04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (2253)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Ég þarf ekki miklu að svara hv. 6. þm. Reykv., sem kvaddi sér hljóðs, eftir að ég hafði lokið máli mínu við þessa umr. síðast. Hann neitaði að vísu að hafa haft þau ummæli, sem ég bar á hann, að hann hefði haft um sjálfstæðismenn, sem sátu á fiskiþinginu, en það mun vera staðfest með þingskriftum, að hann sagði, að á fiskiþinginu hefðu yfirleitt setið menn, sem hefðu verið samvizkulausir og ekki hefðu haft vit á málaefnunum, og annað slíkt. Það má vera, að frá sjónarmiði þessa hv. þm. sé það enginn vottur þess, að menn gegni ekki skyldum sínum, ef þeir taka að sér störf, sem þeir hafa ekkert vit á, og það eigi ekki heim um þá menn, að þeir séu samvizkulausir.

Ég játa, að það var ég, sem samdi þá till. og það nál. um hagnýtingu sjávarafurða, sem var rætt og samþ. á fiskiþinginu, og eins og ég tók fram, er það undirritað af þeim ágætu sjálfstæðismönnum, sem ég gat um, m. a. hv. 1. þm. Rang. — Til þess að leiða athygli frá, hvað um var að ræða og þeirri hrakför, sem hv. þm. hefir farið hér, fór hann að tala um aðra till., sem felld var með jöfnum atkv. og hné að því, hvort fela skyldi einni og sömu n., ótiltekið hverri, forstöðu S. Í. F. og þá forstöðu, sem fiskimálanefnd hefir nú með höndum. Það var engin till. um að fella þetta undir S. Í. F. Einn sagði meira að segja í umr., að sér væri ekkert kappsmál, hvort heldur fiskimálanefnd tæki við störfum S. Í. F. eða S. Í. F. tæki við störfum fiskimálanefndar, heldur væri það hans principmál, að ekki nema einn aðili hefði þessi störf með höndum.

Þau svigurmæli, sem hv. 6. þm. Reykv. hafði í frammi gagnvart mér, get ég leitt hjá mér. Ég hefi ekki farið dult með það, að samvinnufélag Ísfirðinga hefir ekki grætt fé á undanförnum árum frekar en önnur útgerðarfyrirtæki á landinu. En það er einkennilegt, að um leið og verið er að skýra frá þeirri hraklegu afkomu útgerðarinnar, þá skuli sjálfstæðismenn hér í d. alltaf gera þá kröfu til mín, að ég láti samvinnufélag Ísfirðinga græða fé á sama tíma og önnur fyrirtæki á landinu stórskaðast, eftir því sem þeir sjálfir segja. Ég get náttúrlega verið þakklátur fyrir þær miklu kröfur, sem þessir hv. þm. gera til mín, og það góða álit, sem þeir hafa á mér, að þeir ætlast til þess af mér, að ég einn af öllum, sem stjórna útgerðarfyrirtækjum á landinu, geti grætt fé á sama tíma og allir aðrir tapa.

Um stj. þessa útgerðarfyrirtækis skal ég ekki fjölyrða. Ég skal aðeins taka það fram, að mér er kunnugt um, að þessi hv. þm. hefir einu sinni komið það nærri útgerðarfyrirtæki, að hann gat veitt því nábjargirnar, áður en það lagðist út af. Hvernig hann fór að, að koma fyrir þeirri skuld, sem hann komst í í sambandi við þetta fyrirtæki, get ég rifjað upp, ef vill, en ég ætla ekki að gera það frekar nú. — Ég læt þetta svo nægja handa hv. 6. þm. Reykv., en skal þá ofurlítið snúa mér að hv. þm. Snæf.

Hv. þm. Snæf. vildi halda fram, að það skipti engu máli viðvíkjandi sölu á fiski, hvernig hann væri verkaður. Þeir menn, sem ættu að vera sæmilega að sér í saltfiskssölu, gætu alveg eins haft kunnáttu til þess að selja fisk í hverju ástandi öðru sem væri. Nú er það vitanlegt, að þeir, sem kaupa og verzla með ísaðan eða flakaðan fisk og hraðfrystan eða hertan fisk, eru allt aðrir menn en þeir, sem verzla með saltfisk, og fiskur, sem er ekki saltaður, heldur seldur í öðru ástandi og sendur á allt aðra markaði og oft í önnur lönd en saltfiskur, — verzlun með hann er eins óskyld verzlun með saltfisk eins og það er óskylt að verzla með saltfisk og hveiti eða rúgmjöl eða eitthvað þess háttar. Það er allt önnur kunnátta, sem þarf til að verzla með fisk, sem er meðhöndlaður á annan hátt en saltfiskur.

Hv. þm. Snæf. segir, að einn fundarmaður í S. Í. F. hafi lýst því yfir, að S. Í. F. mundi klofna, ef það færi út fyrir þau takmörk, sem því voru sett með þeim l., sem nú gilda fyrir það, og sagði að ég hefði verið á þessu máli. Það er rétt hjá hv. þm. Snæf., að ég lýsti þessu yfir fyrstur manna. En þessa sömu yfirlýsingu gaf Jón Árnason, framkvæmdarstjóri S. Í. S., fyrir sig og sitt fyrirtæki. Og ég er þess öldungis vís, að þó að engir sjálfstæðismenn lýst lýst yfir þessu sama, þá er svo mikil sundrung ríkjandi í S. Í. F., að ef það færi að leggja sig eftir verzlun og tilraunum, sem væru áhætlusamari en saltfiskverzlunin, þótt slæm sé, þá mundi S. Í. F. óefað liðast í sundur. Fyrir því, sem álíta nauðsynlegt fyrir land og þjóð, að sala saltfiskjar sé undir einum hatti eins og nú er, þar sem S. Í. F. hefir næstum alla saltfiskssöluna, þá er það mesta óráð að ætlast til, að S. Í. F. fari að taka upp aðra starfsemi, því að það yrði til þess, að svo mikill hluti af saltfiskseigendum gengi úr S. Í. F., að það gæti ekki fengið samskonar löggildingu og það hefir nú.

Hv. þm. Snæf. benti á, að S. Í. F. mundi geta fengið samskonar tekjur úr fiskimálasjóði og fiskimálanefnd hefir nú til sinna tilrauna, en vel gæti farið svo, að S. Í. F. legði í svo örðugar tilraunir, að tekjurnar hrykkju ekki, og þá yrði að jafna tapinu niður á saltfiskinn eða aðrar vörutegundir, sem S. Í. F. hefði til sölu.

Hv. þm. Snæf. sagði, að hann hefði útbýtt sinni skýrslu til S. Í. F. sem einkamáli, afhent hana vissum mönnum og ætlazt til, að skýrslan væri yfirleitt einkamál. Ég skal taka það fram, að í þessari skýrslu er óskað eftir því á einum stað, að með vissar upplýsingar, sem hv. þm. Snæf. gefur um umboðsmenn, sé farið sem einkamál, og ég fullyrði, að út fyrir þennan ramma, sem hv. þm. Snæf. sjálfur markar í skýrslu sinni, hefi ég ekki farið. Ég hefi ekki farið með neitt, hvorki hér á þingi eða annarsstaðar, úr þessari skýrslu, sem hv. þm. Snæf. óskaði eftir, að farið væri með sem einkamál. Hinsvegar getur hv. þm. Snæf. þess hvergi í skýrslu sinni, að hún sé í heild sinni einkamál, enda er það svo, að í henni er ekki neitt, sem allan almenning varðar ekki, eða getur orðið til miska fyrir nokkurn mann, að hreyft sé opinberlega, nema ef vera skyldu þau ummæli, sem hv. þm. hefir um stj. S. Í. F., að það hafi ekki svarað bréfum og skeytum, sem því hefðu borizt um málaleitanir til að selja fisk á markaði, sem ekki hafði verið selt á áður. — Það kann að vera, að hv. þm. Snæf. ætlist til, að ég og aðrir, sem fengu þessa skýrslu, færu með hana sem einkamál. En þegar verið er að ræða um starfsemi, sem er öllum almenningi jafnmikið viðkomandi og stj. S. Í. F., þá sé ég enga ástæðu til að þegja yfir því, þegar jafnvel hv. þm. Snæf., sem venjulega telur sig skuldbundinn til að halda hlífiskildi yfir stj. S. Í. F., þegar jafnvel hann flettir ofan af starfsemi forstjóranna jafngreypilega og hann hefir gert í þessari skýrslu. Hann upplýsir að vísu nú við umr., að þessir menn, sem hefðu skrifað stjórn S. Í. F. frá Suður-Ameríku, hefðu ekki fengið svör frá S. Í. F., sem þeir höfðu skrifað, heldur beint frá sínum fyrri samböndum, m. ö. o., að samstarfið í S. Í. F. er ekki meira en það, að þegar S. Í. F. sjálfu berast símskeyti frá mönnum um nýja markaði í Suður-Ameríku, þá láta þeir þá framkvæmdarstjóra, sem áður kunnu að hafa verzlað við þessa menn eða þekkt þá eitthvað, svara frá Kveldúlfi eða Alliance, en ekki frá S. Í. F. sjálfu. Hvað á þetta að þýða? Þýðir það það, að þrátt fyrir S. Í. F. starfar Kveldúlfur og Alliance eins og þau höfðu gert áður, á bak við S. Í. F., og hafa sérstök sambönd í Suður-Ameríku, sem gættu þeirra hagsmuna prívat? Vill hv. þm. Snæf. leysa úr þessari spurningu? Hans ummæli verðu ekki tekin öðruvísi en svona, þegar hann tekur fram, að S. Í. F. sjálft svari ekki bréfum, sem því berast um verzlun og viðskipti, heldur sé það Kveldúlfur og Alliance, sem hafi svarað þeim eins og bezt þykir henta í hvert skipti.

Þá skal ég koma að því, sem hv. þm. Snæf. sagði um fiskmarkaðinn í Argentínu og Brasilíu. Hv. þm. segir í skýrslu sinni á blaðsíðu 77, að salan í Argeníinu á 31 sh. 4l kg. cif. sé, að frádregnum auknum kostnaði, rýrnun o. fl., hærri en núv. Spánarverð fyrir samskonar vöru og gerir svo ráð fyrir, að þegar keppinautar okkar hafi róazt dálítið og sjái, að okkur verði ekki bolað burt, sé líklegt, að hækka megi verðið um 1–2 sh. á kassa, m. ö. o., að verðið í Argentínu er mun aðgengilegra en á Spáni.

Í ræðu sinni segir hv. þm. Snæf., að markaðirnir í Argentínu og Brasilíu hafi verið okkur lokaðir fram til 1936, að hann var sendur í þessa landkönnunarferð til Suður-Ameríku og var svo heppinn að finna hana, eins og gera má ráð fyrir. (TT: Ætli Fritz Kjartansson hafi fundið hana?). Það væri spursmál um Árna frá Múla.

En ef maður athugar skýrslu hv. þm., þá verður ekki séð, að mikil vandkvæði hafi verið á að fá þennan markað opnaðan fyrir Íslendinga. Hv. þm. segir í skýrslunni, að engir örðugleikar hafi verið á því fyrir Íslendinga að fá loforð fyrir að fá að njóta hins opinbera gengis, sem er 20% hagstæðara en það gengi, sem er ekki opinberlega skráð fyrir innflutningsvöru. Og ástæðan fyrir því, að svo létt er að fá loforð um þetta hagstæðara gengi fyrir vörur frá Íslandi, er sú, eins og hv. þm. Snæf. segir í skýrslu sinni, að innflutningur Dana frá Argentínu er 30 sinnum meiri en útflutningur þeirra þangað. Og um þetta segir hv. þm. Snæf. í skýrslu sinni á bls. 9: „Fulltrúi gengisnefndar taldi því eigi vandkvæði að fá gengi fyrir Ísland.“ — Ég geri ráð fyrir, að þessi kaup Dana á vörum frá Argentínu, sem eru 30 sinnum meiri en það, sem þeir selja þangað, hafi ekki orðið svona hagkvæm bara við það, að hv. þm. Snæf. kom til Suður- Ameríku, heldur hafi verið til um nokkur ár. Með þessu sannar hv. þm. Snæf., að verið hafi í lófa lagið að fá þessu breytt áður, fá það opinbera gengi skráð til hagsbóta fyrir íslenzkan innflutning til Argentínu, ef það hefði verið reynt nokkurntíma áður. Það var ekki annar vandi en sá, að fara að eins og hv. þm. Snæf. gerði, leita aðstoðar Dana til þess að fá skráð það opinber, gengi fyrir innflutningsvörur frá Íslandi. Þannig sannar hv. þm. Snæf., að þeir möguleikar, sem hann talar um í Argentínu, voru þar fyrir hendi áður en hann fór þangað. þeir hafi verið fyrir hendi síðustu ár, meðan stj. S. Í. F. hafði látið undir höfuð leggjast að nota þennan ágæta markað í Argentínu, sem hv. þm. Snæf. sjálfur segir, að sé betri en Spánarmarkaðurinn. Auk þess bendir hv. þm. Snæf. á það í skýrslu sinni, að þótt við ekki fengjum skráð þetta opinbera gengi, þá voru ýmsar aðrar leiðir til að fá þetta öðruvísi en gegnum dönsku sendisveitina. M. a. væri minnstur vandi að fá beint þaðan það hveiti og þann maís, sem við kaupum þar, og væri hagnaður að kaupa það beint þaðan, í stað þess að fá það eftir krókaleiðum. Hann talar um þetta á bls. 12 í skýrslu sinni og segir þar, að með þessu móti væri gjaldeyrisspursmálið leyst af sjálfu sér. M. ö. o.: Án aðstöðu Dana var hægt að koma gjaldeyrismálinu þannig fyrir, að það leystist af sjálfu sér.

Um gengismálið í Brasilíu er það rétt, sem hann segir. Gengishöftin voru uppleyst þar 11. febr. síðastl., en stjórn S. Í. F. og hv. þm. Snæf. fylgdust ekki betur með en svo, að í ágústmánuði, þegar verið var að senda hv. þm. til Ameríku, þá vissi hann ekki, að búið var að leysa þessi höft, og segir hann það sjálfur í skýrslu sinni, að hann hafi búizt við því, að árangur af för sinni væri tvísýnn, vegna gengisvandræða í Argentínu og Brasilíu. Auk þess að búið var að upphefja gengishömlurnar mörgum mánuðum áður en hv. þm. fór í þessa för, þá bendir hann einnig á það, á bls. 31 í skýrslu sinni, að Íslendingar kaupi kaffi fyrir 600 þús. kr. árlega, og segir, að allt það kaffi, sem keypt hafi verið frá Brasilíu og Java, hafi árið 1932 verið 1891 kr. og árið 1933 1265 kr. Með því að ráðstafa innflutningnum hefði verið auðvelt að beina til Brasilíu kaffiverzlun fyrir 600 þús. kr. á ári og fá þangað innflutning í staðinn. Þessi gengisdraugur. sem hv. þm. taldi, að hefði verið í vegi fyrir því að selja fisk til Argentínu og Brasilíu, er þannig kveðinn niður. Auk þessa eru vitanlega til fleiri leiðir, og hefir réttilega verið bent á, að þær hafa alltaf verið til. T. d. það, að selja fiskinn annaðhvort yfir England eða Bandaríkin, sem hafa þá aðstöðu í verzlun við þessi lönd, að þeim var þar alllaf opinn markaður. Þessa leið var alveg vandalaust að fara, en hefði kostað umboðsmann. Þessi leið var svo augljós, að allir áttu að getu komið auga á hana, og ég veit um það, að maður, sem var staddur í Bandaríkjunum árið 1934, var beðinn um að útvega héðan sýnishorn af fiski — einmitt til þess að reyna sölu á honum til Suður-Ameríku. Þegar þessi maður spurði um, hvernig væri um gjaldeyri, þá var honum sagt, að það skipti engu máli, því þar væri keypt svo mikið af kaffi og fleira frá Suður-Ameríku, að markaður þangað stæði alltaf opinn. Þessi maður var ekki fisksali, en þegar hann kom hingað heim, þá gerði hann tilraun til þess að fá framkvæmdarstjóra S. Í. F. til að senda sýnishorn af fiski til Bandaríkjanna, en svo liðu tvö ár, að ekkert var aðhafzt. Ég segi þetta í áframhaldi af þeim ásökunum, sem hv. þm. Snæf. hefir beint til S. Í. F., vegna þess að hafa látið undir höfuð leggjast að nota þá markaðsmöguleika, sem alltaf hafa verið til, og enn er markaðurinn svo mikill að Magnús Sigurðsson segir, að á þessu ári sé hægt að selja þar 600 tonn af saltfiski. Og stjórn S. Í. F. lét algerlega undir höfuð leggjast að nota þessa möguleika, þótt markaðurinn á Spáni dragist saman ár frá ári.

Hv. þm. Snæf. sagði með talsverðum þjósti, að Íslendingar hefðu ekki ráð á því að festa miklar fjárhæðir í Brasilíu eftir að búið sé í höndum núv. ríkisstj. að fara svo með Spánarmarkaðinn, að hann sé fallinn úr 30 þús. og niður í 6 þús. smálestir.

Hv. þm. hefir, eins og ég hefi sýnt fram á, sannað það með skýrslu sinni, að það er óþarfi að fara þannig með markaðinn, að fjárhæðir nokkrar festist svo að nota hann, en út af svigurmælum hans, þar sem hann sagði, að í höndum núv. ríkisstj. væri búið að fara þannig með Spánarmarkaðinn, að hann væri fallinn úr 30 þús. niður í 6 þús. smálestir, þá vil ég skora á hann að sýna fram á það með fullum rökum, að mögulegt hefði verið að hafa þann markað meiri heldur en hann er nú, og hvernig að því hefði átt að fara. Geti hann þetta ekki, þá falla þessi svigurmæli um sjálf sig eins og hvert annað ómagahjal.

Hv. þm. Snæf. var að tala um, að h/f Kveldúlfur hefði stoðið mjög mikið undir atvinnulífi þessa bæjar, og því verður ekki neitað, en hinsvegar ber að athuga það, hverjir standa undir Kveldúlfi. Hverjir standa undir þessu skuldugasta fyrirtæki landsins? Það er vitað, að þetta félag skuldar bönkunum margar millj. króna — algerlega ótryggðar skuldir —, og það vita allir, að það er þjóðin sjálf, sem stendur undir þessum skuldabagga. Þetta er öllum ljóst, hvernig sem hv. þm. Snæf. vill fara með það. Annars er það mjög furðulegt með þennan hv. þm., að þótt hann hafi komizt í gegnum lögfræðipróf og þótt hann sé kominn hér inn á löggjafarþing þjóðarinnar, þá talar hann eins og barn, sem ekki er búið að missa mjólkurtennurnar. Hann var að tala um hornsílaveiðar, og stafar það sennilega af því, að hann hafi stundað hornsílaveiði í bæjarlæknum, þegar hann var drengur, og sé það því sú eina veiði, sem hann hafi á verklega þekkingu, og sú eina veiði, sem hann væri fær um að stjórna.

Hann fór nokkuð út í nál. frá fiskiþinginu, og skal ég, úr því hann fór út í það, gera honum það til geðs að minna hann á það aftur, að í þessu nál. fiskiþingsins, sem hann las upp eftir mér, lýsir fiskiþingið ánægju sinni yfir þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið með nýbreytni á hagnýtingu og útflutningi sjávarafurða, svo sem hraðfrystingu á fiski, herðingu á fiski, karfaveiðum o. þ. h. En hver hefir farið með framkvæmd þessara mála, sem hér er talað um? Er það stjórn S. Í. F.? Nei, það er fiskimálanefnd ein, sem hefir farið með þessi mál, og fiskiþingið er vitanlega með þessari ályktun sinni að lýsa ánægju sinni yfir störfum fiskimálanefndar; og þetta er þess vegna óbeint þakkarávarp til fiskimálanefndar, og ekkert annað. Enda er það svo, að það, sem stjórnarflokkarnir hafa lagt til málanna um verkun og hagnýtingu sjávarafurða, hefir orðið til þess, að hafizt hefir verið handa um þessar nýju framkvæmdir, en fiskiráðshégóminn var sýnilegt, að gæti aldrei orðið til annars en ráðagerða. Munurinn á stjórnarflokkunum annarsvegar og Sjálfstfl. hinsvegar er þá sá, að Sjálfstfl. hefir lagt það til, að talað væri um málin, en ekkert gert, en stjórnarflokkarnir hafa lagt fram till., sem hafa orðið til þess, að hafizt hefir verið handa um framkvæmdir og mikið hefir verið ger, og þessar framkvæmdir er verið að þakka í þessu nál. fiskiþingsins, sem við hv. þm. Snæf. höfum báðir talað um, og mér er ánægja að því að lána hv. þm. nú þetta nál., ef það gæti orðið til þess, að hann glöggvaði sig betur á því.