22.04.1936
Neðri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (2241)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

N. hefir klofnað í þessu máli, eins og nál. á þskj. 184 og 172 bera með sér. Að vísu voru ekki nema 4 nm. á fundi, þegar málið var afgr., þannig, að einn nm., hv. þm. Vestm., hefir ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins.

Meiri hl. n. lítur svo á, að starf fiskimálanefndar sé að ýmsu leyti svo fjarskylt starfi sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, að varhugavert sé að fela stjórn S. Í. F. þau mál, sem heyra undir fiskimálanefnd. Ennfremur er það, að S. Í. F. er stofnað og allt þess skipulag er byggt á því, að það verzli eingöngu með saltfisk. Og eftir þeim yfirlýsingum, sem nýlega hafa komið fram á fundi S. Í. F., má búast við, að S. Í. F. klofnaði, ef það ætlaði sér að taka upp aðra starfsemi en þá, sem upphaflega varð samkomuleg um milli stofnenda þess, að það tæki að sér, sem sé saltfiskssölu. En ef S. Í. F. klofnaði, þá er að áliti margra, sem halda því fram, að nauðsynlegt sé, að saltfiskssalan sé á einni hendi, illa farið og hætt við, að það gagn, sem hefir orðið af starfi S. Í. F., yrði ekkert á næstunni.

Fiskimálanefnd rekur samkv. l. um fiskimálanefnd, útflutning á fiski, hagnýtingu markaða o. fl. ýmiskonar áhættusama tilraunastarfsemi, sem kemur fram í ýmsu, sem ekki getur heyrt undir S. Í. F., a. m. k. eins og það starf er nú, t. d. niðursuða, veiðar á kampalampa og fleira þess háttar. M. ö. o.: Fiskimálanefnd á að gera tilraunir með hagnýtingu ýmissa sjávarafurða með nýjum aðferðum, sem eru fjarskyldar starfi S. Í. F., og það er ákaflega hætt við, að þeir, sem trúa stjórn S. Í. F. fyrir að selja sinn saltfisk. yrðu því margir mótfallnir, að það tæki að sér slíka áhættusama tilraunastarfsemi.

Ennfremur er það vitað, að framkvæmdarstjórar S. Í. F. hafa átt svo annríkt við störf sín, að þeir hafa ekki haft tíma til 3–4 síðustu árin að svara bréfum, sem þeim hafa borizt um möguleika fyrir nýjum mörkuðum fyrir saltfisk, sbr. skýrslu Thors Thors, sem sendur var í markaðsleit til Ameríku á síðastl. ári. Og meðan forstjórar S. Í. F. eru svo störfum hlaðnir, að þeir mega ekki vera að sinna nýjum möguleikum, sem þeim berast upp í hendurnar, þá virðist ekki ástæða til að auka á þeirra annir.

Nú er svo einnig, þegar um er að ræða alþjóðarfyrirtæki eins og S. Í. F., sem er félagsskapur manna úr öllum flokkum, að það er ákaflega mikil nauðsyn á, að sem mestur friður sé í kringum þá stofnun, svo að ekki séu dregnar pólitískar ádeilur inn á svið fisksölumálanna. Þetta hefir þó því miður verið gert af Sjálfstfl. á mjög glópslegan og áberandi hátt. Þeim starfsfriði, sem nauðsynlegt er, að héldist kringum þessa stofnun, hefir, alveg að óþörfu, verið stefnt í mikla hættu. Hinsvegar er það svo, að tilraunir þær, sem fiskimálanefnd gerir, eru svo margháttaðar, að mjög líklegt er, að mikið af þeim misheppnist í lengri eða skemmri tíma. Þannig er full vissa fyrir því, að miklu auðveldara er að gera starf fiskimálanefndar að ágreiningsefni og árásarefni, af því að þau störf eru miklu fjölbreyttari, og tilraunastarfsemi hlýtur óhjákvæmilega að misheppnast að meira og minna leyti fyrst. Það er vitanlegt, að varla eru svo gerðar tilraunir um sölu á erlendum markaði, jafnvel á gömlum tegundum, hvað þá nýjum, að þær geti ekki misheppnazt fyrst, svo að af hljótist skaði.

Nú mun verða vitnað til þess, að á nýafstöðnum fundi í S. Í. F. var samþ. ákveðin till. um að breyta störfum S. Í. F. á þann hátt, að S. Í. F. taki að sér störf fiskimálanefndar. Mun verða talið, að á bak við þessa ályktun hafi staðið vilji fiskeigenda í landinu. Í þessu sambandi er óhætt að benda á það, að meiri hl. á þessum fundi áttu framkvæmdarstjórar S. Í. F. ásamt starfsmönnum þess. Þeir höfðu þar hreinan meiri hl. Það er því vilji mjög fárra fiskeigenda, sem fram kemur í þessari samþykkt á fundi S. Í. F. Hinsvegar má geta þess, að á til þess að gera nýafstöðnu fiskiþingi, þar sem voru mættir fulltrúar frá smáútgerðarmönnum víða úti um land, sem eru kosnir af fjórðungsþingum Fiskifélagsins. þar var felld till. um að sameina fiskimálin undir eina stjórn, sem mun hafa verð flutt í þeim tilgangi að færa stjórnina undir stjórn S. Í. F., en ekki að fella S. Í. F. undir fiskimálanefnd, sem ef til vill hefði mátt skilja.

Að því athuguðu, að meiri hl. sjútvn. telur varhugavert að sameina þessi tvennskonar störf á þann hátt, sem farið er fram á í frv., leggur meiri hl. sjútvn. til, að málið verði afgr. með rökst. dagskrá á þskj. 184, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar eð ekkert það hefir komið fram í fiskimálunum, er bendir til þess, að eðlilegt sé eða hagkvæmt að leggja störf fiskimálanefndar undir stjórn Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, og nýafstaðið fiskiþing hefir fellt tillögu um slíka sameiningu, telur deildin samþykkt þessa frv. þýðingarlausa og jafnvel skaðlega fyrir framkvæmd fiskimálanna og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vænti þess, að þeir, sem eru ekki blindaðir af því flokksofstæki, sem hefir auðkennt sérstaklega till. hv. þm. G.-K. í þessum fiskimálum, ljái þessari rökst. dagskrá atkv. sitt, því að það er vissulegu svo, að stofnun fiskimálanefndar og þeir möguleikar, sem henni eru gefnir, er eitthvert merkasta skrefið, sem stigið hefir verið til þess að reyna að hamla eitthvað á móti þeim vandræðum, sem fisksalan og sjávarútvegurinn hefir lent í vegna þeirra miklu takmarkana, sem gerðar hafa verið um innflutning á saltfiski til helztu markaðslanda vorra, og þess mikla verðfalls, sem orðið hefir á þeirri vöru. Það væri sannarlega illa farið — en mér dettur ekki í hug, að á því sé nein hætta —, að Alþingi fallist á þær skaðvænlegu till., sem miða að því að draga úr afskiptum löggjafarvaldsins af þessum málum, þeim afskiptum, að lögð sé fram ákveðin fjárhæð úr ríkissjóði til þess á hverju ári að kosta þá tilraunastarfsemi, sem gera þarf, að svo miklu leyti sem geta ríkissjóðs leyfir.