29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2246)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Mér var sagt, að atvmrh. hefði byrjað mál sitt á því að beina nokkrum orðum til mín. Ég mundi ekki vera mjög brattur, ef ég hefði tekið þau orð fullkomlega til greina eins og mér voru flutt þau. Ég býst nú við, að ég fari samt ekki að hopa mikið fyrir þessu eða taka það nærri mér. Það er algengt, að menn verða sáryrtir, þegar þeir komast í vanda. Og það er gamalt mál, að það reyni aldrei meir á skap manna heldur en þegar þeir eru í hættu staddir. Ég minnist þess, að sagan getur um marga menn, sem hafi orðið misjafnlega við dauða sínum. Það þótti bera vott um göfuglyndi að verða vel við dauða sínum og mæla þá fátt og láta lítið á sér sjá eða heyra, hvað þeim bjó í skapi, og svo aftur það gagnstæða um hina. Ég man það, að Snorri segir einhversstaður: „Ok mælti hann mörg skrækyrði áður en hann var hengdur.“ Nú er það svo, að ég býst við, að atburðir síðustu daga hafi orðið til þess, að ekki sízt atvmrh. sé orðinn valtur í sessi, og ég lít svo á, að það hafi orðið til þess, að hann sé nú að búa sig undir sinn pólitíska dauða. Ég mun þess vegna ekki taka það illa upp fyrir honum, en snúa mér heldur að þeim atriðum, sem við eigum að deila um. Hann furðaði mjög mikið á því, að ég skyldi vera svo djarfur að látast mæla hér máli fiskeigenda, og honum þykir ég ekki hafa mikla burði til þess. Það má vera, að aðrir séu til þess betur fallnir, en það er nú svo, að ég hefi ekkert annað gert en að flytja hér vilja þeirra manna, sem treystu mér vel til þess, og a. m. k. betur en hæstv. ráðh. og hans fylgismönnum. Þetta er í sjálfu sér ekki mikið vandaverk, og ef ég ekki flytti þessi mál vel, væri það mjög leitt, því að það þarf ekki ákaflega mikla þekkingu til þess. Hitt er annað mál, að til þess að setja sig á þann háa hest að vera forsvarsmaður þessarar stéttar er viðkunnanlegra að þekkja þorsk frá ýsu, en það eru þær hæstu kröfur, sem nokkrum manni mun detta til hugar að gera til hæstv. ráðh., sem setur sig á þann háa hest að segja útgerðarmönnum að sitja og standa eins og þekking hans sjálfs býður. Við höfum alið aldur okkar nokkurn tíma í sama bæ, hæstv. ráðh. og ég, og er það útgerðarbær. Ég ætla, að þar geti enginn komizt hjá að öðlast einhverja þekkingu á þessum hlutum, en það verður auðvitað misjafnt, eftir því hvað menn leggja á sig til þess. Ég skal játa það, að ég er kominn ofan úr afdal, eins og hæstv. ráðh., og kom ekki að sjónum fyrr en ég var orðinn fullorðinn, en ég hefi fyrst og fremst haft vit á því, að þeir, sem lifa á útgerð, þó það sé óbeint kannske, eru skyldugir til þess að setja sig inn í þann atvinnurekstur, sem þeir óbeinlínis lifa á, — setja sig inn í höfuðbjargræðisveg þeirra manna, sem maður býr með, og líta með skilningi og velvilja á lífsbaráttu þessara manna. Og það er ekki hægt fyrir þá menn, sem einhverjar skynsamlegar „interessur“ hafa í þessum efnum, annað en leggja sig beinlínis eftir að skilja, hvernig sá atvinnurekstur stendur, hvers hann þarf með o. s. frv. Það er það, sem ég hefi reynt að leggja mig eftir, og þó að ég hafi ekki uppeldisleg, þekkingu, sem margir hafa fram yfir mig, þá er það af þessum ástæðum, að ég hefi verið í stjórn útgerðarfyrirtækis og lent í sjútvn. þessarar d. Þetta er af því, að ég læt mig þessi mál miklu skipta, eins og sjálfsagt er, því að ég lít svo á, að mitt líf sé sama, og þeirra manna líf, sem kringum mig búa, en að eins líf sé ekki annars dauði.

Hæstv. ráðh. eyddi miklum tíma í það að rekja afrek fiskimálanefndar. Í raun og veru þarf langan tíma til að rekja öll hennar slys og misstignu spor. Um það, sem hún hefir gert til gagns fyrir útgerðarmenn, heyrði ég hann ekkert segja nema það, sem hver útgerðarmaður hefði getað gert, ef hann hefði fengið fé til þess. Hann var að tala um þá menn, sem þarna væru. Það eru þar náttúrlega margir sæmilegir menn á sínu sviði, en ekki sérstaklega fallnir til þess að hafa vit fyrir útgerðarmönnum. Enda fór það svo, að þegar hann fór að telja upp þessa menn, þá verð ég að segja, að ég fann hvergi mann, sem hafði þekkingu á þessum hlutum. Hann taldi náttúrlega upp formanninn. Ég veit ekki til, að hann hafi nokkra minnstu þekkingu á þessum málum. Hann hefir að vísu selt fiskimönnum olíu, en menn öðlast ekki mikla þekkingu á útgerðarmálum og sölu fiskjar í gegnum það. Hann taldi upp einn góðan sjálfstæðismann, Guðmund Ásbjörnsson; hann er ágætur á sínu sviði og líklega sá maðurinn, sem mesta þekkingu hefir á þessum málum, því að hann hefir verið í stjórn útgerðarfyrirtækis hér í bænum. Hann taldi upp bankastjóra Útvegsbankans, Jón Baldvinsson. Þessi maður sagði sjálfur í minni áheyrn, að hann hefði aldrei komið á fund í n., svo tæplega hefir hann nú lagt mikið til málanna, ef það er rétt. Enda er mér sagt, að nefndarstörfin séu ákaflega losaraleg; þarna traska menn inn eins og klaufdýr sinn í hvert skiptið og olíusalinn segir fyrir og lóðsinn í fjarveru hans. — Það er með þennan harðfisk, sem verið er að tala um, að ég held bara, að hann sé eins og stundum er sagt, að hann sé kominn á heilann á manninum og hans samherjum. Það á ekki að vera hægt að lifa á öðru en harðfiski, sem fiskimálanefnd hefir látið verka. Við höfum hér á Íslandi lifað á harðfiski að sumu leyti í þúsund ár, og hann hefir ekki stigið mönnum svo til höfuðs fyrri. Hæstv. ráðh. sagði, að fiskimálanefnd hefði verið látin í friði þangað til hún fór að selja til Ameríku. Hún hefir verið látin meira í friði heldur en rétt er, því að það er alls ekki rétt að láta þá menn í friði, sem haga sér eins og vitlausir menn. Árangurinn af tilraunastarfi fiskimálanefndar í Ameríku er sá, að markaðurinn þar er nú algerlega lokaður, og það þarf ný átök til þess að opna hann. Það er enginn vafi á því, að það hefði farið betur, ef þeir Kristján Einarsson og Hafsteinn Bergþórsson, sem búið var að ráða af Sölusambandinu til að útbúa þennan farm, hefðu haft með það að gera, heldur en þessi samvinnuskólapiltur, sem síðast var fiskaður upp til þess að gera þetta. Ég get sagt hæstv. ráðh., að þær fréttir eru komnar síðan farið var að nota þennan fisk, að fiskurinn hafi verið skakkt valinn. Þegar fiskimálan. fékk þennan sérfræðing til að velja hann, þá tókst svo til, að fiskurinn var allt of stór. Það er engin von, að þessi maður hefði vit á þessu, en það, að þurfa að bægja þessum mönnum frá þessu, sem vit höfðu á því, hefir leitt til óhappa, og menn vita ekki, hvað þau óhöpp geta af sér leitt í framtíðinni.

Ég hefi alls ekki heyrt það vefengt, að það hafi verið hæfustu mennirnir, sem voru valdir, þó að ég efist alls ekki um, að ýmsir mjög hæfir menn aðrir hafi einnig verið til. Og menn þessir voru valdir með mjög samhljóða vilja stjórnarinnar, og þar á meðal þess manns, sem troðið var inn af hæstv. ráðh. (Hv: Þeir voru kosnir af framkvæmdarstjórunum, en ekki mér). Það var ekki ein einasta till. önnur, og það má fá afskrift af bókum stjórnarinnar og sanna með því, að þeir voru kosnir með samhljóða atkvæðum. (HV: Ég var ekki hér á landi þá). Nei, það telur maður ekki til skaða, en varamann hafði hv. þm. í nefndinni, og ég skal ekki fullyrða um það, hvort hann greiddi atkv. með þessu, og það minnir mig þó, en áreiðanlega greiddi hann ekki atkv. móti því.

Það er ekki til neins að eyðu mörgum fleiri orðum um þetta, en það er bert af því sem fram hefir farið, og af þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. hefir gert viðvíkjandi fiskimálanefnd, að tilgangurinn var sá, sem aldrei var þó tilgangurinn hjá þinginu, að gera þessa nefnd að verzlunarstjórn og láta hana reka í stórum stíl áhættusöm viðskipti. En það er í fullu samræmi við þá viðleitni, sem sífellt hefir borið á síðan um síðustu kosningar, að blása upp verzlunarbáknum, sem fengju mikil fjárráð, gætu rótazt í fé landsmanna, og á þann hátt þjónað hagsmunum ýmsra manna, eftir því sem þessi fyrirtæki þora að draga menn í dilka. Þess vegna hefir hæstv. ráðh. beint öllu því fjármagni, sem honum var tengið til þess að greiða fyrir fisksölunni, til þessarar nefndar, af því að hún á að rótast í fé landsmanna eins og aðrar stjórnir nýrra ríkisfyrirtækja.

Ég veit ekki, hvort ég á að svara nokkru hv. þm. Ísaf. Það er sannarlega að höggva í gamalt kjöt að fara að segja þeim manni til syndanna, og í raun og veru býst ég ekki við, að nokkur maður hallist, þó að hann leggi til hans. Hans sprota vantar algerlega máttinn. Það er málefnið, sem yrði að bera hans högg uppi, því að maðurinn, sem á bak við stendur, er þekktur að því að valda ekki neitt þungum vopnum, og hingað til hafa engin sæmdarhögg verið greidd með hans sprota, því að venjulega hafa farið saman málefnið og maðurinn. Svo hefir þessum manni verið falið að vera í útvegsnefnd þessarar hv. deildar. Hann hefir gert sig frægan fyrir það að rísa tvöfaldur gegn hverju því nytjamáli, sem þar hefir fram komið sjávarútveginum til handa. Þar hafa æfinlega vegið á móti hans persónulegu hagsmunir og pólitískir hagsmunir hans flokks. Enda hefir hv. þm. flutt illan málstað og á hinn ámátlegustu hátt. Ég verð að segja það, ef málstaður hv. þm. væri ekki ávallt illur, þá mundi hann auðveldlega verða það, þegar hann er borinn fram með þeim endemum, sem þessi hv. þm. hefir borið fram skemmdarmálefni andstöðumanna hagsmuna sjávarútvegsins.

Ég held, að það hafi verið alveg misheppnuð tilraun, sem hv. þm. gerði til þess að sýna fram á, að ég hefði flutt ámæli á mæta menn, einkanlega sjálfstæðismenn, sem sæti áttu á fiskiþinginu, og tók sérstaklega til hv. 1. þm. Rang. Ég leyfði mér að grípa fram í fyrir hv. þm. Ísaf., en hann sagðist ekki vera hér til þess að heyra það, sem ég segði, en ég sagði, að ef hv. 1. þm. Rang. hefði nennt að rétta út hönd sína og taka tillit til þess, sem hv. þm. sagði, hefði hann hirt hv. þm. Ísaf. eins og hirt er fyrir óþurftarverk.

Ég sagði ekkert aukatekið orð til þessa virðulega manns út af þeirri till., sem felld var með jöfnum atkv. og hljóðaði eitthvað á þá leið, að fundurinn teldi eðlilegt og sjálfsagt, að fiskeigendur hefðu meiri hluta í stjórn fisksölumálanna. Þessi till. var felld með jöfnum atkv., en það er vitanlegt, að með henni voru þeir menn, sem vandastir voru að sóma sínum, og þar á meðal þessi hv. þm. (JÓl), sem nú er fjarverandi, og margir aðrir mætir menn og ég ætla allir sjálfstæðismenn. En hinir, sem ekki vildu styðja þann sjálfsagða málstað, að fiskeigendur hefðu meiri hl. í stjórn þessara mála, voru menn, sem höfðu ýmsra annara hagsmuna að gæta. Það getur verið, að sumir hafi eitthvað til síns ágætis, en alla brast þá drengskap til þess að unna fiskeigendum að ráða sínum málum. En það situr sízt á hv. þm. Ísaf. að setja sig á háan hest út af því, hvað illa menn stóðu í sinni stöðu og ræktu trúnað við málefnin.

Hv. þm. Ísaf. fór mörgum herfilegum orðum um mig. Kallaði mig leiguþý margsinnis og sagði, að mitt hlutverk væri að leigja mig til þess að bera fyrir borð hagsmuni alþjóðar vegna persónulegra hagsmuna. Að sönnu færði hv. þm. engin rök fyrir þessu. En ég fer þá illa með þessa hagsmuni. því að ekki má það á mér sjá, að ég hafi varið æfi minni til þessa sómaverks. En ég vil bara minna þennan hv. þm. á það, að honum hefir verið trúað fyrir útgerðarfyrirtæki, og ég veit ekki til, að nokkur maður hafi komizt herfilegar frá stjórn á nokkru fyrirtæki heldur en hann. Það er áreiðanlegt, að á jafnskömmum tíma hefir aldrei farið jafnilla fyrir nokkru fyrirtæki hér á landi og því, sem hv. þm. Ísaf. veitir forstöðu. Undir þetta fyrirtæki runnu margar stoðir, bæði frá ríkissjóði og bæjarfélaginu, þar sem það er skrásett í, og auk þess frá fjölda manna. Samt sem áður hefir því verið siglt svo djúpt ofan í fjárhagslegt öngþveiti, að slíks munu engin dæmi hér á landi á jafnskömmum tíma, þrátt fyrir mikinn stuðning, góð tæki og ágæta aðstöðu á allan hátt. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að enginn hafi haft hagnað af þessu fyrirtæki af þeim, sem hafa sett fé í það. Þeir hafa allir verið flegnir meira og minna. Það er aðeins einn einasti maður undanþeginn, sem ekki hefir sigið með þessu fyrirtæki, og það er forstjórinn sjálfur.

Þegar farið er út í að ræða þetta mál eins og rök hv. þm. eru og taka þau frá þessari hlið og bera þau saman við, hvað mikla trúmennsku hann hefir sýnt útgerðinni, þá er bezt, að einhverjir aðrir hefji máls á slíku.

Síðan núv. stjórn tók við völdum hafa flestar dyr lokazt, sem áður voru opnar fyrir sölu á íslenzkum afurðum. Fisksalan er ekki eingöngu í höndum framleiðendanna, heldur og í höndum ríkisstj., og ég held, að engin sneggri lokun á markaði fyrir íslenzkar afurðir hafi átt sér stað heldur en síðan núv. stjórn tók við völdum. Það situr því illa á hæstv. stjórn að vera að blása upp illyrðum um andstæðinga sína um illan vilja og þess háttar, eins og hæstv. atvmrh. gerði. Ég vil líka segja hv. þm. Ísaf., að á honum situr verst allra manna að vera með blekkingar og grjótkast til annara manna út af þessum málum, því að hans útgerðarsaga sýnir, að hún er með meiri endemum heldur en hægt er að draga fram nokkur dæmi um.