27.04.1936
Efri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2210)

60. mál, sauðfjárbaðanir

*Frsm. (Páll Hermannsson):

Mér finnst nú, að hv. þm. Dal. ætti frekar að slá þessari brtt. sinni á frest til 3. umr. málsins heldur en að fara fram á frestun á þessari umr., ekki fyrir það, að það hafi ekki hvorttveggja sömu þýðingu. En mér sýnist það koma alveg í sama stað niður fyrir hv. þm., þó að hann fái þessa brtt. samþ. við 3. umr. eins og við þessa umr., — eða þá hinsvegar, ef svo illa kynni nú til að takast, að hún yrði felld, þá finnst mér einnig alveg eins mega gera það við 3. umr. En það tefur fyrir málinu að fresta umr. nú. Ég endurtek þá áskorun mína og vinsamleg tilmæli til hv. þm. Dal., að hann taki nú brtt. sína aftur til 3. umr.

Hv. þm. Dal., taldi það annmarka á frv., þetta ákvæði um baðstjórana. (ÞÞ: Ég kallaði það ekki annmarka). Ég býst ekki við, að þetta þurfi að verða mjög kostnaðarsamt. Menn taka nú yfirleitt ekki ógnarlega mikið fyrir störf sín úti í sveitum að vetrarlagi. En ég legg töluvert mikið upp úr því, að baðanir fari fram samtímis á því fé, sem gengur saman. Það er vitanlega ósiður að láta baðað fé og óbaðað ganga saman. Annars er það víða svo, að það þarf ekki á baðstjóra að halda við þrifaböðun á fé. En þetta ákvæði er sett í l. vegna trassanna, og hinir verða að súpa seyðið af. En ég veit ekki til þess, þar sem ég þekki til, að fé sé baðað öðruvísi en í sundþróm. Og ef þeim ósið er enn haldið einhversstaðar á landinu að baða fé í handkerum, þá má slíkt gjarnan leggjast niður. Það er blátt áfram ill meðferð á fénu að hártoga það eins og oft er gert við handkeraböðun.

Ég held, að ákvæði þessa frv. séu yfirleitt öll til bóta, jafnvel þó að víða hagi svo til á landinu, að ekki þurfi beint á þeim að halda. En lækningar eru til fyrir þá, sem sjúkir eru, en ekki fyrir þá heilbrigðu, og svo er um þessi l., að þau eru ætluð til þess sérstaklega að vera aðhald fyrir þá, sem aðhalds þurfa með í þessum efnum.