04.05.1936
Efri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (2216)

60. mál, sauðfjárbaðanir

*Bernharð Stefánsson:

Nýlega voru samþ. l. um útrýmingu fjárkláða, þar sem ætlazt er til, að fram fari almenn útrýmingarböðun í landinu, og er vitanlega vonazt eftir, að hún beri árangur. Að þetta hefir ekki verið gert enn, stafar vafalaust eingöngu af því árferði, sem verið hefir. En það er vonandi, að hægt verði að framkvæma þetta mjög bráðlega.

Að öðru leyti er á það að líta, að til eru l. um sauðfjárbaðanir, sem skylda hvern sauðfjáreiganda að baða fé sitt árlega. Ég fyrir mitt leyti fæ því ekki séð að það sé brýn þörf á nýrri lagasetningu í þessu efni, nema ef væri frá því sjónarmiði að koma útrýmingarböðununum fyrir kattarnef. En nú hygg ég, að þótt þetta frv. væri samþ., mætti framkvæma útrýmingarböðun eftir hinum l. eftir sem áður. Og jafnvel þó að það væri þá tilgangur með þessu frv., þá er engin trygging fyrir því, að hann næðist. Aftur á móti er sveitarfélögum bakaður allmikill kostnaður með þessu frv., og er vert að líta á það, þar sem í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að í hverjum hreppi sé baðstjóri, og honum er gert að skyldu að vera viðstaddur hverja böðun. Er það allmikið starf.

Mér hefir talizt svo til, að kostnaður í meðalhreppi geti numið um 300 kr., ef borga á baðstjóranum sæmilegt kaup, þótt það væri talsvert lægra en venjulegt verkamannakaup. — Mér finnst engin þörf á nýrri lagasetningu um þetta efni, þar sem við höfum nægileg lög fyrir, og auk þess tel ég, að sum ákvæði frv. séu harla vafasöm. Ég tel því þá aðferð réttasta, sem meiri hl. landbn. í Nd. vildi hafa, að vísa frv. frá með rökst. dagskrá, með tilvísun til núgildandi laga. Ég mun því taka þá dagskrá upp og leyfi mér að afhenda hæstv. forseta hana.