03.03.1936
Neðri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2229)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Flm. (Ólafur Thors):

Ég hefi enga aths. að gera við ræðu hv. 2. þm. Reykv., formanns fiskimálan., aðra en þá, að ég vil vekja athygli hv. þdm. á þessum orðum hv. þm., að ef óánægja sé með fiskimálan., þá sé ekki minni óánægja með S. Í. F. Ég vildi, að þessi orð hans yrðu til áréttingar mínum orðum um það, að æskilegt er, að sjútvn. rannsaki þetta og upplýsi, þegar frv. kemur frá þeirri n., hver hugur útvegsmanna er í þessu efni. Það getur verið rétt, að þm. Sjálfstfl. verði einir um að standa með þessu máli hér á þingi. Hv. 2. þm. Reykv. veit náttúrlega miklu betur um hug sinna flokksbræðra og bandamanna í þessu efni heldur en ég. En ég skal ekki trúa því fyrr en ég tek á því, ef það upplýsist fyrir milligöngu sjútvn., að hugur útvegsmanna í þessu efni stefnir að langmestu leyti í sömu átt og frv., að það hafi þá engin áhrif á afgreiðslu hæstv. Alþ. á þessu máli.