27.04.1936
Efri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2209)

60. mál, sauðfjárbaðanir

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Samhljóða frv. því, er nú liggur hér fyrir, lá fyrir hv. Nd. á síðasta þingi, og þá lék sá orðrómur um, að það frv. væri beinlínis sett til höfuðs öðru frv., sem þar var á ferðinni, frv. um útrýmingarböðun á fjárkláða í sauðfé. Bæði var það, að mönnum virtist orðalag frv. benda í þá átt, og svo töldu menn, að faðernið væri þannig, að hægt væri að búast við, að þar gæti legið einhver fiskur undir steini.

Nú er þetta frv., nokkuð svipað og áður var, komið fram og búið að ganga í gegnum hv. Nd., og það kom fram þar við umr. um frv., að menn væru smeykir um, að það væri flutt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir útrýmingarböðun á sauðfé.

Út af þessu skal ég geta þess, að hæstv. landbúnaðarráðh. hefir tjáð mér, að þótt frv. yrði að lögum, hefði það engin áhrif á fyrirætlun stj. um að láta fram fara útrýmingarböðun næsta haust, eins og þegar hefir verið sent bréf um til allra sýslumanna úti um land, eða eins fljótt og ástæður leyfa. — Af þessum ástæðum get ég ekki séð, að þetta frv., þó að l. verði, verði til bóta.

En þá er spursmálið, hvernig horfir við um þetta frv. Hv. frsm. lét í ljós, að þetta frv. mundi vera til bóta frá þeim ákvæðum, sem nú gilda um þessa hluti, og að nauðsyn væri á, að fram fari þrifaböðun á sauðfé. Það er alveg satt, að á flestum bæjum er þetta nauðsynlegt, þó að ég sé honum hinsvegar ekki sammála um, að alltaf séu endilega hjá öllum fjáreigendum óþrif í sauðfé, þó ekki sé baðað á hverju ári. — En eins og hv. þdm. er kunnugt, eru til l. um þrifabaðanir frá 1914, sem ákveða, hvenær baða skuli, og um sektir, ef ekki er baðað. Má heita, að þau l. séu í flestu tilliti eins og frv. það, sem hér er um að ræða, nema hvað sektarákvæðin eru þyngri í frv., ef út af er brugðið. Og svo er annað, að í þessu frv. er valdboðið, að það séu baðstjórar, sem standi yfir böðun á hverju heimili. (JBald: Á hverri kind). Já, á hverri kind. Þetta er mikill kostnaðarauki, sem ekki er allskostar þörf á.

Í þessu frv. eru líka ákvæði um það, að steypa eigi sundþrær svo víða sem baðstjórum þykir þörf. Það verður líka kostnaðarauki.

Ég er náttúrlega ekki að setja mig á móti svona fyrirmælum, sem kannske verða til hins betra. (Og það verður nú kannske ekki ýkjakostnaðarsamt að steypa sundþrær, þegar íslenzka sementið kemur!). En mér virðist vera einn ágalli á þessu frv., sá, að engin lagaákvæði eru sett með því um það, að stjórnarvöldunum sé heimilt að láta fram fara rannsókn á því, hvort kláði sé í fé í hinum ýmsu héruðum landsins og yfirleitt hvernig ástandið sé þar í þeim efnum. Þetta var í l. áður, en var fellt úr löggjöfnni, þegar l. um útrýmingarbaðanir voru sett. Og ég sakna þess, að engin slík ákvæði skuli vera í þessu frv. — Samkv. brtt. minni á þskj. 424 ætlast ég til, að áður en þrifabaðanir fara fram á sauðfé sé á vetri hverjum í þeim héruðum, þar sem fjárkláði er eða grunur er um, að svo sé, látin fara fram kláðaskoðun á öllu sauðfé. Því að eins og menn vita, þarf blöndun að vera sterkari í kláðabaði heldur en þrifabaði. Þarf því fyrirfram að vera vitað um það á hverjum stað, hvort kláðaböðun þarf að fara fram eða aðeins þrifaböðun. — Mér hefði fundizt æskilegast, að umr. um þetta mál væri frestað til næsta dags, til þess að n. gæti fyrir lok þessarar umr. verið búin að taka ákvörðun um þetta atriði.