstaka annmarka, að hann tæki brtt. aftur til 3. umr.