04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (2254)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Það er ekki nema lítið, sem ég get sagt til framhalds þessum umr. Það er búið að segja allmikið um málið, og er kannske til lítilla bóta að auka við það, en mér finnst, að sumt af viðræðunum hafi orðið nokkuð persónulegt hjá þeim, sem hafa tekið til máls, og að það þurfi að líta á málið á breiðari grundvelli með og móti heldur en sumir þeirra hafa gert.

Ég vil taka það fram, að það er, að ég tel, á miklum misskilningi byggt hjá hv. þm. Ísaf., þegar hann segir hér í ræðu fyrir nokkrum dögum, að fisksending sú til Póllands, sem fiskimálanefnd stóð fyrir, hafi farið fram eftir mínum ráðum. Ég hefi nýlega átt kost á að hrinda samskonar ummælum, og þó svæsnari, sem voru í flokksblaði þessa hv. þm.; þessum ummælum hrinti ég í svargrein, sem birtist í Morgunblaðinu, og benti þar á, að það var hvorki eftir mínum ráðum, að þessi fiskur var sendur til Póllands, né hvernig með þá sendingu var farið. Um þetta var ekkert við mig ráðgazt eða við mig nefnt. Þótt ég hafi svarað þessu í Morgunblaðinu og árásir Alþýðublaðsins hafi síðan hætt, þá finnst mér rétt, þar sem hv. þm. Ísaf. hefir tekið upp þessar árásir á mig hér á þingi, að taka þetta fram og láta það standa í þingtíðindunum, svo að afskipti mín af þessu máli sjáist þar greinilega. Afskipti mín af fisksendingunni til Póllands voru þau ein, að samkv. tilmælum ríkisstj. grennslaðist ég eftir því alstaðar í Mið-Evrópu í gegnum dönsku sendisveitina í Berlín, hvort nokkrar líkur væru til þess, að hægt væri fyrir okkur að selja frystan fisk á meginlandi Evrópu. Við þessa eftirgrennslan kom það í ljós hjá sendisveitinni í Varsjá, að í Póllandi væru möguleikar fyrir slíkri sölu. Sendinefndin benti á firma, sem hefir verið trúnaðarmaður S. Í. S., aðallega með að útvega vörur, og það, sem ég gerði, var að láta stjórninni í té upplýsingar um það, hvers ég hefði orðið vísari frá sendisveitinni í Varsjá. Eina ráðleggingin, semt frá mér kom, var sú, að ef fiskimálanefnd hugsaði sér til hreyfings um að nota þennan möguleika, þá þyrfti skjótra framkvæmda, vegna þess að sá tími, sem þyrfti að nota, var að nokkru leyti liðinn, en þó ekki nema að nokkru leyti. Að öðru leyti var það ekkert undir mig borið, hvað gera skyldi, og ekki orðað við mig að semja við umboðsmann í Póllandi. Enda munu flestir, sem þekkja formann fiskimálanefndar, geta hugsað sér það, hvaða ástæða honum hefir fundizt til að ráðgast við mig um málið, eftir að hann þóttist einráður um að koma því í gegn. Til þess svo að lokum að hnekkja öllum ummælum í þessa átt, vil ég benda á ummæli hv. 2. þm. Reykv. á síðasta þingi, þar sem hann gaf mér fullnaðarkvittun fyrir því, að ég væri ekkert við þetta mál riðinn. Það var þá borið fram með öðrum forsendum, sem sé þeim, að einn hv. þm. talaði um, að ég mundi þar hafa unnið til nokkurs þakklætis, en hv. 2. þm. Reykv. var þá svo skeleggur, að hann reis strax upp úr sæti sínu til að lýsa því yfir, að það væri að engu mér að þakka. Enginn sósíalisti mótmælti þessu; voru allir víst sammála hv. 2. þm. Reykv. Ég kann því illa, að hv. þm. Ísaf. skuli nú vilja kenna mér um það, sem allir hv. flokksmenn hans voru sammála um á síðasta þingi, að ekki væri mér að þakka.

Ég vil að endingu geta þess, að skjöl og skilríki fyrir því, að ég gef rétta skýrslu um þetta mál, bæði fyrr í blöðum og eins nú hér á þingi, liggja hjá stjórnarráðinu, og það hjá þeim ráðherranna, sem hv. þm. Ísaf. mun eiga greiðastan aðgang að.

Hér liggur fyrir þetta frv., sem borið er fram í annað sinn, að fela stjórn S. Í. F. þau störf, sem fiskimálanefnd hefir með höndum. Þetta hefir orðið til þess, að menn hafa hér farið að metast um það, hverjir væru kunnugastir fisksölumálum og hverjir væru færari til að selja fisk, stjórn S. Í. F. eða þeir, sem stjórna fiskimálanefnd. Ég skal ekki fara út í þann mannjöfnuð, sem gerður hefir verið í því efni. En mér finnst allbroslegt að heyra þennan meting, sérstaklega þegar hann kemur frá mönnum, sem hafa aldrei haft reynslu í því að selja fisk eða koma sjávarafurðum í peninga. En hvað snertir samtök og samvinnu í sölu sjávarafurða, þá verð ég að segja það, að ég tel, að við, sem sitjum í stjórn S. Í. F., höfum a. m. k. sumir okkar mjög langa reynslu í þeim efnum. Ég hefi síðan 1923 unnið í samvinnu — fyrst og fremst innanhéraðs með sveitungum mínum — að sölu á fiski og yfirleitt fylgzt allvel með þróun fisksölunnar hér á landi, og ef til vill betur en sumir þeir, sem nú vilja láta ljós sitt skína. Á þeim tíma, sem S. Í. S. sá engan annan kost vænni en að selja Kveldúlfi allan sinn fisk, starfaði sölusamlag okkar Vestmannaeyinga að því að selja fiskinn okkar, og við seldum ýmist Kveldúlfi eða öðrum, eftir því sem bezt mátti verða. Nú er svo að heyra á orðum þessara manna, sem mest láta af nauðsyn fiskimálanefndar, að Kveldúlfur sé ekki sérlega vel fær um að annast fisksölumálin — einmitt það félagið, sem S. Í. S. fól sölu á öllum sínum fiski. — Ég er allt annarar skoðunar. Við í Vestmannaeyjum seldum ekki Kveldúlfi allan okkar fisk, við sáum fleiri möguleika, en við seldum Kveldúlfi oft mikið, og gekk vel með þau viðskipti, sem stundum snerust um ½ millj. kr. eða meira í einu. Og ég verð að segja það hér vegna þessara margendurteknu árása á Kveldúlf, sem einn af stjórnarnefndarmeðlimum í Fisksölusambandi Vestmannaeyja yfir áratug, að alltaf hefir verið gott við þetta fyrirtæki að skipta. Það hafði a. m. k. þann höfuðkost, að samningar voru æfinlega haldnir, hvað sem á bjátaði, og er það einhver bezti kostur, sem nokkur stórútflytjandi getur haft, en á þeim tímum voru ekki allir útflytjendur jafnáreiðanlegir í þeim sökum. — En svo kom að því, að bankarnir, sem höfðu satt að segja verið nokkuð tómlátir gagnvart samtökum okkar framleiðenda í fleiri ár, rumskuðu og studdu að því að S. Í. F. var stofnað. Það var árið 1931 Þá slógu nokkrir stórútflytjendur í Rvík sér saman og stofnuðu með stuðningi bankanna þetta S. Í. F., sem ennþá lifir og við álítum, að sé jafnvel fært um að geta sinnt störfum fiskimálanefndar. Þegar svo þetta félag, S. Í. F., var búið að starfa í nokkur ár á heldur lausum grundvelli og þegar að því kom, að það átti að fara að festa félagsskapinn, og fulltrúaráðsfundur, sem haldinn var haustið 1934, var búinn að koma sér saman um meginreglur fyrir þeim félagsskap, þá kom pólitíkin og greip fram fyrir hendurnar á okkur framleiðendum, og því er ekki að leyna, að þar í broddi fylkingar var hv. þm. Ísaf. Þegar svo var komið, að S. Í. F. var að fá á sig lögun og form reglulegs félagsskapar, þá var komið inn á Alþ. með þetta frv. um fiskimálanefnd. sem hér hefir mikið verið til umr. Mér fannst satt að segja þá, að þeir tímar væru ekki heppilega valdir. Ég er ekki ennþá farinn að sjá, að það hafi verið þörf fyrir ríkisstj. eða meiri hl. Alþ. að grípa þannig fram fyrir hendurnar á okkur framleiðendum. sem ætluðum að standa saman og byggja betur upp okkar félagsskap. En eins og kunnugt er, þá hafði það víst verið ákveðið utan þings af hinum háu stj.flokkum að gera þetta; a. m. k. var það svo, að engin andmæli eða brtt., sem fram komu frá okkur sjálfstæðismönnum. voru á nokkurn hátt teknar iil greina á þinginu 1931. Stefnan var sem sagt sú, að skipuleggja fisksölumálin með tilliti til hinna pólitísku flokka, og þá auðvitað eftir venju núv. stjórnarflokka, þannig, að þeir, sem væri í minni hl., hefðu hreint ekkert að segja. Þessari reglu var gaumgæfilega framfylgt á því þingi, sem lögin um fiskimálanefnd voru sett. Eins og menn muna, þá hafði það frv., sem þá kom fram, í sér fólgna marga möguleika, t. d. þá, að margir útflytjendur væru saman í svokölluðum „grúppum“, og að Fisksölusamlagið starfaði áfram undir vissum skilyrðum, og að það yrði einkasala á fiski. Og mér er það minnisstætt. og hv. þm. er það kannske líka, að báðir bankarnir mótmæltu því, að þetta síðasta ákvæði, um einkasöluna, væri lögleitt, og einkum var sá af bankastjórum Útvegsbankans, sem hv. þm. Ísaf. hefir sungið mest lof og prís hér í d., mjög mótfallinn þessu ákvæði.

Það sýndi sig við meðferð málsins á haustþinginu 1934, að þeir, sem að því stóðu að setja löggjöf um fiskimálanefnd, voru staðráðnir í því að hafa að engu allar óskir, sem fram komu frá okkur sjálfstæðismönnum í þessu efni. Ég vil benda á það sem dæmi, að einmitt sá þm. úr hópi sjálfstæðismanna, sem hv. þm. Ísaf. telur vera allra manna hæfastan til þess að hafa vit á fisksölumálum, hv. 1. þm. Rang., flutti ásamt mér fjölmargar brtt. við þetta frv., en allar þessar till. voru felldar, og hv. þm. Ísaf. hjálpaði dyggilega til þess að brjóta á bak aftur allar þær brtt., sem þessi ágæti þm. úr hópi okkar sjálfstæðismanna stóð að. Þetta sýnir það, að þessi löggjöf, sem sett var um fisksölumálin, var ekki fædd undir neinu happamerki. Þetta var sem sagt endurtekning á því, sem oft hefir komið fyrir á þessu þingi síðari árin, að meiri hl. ræður ráðum sínum að mestu leyti utan þings um það, hvernig skipa skuli atvinnumálum og velferðarmálum þjóðarinnar, og var frá upphafi vega sinna alveg staðráðinn í því að taka ekkert tillit til minni hl., og þetta er þeim mun athugunarverðara, þegar þess er gætt, að þessi meiri hl. er ekki sérlega geipilegur. Mér er sagt, að það sé siður t. d. í Danmörku, að stjórnarmeirihl. ráðist ekki í svona stórræði eingöngu á þeim grundvelli að brjóta minni hl. þingsins á bak aftur; hann ræðst ekki í slíkar stóraðgerðir án þess að það séu einhverjir af stjórnarandstæðingum sammála stjórninni. En hér er það því miður siður að þvinga fram löggjöf í ýmsum atvinnumálum án þess að taka nokkurt tillit til annara en þeirra, sem mynda meiri hl. í Alþingi. Það liðu ekki nema nokkur dægur frá þinglokum þangað til gefa varð út bráðabirgðal. til þess að lagfæra þessa löggjöf og gera hana þannig úr garði, að ekki hlytist allt of mikið tjón af henni fyrir landsfólkið. Það er nauðsynlegt að athuga það, þegar menn eru hér, eins og hv. þm. Ísaf. og raunar fleiri, að varpa því fram bæði á Alþ. og í blöðum, að við sjálfstæðismenn höfum sett pólitík í þessi mál, að ef rakin er saga þessa máls og allur aðdragandi, þá kemur allt annað í ljós. Það er undir handleiðslu núv. ríkisstj. og sumpart með hv. þm. Ísaf. sem málpípu, að sá pólitíski asni hefir verið leiddur inn í herbúðir fisksölumálanna og þessa atvinnuvegar. Það hefði verið mjög æskilegt, að til þess hefði ekki komið. En löngu áður en þetta skeði, átti ég tal við einn af þm. stjórnarflokkanna, einn af hinum vitmestu og gætnustu, sem setið hafa á þingi síðustu árin. Fisksölumálin bárust í tal, og hann var mér mjög sammála um, að það yrði í lengstu lög að forðast að draga pólitík inn í þessi mál, því að hann var fullkomlega sannfærður um það, að um það leyti sem löggjöfin á þennan hátt færi að skipta sér af þessum málum, þá væri flokksstífnin komin í þessi mál, eins og reynslan hefir sannað. Ég ætla ekki að fara að rekja þessi sérstöku deiluefni, er orðið hafa milli Fisksölusamlagsins og fiskimálanefndar út af Ameríku-sölunni. Þau hafa þegar verið rakin af öðrum, og ég ætla, að það hafi öllum hv. þm. verið ljóst, hverjir þar eiga sök á, að svo miklu leyti sem um sök er að ræða. En þó hangið sé í því orðalagi í lögum S. Í. F., er segir, að félagsskapur sá fáist við að selja saltfisk fyrir framleiðendur, þá er ákaflega veikt hjá formælendum fiskimálanefndar beinlínis að leggja mikið upp úr þessu orðalagi. Það er vitanlegt, að höfuðframleiðslan er saltfiskur, og var engin ástæða til, þegar félagslög þessa félags voru samþ., að fara að telja upp allar fiskverkunartegundir, er fyrir kynnu að koma. Hinsvegar stríðir það á móti heilbrigðri skynsemi að halda því fram í þessu sambandi, að stjórn Fisksölusambandsins sé óheimilt að reyna til að selja fisk í öðru verkunarástandi en saltaðan. Og þá þarf ekki að benda á það, hvað það er raunverulega óskynsamlegt að halda því fram, að þegar maður eins og Kristján Einarsson siglir til Ameríku til þess að reyna að selja saltfisk, þá hafi það ekki verið skylda hans að hafa augun jafnopin um sölu á freðfiski. En látum það nú vera, við skulum setja sem svo, að það megi með orðhengilshætti hallast að þessari skoðun fiskimálanefndar. En þá er mér spurn: Hafa þessir menn þá líka verið á þessari skoðun þegar fiskimálanefnd fór að seilast inn á það svið að selja saltfisk? Það er ekki því að heilsa, að hún hafi takmarkað sig við þetta. Hún gerði tilraunir með aðrar vörur en freðfisk. En það hefir komið fram, eins og ég vék að, að þegar þessi löggjöf var sett, var hún sett meðfram til þess að bíta reidda öxina vofa yfir Sölusambandinu um óákveðinn tíma, líka að því er snerti sölu á saltfiski. Þessu til sönnunar er nægilegt að benda á það, að 6. marz sækir S. Í. F. um löggildingu til hæstv. atvmrh. til þess að hafa um hönd sölu á saltfiski, en það dregst þó til 29. marz, að ráðherrann veiti leyfið, en einmitt þessi tími er mjög mikilsverður tími til þess að selja saltfisk úr verstöðvunum, sem stunda veiðar á vetrarvertíðinni. Hver kom því til leiðar? Vill hv. þm. Ísaf. eða hv. 2. þm. Reykv. svara því? Hver kom því til leiðar, að ráðherrann frestaði því í 23 daga á mikilsverðum sölutíma, að veita S. Í. F. þess, sjálfsögðu löggildingu til að selja saltfisk? Og í hvaða skyni var það gert? Það sýnir sig, að á þessum tíma er fiskimálanefnd einmitt að reyna að vinna að sölu saltfiskjar, og árangurinn verður svo eins og kunnugt er sá, að einn af stjórnarnefndarmeðlimum fiskimálanefndar fær framgengt sölu á einum farmi til Ameríku fyrir milligöngu dansks umboðsmanns. Þetta sýnir glöggt, að það hefir verið tilgangurinn á tímabilinu frá 6–29. marz að láta sölu saltfiskjar fara í gegnum annara hendur en S. Í. F. Það var dregið í efa af hæstv. ráðh. og að ég hygg hv. þm. Ísaf., að samþykkt, sem gerð var á aukafundi S. Í. F. á dögunum, er fór í þá átt, að aukafundur fiskeigenda óskaði eftir, að þau verkefni, er fiskimálanefndin hefði með höndum, væru falin S. Í. F., — það var dregið í efa, að þarna kæmi fram hinn almenni vilji fiskframleiðenda. Mig minnir, að till. væri samþ. með 183:43 atkv. Og það var sannprófað, að það voru rétt umboð allra þeirra, er fóru með umboð fyrir fiskeigendur. Ennfremur var það sannprófað, að á fundinum voru mættir umboðsmenn fyrir það fiskmagn, er átti þarna aðgang, eða svo til. Ef hæstv. ráðh. efast um, að þarna hafi komið fram hinn sanni vilji fiskframleiðenda, þá er líklegt, að það muni fást staðfesting á því enn betur, þegar aðalfundur S. Í. F. verður haldinn, að fiskframleiðendur yfir höfuð eru ekki á þeirri skoðun, að það sé rétt að hafa 2 yfirstjórnir yfir þessum málum. Þetta liggur líka nokkurnveginn í hlutarins eðli, ekki sízt nú, þegar þess er gætt, hvað fiskframleiðslan er sáralítil í landinu, en hún er nú eitthvað helmingur á borð við það, sem hún var árið áður, og þá var látið nægja að hafa 5 manna yfirstjórn til að sjá um sölu fiskjarins, en með hinu nýja skipulagi, sem er orðið til á þann hátt, er ég hefi lýst, er komin 17 manna yfirstjórn til þess að ráðstafa þessu tiltölulega litla fiskmagni. Kostnaðaratriðið út af fyrir sig skal ég ekki gera að sérstöku umtalsefni, en það liggur þó í hlutarins eðli, að því minni sem framleiðslan er, því stærra atriði verður tilkostnaðurinn í heild sinni. Sá kostnaður, sem af þessu leiðir, verður vitaskuld tekinn af framleiðslunni. Það er eins og kunnugt er lagt ½% á allan útfluttan fisk og fiskafurðir, sérstaklega vegna l. um fiskimálanefnd, og þótt ekki væri nema það atriði út af fyrir sig, þá má gera ráð fyrir, að fiskeigendur megi ekki við því á þessum tímum, að á þá sé lagður aukaskattur í þessum efnum, ekki sízt þegar allar líkur benda á það, að þessi skattur sé óþarfur. Ég minntist á það áðan, að ég ætlaði ekki að gera upp á milli þeirra manna, er sitja í stjórn þessara tveggja fyrirtækja, en mér þykir það kynlegt, þegar slegið er mjög á þá bumbu af hálfu ríkisstj., að ekki sé meiri þekking og reynsla hjá mönnum S. Í. F. en hjá hinum. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvaðan kom honum það vit, að ætla hv. 2. þm. Reykv. að vera svo mikill yfirburðamaður á þessu sviði hvað snertir fisksölu, að hann væri sjálfkjörinn formaður fiskimálanefndar og stjórnarnefndarmaður S. Í. F. að auki? Því verður þó tæplega mótmælt, að hv. 2. þm. Reykv. hefir ekki haft þau störf með höndum undanfarin ár, að það bendi á nokkurn hátt til þess, að hann sé tilvaldastur til þess að hafa svo mikil áhrif á þessi mál sem hann nú hefir að tilhlutun hæstv. stjórnar. Það skyldi þá vera, að það væri skoðun hæstv. stj., að það væri sjálfsagt að setja mann til þess að fást við þess, hluti, sem aldrei hefði komið nálægt fiskverkun eða fisksölu nokkru sinni á æfinni, en mér virðist það varla geta verið meining hæstv. ráðh., því að hann hefir verið að tala um þekkingu, og jafnvel þekkingarleysi okkar, er sitjum í stjórn S. Í. F., móts við þá, sem eru í fiskimálanefnd.

Það er vitað, að hér liggja allt aðrar ástæður að; það var ekki mjög verið að súta það, hvort þeir menn, sem væri fengin forstjórn í hendur, hefðu skilyrði til þess að geta leyst þessi verk vel af hendi. Ef svo hefði verið, þá hefði verið farið meira í þá áttina að velja, ef ég má svo að orði komast, fagmann til þessara hluta. En hér kom það til greina, að málið var orðið pólitískt, og því var farið eftir þeim línum til að skipa forstjóra í fisksölumálunum, en ekki öðrum reglum, sem gilda eiga. Ég segi þetta ekki hv. 2. þm. Reykv. til lasts, að hann hafi ekki fengizt við fiskverkun eða fiskverzlun. Það er vitanlegt, að hann hefir ekki gert það. Hann getur verið góður á sínu sviði fyrir það. Maður veit, að hann hefir haft með höndum verzlun á allt öðru sviði en því, er snertir fisksöluna. Til þess nú að benda á í fáum orðum, hvernig þessu hefir verið háttað, má aðeins minna á þau orð, er féllu í ræðu hv. 2. þm. Reykv., þegar hann var að draga saman í stuttu máli það, sem komið væri. Hann sagði, að ástandið væri þannig, að fiskaflinn væri lítill, markaðirnir litlir og hrun framundan. Því miður er allt of mikið satt í þessu. En að því er snertir markaðina og hrunið, þá bendir það á, að þessi forstjóri hafi ekki verið valinn út frá því sjónarmiði, er hefði átt að koma til greina, þegar skipaður var forstjóri fiskimálanefndar. Hv. 2. þm. Rvkv. sagði, að nú hefði S. Í. F. með höndum sölu saltfiskjar. Það gengi lítið. Eitthvað gerðu þeir nú, sagði hann. Ég hefi bent á, að þann tíma, sem líkindi voru til, að selja mætti til Færeyja og Danmerkur, hafði S. Í. F. ekki yfirráðin yfir fisksölunni. Hv. 2. þm. Reykv. sá svo um, að hæstv. atvmrh. dró sig í hlé með það í 3–1 vikur að fela S. Í. F. þessi mál. Síðan er ekki um aðra saltfiskssölu að ræða eftir venju en til Englands og e. t. v. Portúgals síðar á vorinu. Hvað saltfiskssöluna til Englands snertir, þá er það vitanlegt, að hér hafa starfað 2 aðiljar, annar mjög langan tíma, og ég held hinn þó nokkra stund, að því að selja saltfisk til Englands. Þessir aðiljar eru Ólafur Gíslason & Co. og S. Í. S. Þessi 2 firmu hafa samband við alla þá í Englandi, er hafa það að atvinnu á vorin að kaupa fisk frá Íslandi. Ég sé ekkert skynsamlegt í því, eins og sakir standa, að S. Í. F. segi við þessa aðilja: Þið skuluð ekkert eiga við að selja fiskinn, við skulum gera það sjálfir. — Ég býst við, að það myndi spilla fyrir, að sú litla sala fari fram. sem hefir átt sér stað og vonandi er að fari fram. Hér eru firmu, sem hafa sína viðskiptamenn, sem ég geri ráð fyrir, að myndu ekki taka það vel upp, að S. Í. F. kippti fótunum allt í einu undan þeim, þótt aldrei nema þeir kæmu sjálfir og segðust vilja gera þessa verzlun. Það er svo í allri verzlun, að viðskiptasamböndin þróast bezt milli þeirra, sem viðskipti eru búnir að eiga saman nokkurn tíma og eru farnir að þekkja hvor annars verzlunarháttu. Það er alltaf skaði að trufla heilbrigða verzlunarstarfsemi, þótt 3. aðili hafi vald til þess að gera það. Ólafur Gíslason & Co. og Sambandið hafa verið að vinna að sölu á saltfiski til Englands, hvort við sín, kaupendur, og hafa selt þó dálítið, þótt það sé nú minna en áður. Það er öllum ljóst, að Stóra-Bretland kaupir okki saltfisk til þess að neyta í landinu, heldur til þess að gera að verzlunarvöru, ýmist til Miðjarðarhafslandanna eða til Suður-Ameríku. Við vitum, að söluhorfur í Suðurlöndum eru breyttar til hins verra, og hvað S.-Ameríku snertir, þar sem Skotar hafa haft mikil viðskipti, þá erum við þar sjálfir farnir að keppa við þá, með því að selja til S.-Ameríku þurrkaðan fisk. Við erum farnir að keppa við skozka útflytjendur, sem kaupa blautan fisk til verkunar. Það er síður en svo, að ég sé að harma þetta, því að það er vitanlega betra vegna atvinnunnar að selja fiskinn fullverkaðan heldur en selja hann blautan til Englands, en ég vil benda á þessa staðreynd, til þess að sýna fram á, að S. Í. F.-stjórnin á í slíku ástandi ekkert ámæli skilið, þótt hún fari ekki að taka fram fyrir hendurnar á mönnum. sem hafa selt lengi saltfisk til Stóra-Bretlands. Hv. 2. þm. Reykv. veit það vel, að hann er ekki í neinum „stálpansara“, ef á að fara að tala um það, hvað tekizt hafi að gera viðvikjandi sölu á saltfiski síðastl. ár og hvað ekki hafi tekizt. Það var eitt af fyrstu verkum fiskimálanefndar, þegar hún fór að skipta sér af fisksölumálunum í fyrra, að hindra það, að ein stærsta veiðistöðin hér á landi gæti selt yfir 6000 skippund af fiski til Ítaliu fyrir reiðu peninga. Þetta var hindrað með óvægilegum verðkröfum fiskimálanefndar, og yfir höfuð óviturlegum stirðbusaskap hv. 2. þm. Reykv. Svona getur öllum yfirsézt. Ég geri ráð fyrir, að þeir góðu menn hafi ekki ætlað að skaða landið með þessari misbeitingu á sinni yfirdrottnun, en niðurstaðan varð sú, að þessi 6 þús. skippund bættust svo við þann fisk, sem varð að ryðja af Ítalíumarkaðinum á árinu 1935. Það hefir verið harðlega átalið hér í deildinni, að einn af þeim mönnum, sem situr í sjútvn., hv. 6. þm. Reykv., hefir beitt sér talsvert fyrir ýmsu, er snertir fisksölumálin. Það hefir komið fram í ræðu ýmsra hv. þm., og einkum hæstv. ráðh., að þeim finnst hann ekki hafa þá aðstöðu, að hann eigi að skipta sér af þeim málum. Mér finnst þetta ómaklega mælt, enda hefir verið á það bent, að hann stæði ekki fjarri því að hafa meira vit á fiskimálum en ýmsir aðrir, sem nú fjalla um þau mál.

Ég hefi nokkuð bent á, hvernig þessi skipun er til orðin, og ætti mönnum því að skiljast, að eins og nú standa sakir, er ekki undarlegt, þó farið sé fram á að hafa á þessu eitthvað einfaldari tilhögun en stofnað var til með þessu lagaákvæði. Ennfremur hefi ég bent á, að ekki hafi verið unnið af alefli að því, að sérþekking þeirra, sem um þessi mál hafa fjallað, væri látin sitja í fyrirrúmi, þegar fiskimálanefndin var skipuð. Framhjá hinu verður ekki komizt, að okkur, sem sitjum í stj. S. Í. F. er falið það umboð af fiskeigendunum sjálfum, jafnvel þó við höfum ekki allir sérþekkingu á þeim málum, en að fiskimálanefndin er stjórnskipuð. Ég tel því, að okkur sé rétt og skylt að bera fram þær skoðanir, sem eru ríkjandi hjá þeim, sem eiga fiskinn. Einkum og sér í lagi er það auðsætt og viðurkennt af öllum, að 17 manna yfirstj. fiskimálanna sé of umfangsmikil og allt of dýr.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að fyrirkomulag S. Í. F. væri ekki æskilegt, og endurtók með sterkri áherzlu, að því skyldi verða breytt. Það getur vel verið, en svo hefir það farið, að þegar þessi hv. þm. eða aðrir hv. þm. úr flokki stj. hafa komið fram með brtt., þá hafa þær ekki verið til bóta. En þó að ennþá yrði að einhverju leyti breytt fyrirkomulagi á S. Í. F., t. d. um atkvæðisrétt, er það ekki neitt höfuðatriði, ef það á einhvern hátt gæti miðað til þess, að líklegt væri, að salan á fiskinum gengi betur.

Það ógæfulega, sem komið hefir fram við það, að hafa völdin á þessum málum deild á milli tveggja stofnana, er, að komizt hefir inn óhæfilegur metingur um framkvæmdir á þeim verkefnum, sem þarf að leysa, sem er algerlega óviðeigandi og stórskaðlegur fyrir fiskeigendur. Er þar einlægt kapphlaup um, hverjir eigi að hafa þakkarvonina af hverju framkvæmdaratriði. Þennan meting hefði alveg mátt fyrirbygja, ef yfirstj. hefði ekki verið deilt milli tveggja aðilja. Hann hefði heldur aldrei þurft að koma til greina, ef forstjórn fiskimálan. hefði verið í höndum skaprórri manna en mátt hefir sjá af reynslunni, að fyrir þeirri nefnd standa. Það er óneitanlegt, að fiskimálanefnd hefir haft allt of sterka tilhneigingu til þess að draga í hendur sér verkefni eins og t. d. saltfiskssöluna eða sölur, sem búið hefir verið að hefja og engin ástæða var til að trufla.

Því miður er það rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að aflinn væri lítill, markaðir litlir og margt benti til þess, að hrun væri framundan í þessum efnum. Því hörmulegra er það, að samkomulagið um átök til bjargar skuli vera jafnbágborið og reynslan hefir leitt í ljós. En þetta getur varla öðruvísi farið, þegar stofnað er til málanna af jafnmiklu ofurkappi og ákveðnum vilja að taka hreint ekkert tillit til nema eigin skoðana, eins og kom fram þegar löggjöfin var sett um þessi mál.

Hv. þm. Ísaf. las hér upp ályktun frá fiskiþinginu, þar sem það fer lofsamlegum orðum um fískimálanefnd fyrir að hafa breytt til í fiskverkun og leitað nýrra markaða. Það er vitanlega af öllum vel séð, að reyndar séu nýjar leiðir, en þó hefir verið borið allt of mikið hól á fiskimálan. fyrir að hún hafi gert kraftaverk, sem engum öðrum hafi dottið í hug, að hægt væri að framkvæma. En þetta er vitanlega svo, að hugmyndin um það hefir legið í loftinu árum saman og tilraunir verið gerðar til framkvæmda löngu áður en fiskimálan. fæddist í þennan heim. T. d. hefir verið upplýst, að Kveldúlfur gerði stórkostlega tilraun til að koma frystum fiski á markað í Mið-Evrópu.

Að því er harðfisksverzlunina snertir skal ég benda á, að rætt hefir verið um að koma einhverju af fiski í þá verkun. Og í álitsgerð milliþn. í sjávarútvegsmálum eru gerðar ýtarlegar till. um harðfisksverkun, niðursuðu fiskjar og fleiri verkunarmöguleika. Og í hinu margumtalaða fiskiráðsfrv. hv. þm. G.-K. var í stórum dráttum vikið að þessum verkefnum, sem fiskimálanefndin hefir nú með höndum. Það sanna er, að fiskimálanefnd hefir ekki gert annað en draga saman það, sem aðrir hafa lagt til, að einkum og sér í lagi úr fiskiráðsfrv. hv. þm. G.K., sem hv. þm. Ísaf. talaði með svo mikilli fyrirlitningu um. En ég skil ekki, ef það er sanngjarnt að hefja fiskimálanefnd til skýjanna fyrir gerðir hennar í þessum efnum, hvaða ástæða er til þess að lítilsvirða það, sem aðrir hafa áður gert á sama sviði. En munnurinn er sá, að fiskimálanefnd eru fengnir í hendur svo að segja ótakmarkaðir peningar til þess að koma þessum málum í framkvæmd. — Það er rétt, að hv. þm. G.-K. lagði ekki til, að fiskiráðinu yrðu fengnir peningar í hendur, en hann lagði til annað, sem er gulli betra, að þeir menn einir væru ráðnir til þess að fara með þessi mál, sem á þeim hefðu þekkingu og reynslu til að bera. En ég er hræddur um, að það sé að tjalda til einnar nætur fyrir hv. þm. Ísaf., að vera með drembilæti yfir því, þó fiskimálanefnd hafi fengið mikið fé í þessu skyni, því ef reynslan og þekkingin er lítil og féð notað af litlu viti, kemur að því, að til botns sést í kassanum, og það jafnvel eins fyrir því, þó haldið sé áfram að skattleggja sjávarútveginn eins og nú er gert í þessu skyni. Það er áreiðanlega skynsamlegra að tala hóflegar um þessa hluti alla og fordæma ekki fyrirfram það, sem þeim mönnum dettur í hug, sem ekki ráða yfir landskassanum í bili.

Fiskiþingið hefir mikið verið leitt inn í umr. sem vitni með þeim samþykktum, sem þar voru gerðar. Ég skal ekki metast um, hvaða fulltrúar hafa setið þar, en hefi oft áður verið sjónar- og heyrnarvottur að því, að fiskiþingið hefir gert margvíslegar ályktanir og samþykktir og sent bunka af þessu inn á Alþ., en flest af því mun hafa farið í pappírskörfuna. Hefir hv. þm. Ísaf. líka horft á það með jafnaðargeði, að till. fiskiþingsins í sjávarútvegsmálum væru og látnar eiga sig. Það er því miður svo, að fiskifélagið og þess árlega samkoma, fiskiþingið, hefir ekki náð þeim tökum á fiskframleiðslu og fisksölu landsmanna, að till. þess séu að miklu metnar, þegar þær koma til þessarar virðulegu samkomu. Þetta kann e. t. v. að eiga rót sína að rekja til þess meinlætis, sem ég hefi bent á, að komið er inn í þessi mál, að þau hafa verið gerð pólitísk. Það meinlæti er nóg til að ráða niðurlögum allra skynsamlegra úrlausna, ef alltaf á að meta þær frá pólitísku sjónarmiði. — Mér er ekki alveg ljóst, hvað hv. 2. þm. Reykv. átti við, þegar hann var að lýsa, til hvers hann væri kominn inn í stj. S. Í. F. Mér skildist, að það væri ekki til að starfa eins og venjulegur stj.meðlimur. Það getur vel verið, að það sé af sömu rótum runnið og þegar hann er að hóta að breyta fyrirkomulaginu á S. Í. F. og tortíma stj. þess. Ég man eftir, að ég las fyrir almörgum árum grein eftir einn flokksbróður hv. 2. þm. Reykv., sem vildi komast á Alþ. Fn hvers vegna skyldi hann hafa viljað komast þangað? Ekki til þess að taka þátt í störfum þingsins til uppbyggingar, heldur til þess að rífa niður, eftir því, sem hann sjálfur sagði. Ég vænti, að ekki sé ástæða til að skilja hv. 2. þm. Reykv. þannig, að hann sé kominn inn í stj. S. Í. F. til þess að koma því fyrir kattarnef með þarveru sinni. Það er a. m. k. svo, að þörf er að hafa allt annan hugsunarhátt á því starfssviði en þann, er miðar að því að sundra starfskröftunum. Við stöndum svo höllum fæti í markaðslöndunum um sölu fiskjarins, að aldrei hefir verið meiri þörf á samheldni, viti og þekkingu en einmitt nú við allar framkvæmdir á því sviði. En til þess er ekki stofnað með þeirri löggjöf, sem sett var um fiskimálanefnd, því reynslan hefir sýnt, að það vantar mikið á, að stefnt hafi verið í þeim málum eins og þyrfti að stefna. Hugmynd Sjálfstfl. um skipulag á þessum málum er hrifsuð af stjfl. og breytt þannig, að allmiklu af fjármagni ríkisins er veitt í hendur einstaklinga, svo að segja alveg þekkingarlausra á því sviði, sem svo hafa efnt til samkeppni við þann aðilja, sem er fulltrúi fiskeigenda, samkeppni, sem studd er af ríkisfé til þess að draga úr höndum S. Í. F. þau verkefni, sem því hafa verið falin af fiskeigendunum sjálfum.

Því miður er ég hræddur um, að innsti kjarninn í þessari ráðabreytni frá hendi þeirra, sem komið hafa á þessum ótímabæra og aldeilis óhæfilega metingi um, hverjir eigi að ráða fram úr þessum málum. Ég þykist vita, að það fari nú eins og endranær, að till. sjálfstæðismanna um að koma þessum málum í rétt horf verði ofurliði bornar. En ég er þess fullviss, að það líður aldrei lengra en til hausts, að fiskeigendur geri um þetta aðra samþykkt og krefjist þess, að fisksalan falli aftur í þann sama farveg og hún var í áður, sem sagt að S. Í. F. hafi yfirstj. fisksölumálanna, einnig á hinum nýju sviðum, og að fiskeigendur fái sjálfir að ráða, hverjir framkvæma þessi atriði. Á meðan verður vitaskuld sú skipun á, sem nú er, ef hv. d. fellst ekki á þá skipun, sem gert er ráð fyrir í því frv., sem hér liggur fyrir, en skýtur á frest að koma heilbrigðri skipun á þessi mál. En það verður ekki til annars en skapa andúð þeirra, sem allt eiga undir sölu fiskjarins. Þingmeirihl. er nú þegar búinn að varpa hanzkanum framan í fiskeigendur með því að setja l., sem miða að því að ráða niðurlögum þess félagsskapar, sem þeir sjálfir stofnuðu til þess að sjá um söluna. Og þó hanzkanum verði kastað í annað sinn. verður það aðeins stuttur frestur, þar til fiskeigendur og útgerðarmenn heimta völdin í málinu algerlega í sínar hendur.