04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (2255)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Thor Thors:

Það eru nokkur orð úr ræðum hv. andstæðinga, sem ég þyrfti að svara, en ég skal ekki vera langorður, enda hefir hv. þm. Vestm. á margan hátt tekið af mér erfiðið og sýnt með glöggum rökum fram á staðleysur og rökvillur andstæðinganna. — Ég vil þá snúa mér að hv. 2. þm. Reykv. Enda þótt hann sé hér stór aðili og komi mjög við deilu, verð ég að segja, að ræðan, sem hann flutti áðan, var prúðmannleg og fjallaði um efnið, sem um er rætt. Það er meira en sagt verði um flokksbróður hans, hv. þm. Ísaf. Hv. 2. þm. Reykv. hélt því fram, að ég hefði sagt, að fiskframleiðendur væru höfuðkjarninn í þjóðinni. Þetta er ekki rétt, heldur sagði ég, að fiskframleiðendur ættu meginþátt í framleiðslu og atvinnulífi þjóðarinnar, og því mætti ekki gleyma, þegar rakin væri atvinnusaga hennar. — Hv. 2. þm. Reykv. vildi telja framleiðendum það til álitshnekkis, að hagur þeirra hefir versnað á síðustu árum. Þó veit hv. þm., að þar er kreppunni og rás viðburðanna um að kenna. Einnig veit hann, að flokksbræður hans hafa komið við útgerð, sem beðið hefir mikið tjón á undanförnum árum. En það eru ekki þeir sjálfir, sem beðið hafa tjónið, því þeir hafa aldrei viljað leggja eigin fjármuni í það að auka atvinnulífið; þeir hafa séð, að hagfelldara var að ávaxta þá á annan öruggari hátt. Ég vil í þessu sambandi benda á, að Samvinnufél. Ísfirðinga hefir þann stutta tíma, sem það hefir starfað, og það með velvilja og stuðningi þingsins, ekki farið varhluta af erfiðleikunum. Og svo kemur hv. þm. Ísaf., sem veitt hefir þessu fyrirtæki forstöðu frá byrjun, — svo kemur hann hér fram og leyfir sér að ráðast á aðra fyrir það, að þeir hafa tapað á undanförnum árum. — Það hefir farið á þann hátt, að enda þótt ríkið hafi orðið að greiða fyrir fyrirtækið um 90 þús. kr. vegna áfallinna ábyrgða, og enda þótt hv. þm. Ísaf. og hans fylgihnettir á Ísafirði hafi notað eigur bæjarsjóðs eftir vild til framdráttar þessu fyrirtæki sínu, þá er svo komið, að fyrirtækið mun skulda um 800 þús. kr. En kunnugir menn telja eignir þess hátt virtar um 300 þús. kr. Það er því um hálfa milljón, sem þessi hv. þm. hefir komið í lóg á tiltölulega litlu fyrirtæki. Og svo leyfir hann sér á Alþingi og í blöðum og leikhúsum að viðhafa harkaleg og grimmileg orð í garð þeirra atvinnurekenda, sem undanfarin ár hafa verið að tapa eigin fé, að mestu leyti til atvinnubóta í landinu. Ég leyfi mér í þessu sambandi að staðhæfa, að það er ekki h/f Kveldúlfur, sem er skuldugasta fyrirtæki landsins, heldur er það þetta samvinnufyrirtæki. sem er langskuldugasta fyrirtæki landsins. Ætti því þessi hv. þm. að fara sér hægt í að ráðast á útgerðarmenn landsins fyrir skuldir. Hann sá líka fram á, að hann gat ekki bjargað sinu eigin fyrirtæki af eigin rammleik. Þess vegna barðist hann fyrir að skapa sérstakan skuldaskilasjóð fyrir vélbátaeigendur. Ekki mátti ganga það langt að taka línuveiðara með, sem allir eru meira og minna gjaldþrota. Það varð að binda þetta við vélbátaeigendur, vegna þess að áhrifa þessa hv. þm. gætti um of við málið, enda varð hann fyrsti maður til þess að knýja á dyr skuldaskilasjóðs, til þess að reyna að breiða yfir það gjaldþrot, sem hann með sinni stjórn hafði fært yfir þetta fyrirtæki.

Hv. þm. spurði, hver stæði undir h/f Kveldúlfi, hvort það væru ekki lánsstofnanirnar í landinu. Ég vil benda þessum hv. þm. og öðrum sósíalistum á það, að þetta fyrirtæki, sem þeir stöðugt leggja í einelti, hefir undanfarin ár greitt einmitt bönkunum milljónir króna fyrir viðskipti við þá, jafnframt því sem það hefir að verulegu leyti — og svo að enginn þorir að mótmæla, og jafnvel ekki hv. þm. Ísaf. með alla sína illkvittni — staðið undir framleiðslu Rvíkur og í rauninni undir framleiðslu þjóðarinnar að stórkostlegu leyti.

En út af tapi einkafyrirtækja má einnig minna á það, að útgerð sósíalista í Hafnarfirði, sem aðeins hefir verið rekin í örfá ár, hefir tapað hundruðum þúsunda króna, enda þótt hún sé skattfrjáls til bæjarins, meðan aðrir togaraeigendur á staðnum hafa greitt um 400 þús. kr. í útsvör.

Það var fullkomlega réttmætt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það væri nú svo komið, að lítill fiskur er í landinu. Það eru nú samkv. aflaskýrslum l. maí aðeins um 17600 smál. fiskjar í landinu. Aftur á móti voru 33600 smál. á sama tíma í fyrra, eða um helmingi meira. En árið 1934 var komið á land um þetta leyti 43400 smál. Og það er líka rétt, að það eru litlir markaðir og vafasamir framundan, og skal ég víkja nánar að því síðar. Ennfremur er rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að nú virðist vera hrun framundan. En úr því að aðalvaldamaður stj. hér á Alþingi lýsir yfir, að nú sé hrun framundan í atvinnulífi þjóðarinnar, því gera stjórnarflokkarnir ekkert til þess að reyna að draga úr þessu hruni eins og mest má verða? Það hefir ekkert slíkt komið fram hér á þingi, sem geti réttlætt það að stjórnarflokkarnir líti á það sem veruleika, að hrun sé framundan.

Þessir tveir hv. þm. hafa minnzt á markaðinn á Spáni, og hv. þm. Ísaf. var með áskorun til mín út af því máli. Ég vil vekja athygli á því, að fram til ársins 1934 höfðu Íslendingar ótakmarkaða innflutningsheimild á fiski til Spánar. 1934, þegar hv. þm. V.-Ísf. var forsrh., var þetta magn skorið niður. Átti að skera það niður í óverulega innflutningsheimild. En fyrir sérstakan samning, sem ríkisstj. stóð að, fékkst innflutningsmagnið bundið við 22 þús. smál. Þessi samningur, sem þá var gerður undir handleiðslu flokksbróður og samherja núv. stjórnarflokka, sem sé hv. þm. V.-Ísf., þótti það hagstæður, að á haustþinginu það ár vildu allir þm., að samningurinn væri endurnýjaður, og hver einasti þeirra skrifaði undir þá ósk 1. okt. 1934. En í tíð núv. stj. hefir þó farið svo, að þessi hagstæða innflutningsheimild er ekki lengur til. Nú á að færa innflutninginn til Spánar niður í 6600 smál., og þó enganveginn víst, að þessi innflutningsheimild fáist, og ekki heldur, að hún verði ekki bundin við gagnkvæm viðskipti. Í tíð núv. valdhafa — hvort sem það er að nokkru leyti fyrir þeirra aðgerðir eða aðgerðaleysi — hafa þessir beztu markaðir Íslendinga gengið úr ótakmarkaðri heimild í tíð fyrrv. stj. og niður í 6600 smál. eða minna. Hv. þm. Ísaf. beindi til mín, hvað ég ráðlegði ríkisstj. að gera í þessu efni. Það er ekki mitt að leggja henni ráðin, enda býst ég við, að mínar till. mundu í þessu sem öðru lítils metnar af henni. Mér er sagt, að hæstv. atvmrh. ætli nú innan fárra daga að bregða sér til Spánar og tala máli þjóðarinnar. Fyrirfram vil ég vona, að sú sendiferð beri einhvern árangur, og vildi óska, að núv. valdhöfum tækist þó ekki væri meira en að vinna það, sem síðustu árin hefir tapazt.

Hv. 2. þm. Reykv. taldi Sölusambandið óferjandi, vegna þess að sjómenn réðu engu um sölu fiskjarins. Ég spyr: Hverju ráða sjómenn um viðskipti fiskimálanefndar? Nákvæmlega engu. Það er ekki um neinn félagsskap að ræða. Þetta er stjórnskipuð stofnun, sem er einráð sinna athafna. Sölusambandið er þó félagsskapur fiskimaanna og fiskeigenda. og félagsmenn ráða á fundum öllum aðalatriðum í aðgerðum þessa félagsskapar.

Hv. 2. þm. Rykv. sagði ennfremur, að gamla sölusambandið hefði endað sinn feril með stórkostlegum halla. Það er alls ekki rétt. Það var enginn halli. En hitt var það, að ýmsir fiskeigendur höfðu neyðzt til að flytja fisk utan af landi til Rvíkur, svo að hægt væri að harðþurrka fyrir Portúgalsmarkaðinn. Vegna þessa lögðust mikil útgjöld á þá og varan rýrnaði mikið við þurrkunina. Sölusambandið gat látið nægja að greiða það, sem það í raun og veru fékk fyrir fiskinn, en það fór þá leið, að sækja um styrk til þessara manna, og þar á meðul til hv. þm. Ísaf., því að Samvinnufélag Ísfirðinga átti nokkurn hluta þessa fiskjar, til þess að þeir bæru ekki verri hlut frá borði en aðrir fiskframleiðendur landsins. Í þessu skyni fékk Sölusambandið nokkra fúlgu frá markaðs- og verðjöfnunarsjóði til þess að bæta hlut einstakra fiskeigenda.

Út af ummælum hv. þm. Ísaf. um óeiningu út af Sölusambandinu vil ég benda á það, að árið 1932 var það stofnað með fullu samkomulagi allra aðilja og við almennar vinsældir landsmanna. Allir sjávarútvegsmenn urðu fegnir þeirri verðhækkun, sem sölusambandið gat komið á þegar í byrjun, og það var nokkurn veginn friður yfir þessari stofnun í tíð fyrrv. stjórnar, þ. e. samsteypustj. undir forustu hv. þm. V.-Ísf. En þegar rauðliðar 1934 höfðu fyrir ranglæti kosningalaganna náð völdum, þá varð það eitt af fyrstu verkunum að taka Sölusambandið fyrir og hleypa flokkastreitu inn í það. Hv. þm. Ísaf. var mjög við það mál riðinn. A. m. k. er vitað, að hann lagði þar illkvittnina til, en reyndar ekki meira. Fyrir þessar aðgerðir var sett löggjöf, sem lagði niður Sölusambandið, á haustþinginu 1934. En artvmrh. sá þó, hvílíkt óheillaspor var stigið, og vegna þess að hann fann, að almenningsálitið heimtaði, að Sölusambandið yrði endurreist, þá neyddist hann til að gefa út bráðabirgðal. til þess að vekja sambandið upp frá dauðum. Þetta sýnir því, hverjir það eru, sem stofnuðu til stjórnmáladeilu um Sölusambandið. Og það kemur úr hörðustu átt, þegar jafnvel hv. þm. Ísaf. ber fram, að það hafi verið sjálfstæðismenn, sem stofnuðu þar til deilunnar.

Ég skal ekki fara langt út í blautfiskssöluna. Hv. þm. Vestm. hefir gert það og bent á, að það var atvmrh., sem bannaði Sölusambandinu að selja nýjan blautfisk á tímabilinu frá 1. marz til 29. marz. (Atvmrh.: Hvað segir þm.?). Atvmrh. hefir bannað Sölusambandinu að leita fyrir sér um sölu á nýjum saltfiski á tímabilinu frá 1. marz til 29. marz, því að á því tímabili hefir Sölusambandið ekki löggilding til útflutnings. En síðan Sölusambandið fékk þessa löggildingu, hefir það reynt alstaðar að koma á saltfiskssölu. En ég vil benda þeim mönnum, sem álíta sig sjálfkjörna leiðtoga verkalýðsins, í landinu, á það, að það er líka til sú hlið á þessu máli, að á þeim tímum, þegar helmingi minni fiskur er til í landinu en undanfarin ár, þá er það hæpið bjargráð verkalýðnum til handa að selja fiskinn óverkaðan úr landinu.

Hv. 2. þm. Reykv. fór lítið út í frystifisksöluna til Ameríku. En ég hafði áður staðhæft, að Sölusambandið hefði getað selt þann farm, sem um var deilt, fyrir miklu hærra verð en hann að síðustu var seldur fyrir. Og það hafa nú síðustu dagana komið bréf til Sölusambandsins frá umboðsmanni þess í New-York, þar sem hann færir full rök að því, að hann hafi á þeim tíma, sem hann bað um söluheimildina fyrir allan farminn, getað selt fyrir miklu meira verð en hann síðar var seldur fyrir. Þetta bréf hefi ég í höndum og get sýnt þeim, sem kunna að vefengja.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ekki væri vitað, hve margir framkvæmdarstjórar væru í Sölusambandinu. Hann veit, að þeir eru þrír, eins og alla tíð. Ég gegni þar nú störfum í forföllum hróður míns, en fæ vitanlega engin sjálfstæð laun fyrir það.

Ég ætla að lokum að vísa á bug þeim ummælum hv. 2. þm. Reykv., að það hafi verið framkvæmdarstjórar Kveldúlfs, sem hafa stjórnmálastreitu í frammi í sambandi við fisksöluna. Við höfum einmitt sýnt í okkar samvinnu, að okkar afstaða hefir verið og er fullkomlega einlæg. En andstæðingar okkar geta ómögulega ásakað okkur, þó að við látum ekki troða á okkur með illmælum og órökstuddum árásum. Þeir verða að vera við því búnir, að við berum hönd fyrir höfuð okkar, meðan málfrelsi er á þingi og utan þings.

Ég nenni nú ekki að eyða mörgum orðum að hv. þm. Ísaf., en kemst þó ekki með öllu hjá að nefna hann. Hann kvað Jón Árnason framkvæmdarstjóra hafa lýst yfir því á aukafundi Sölusambandsins, að það mundi klofna, ef það tæki til meðferðar nýjungar. En ég hygg, að hið rétta sé, að Jón hafi sagt, að hans félagsskapur mundi athuga, hvort hann vildi halda áfram í Sölusambandinu, ef það tæki fyrir önnur og meiri verkefni.

Hv. þm. sagði, að áhætta þessara mála væri svo miklu meiri hjá Sölusambandinu en fiskmálanefnd, og að það tjón, sem af þessum tilraunum kynni að leiða, hlyti að lenda á saltfiskeigendum. Margsinnis hefir verið bent á, að þetta er misskilningur. Því að þeir, sem leggja til fisk til nýjunga, verða sjálfir að bera áhættuna, að svo miklu leyti sem sá sameiginlegi sjóður landsmanna, sem nefnist fiskveiðasjóður, ekki stendur undir þeirri áhættu.

Hv. þm. ræddi mjög um skýrslu mína, sem ég veit ekki, hvernig hann hefir komizt yfir, en ekki var frá minni hendi ætlazt til, að hún yrði lánuð honum. Enda sést, að hann hefir hennar ekkert gagn, því að útúrsnúningahneigð og illkvittni hans er svo rík, að hann hefir alls ekki getað numið það mál, sem þar er skráð.

Hann vildi finna að því, að Sölusambandið hefði hlutazt til um. að bréfum frá Suður-Ameríku var svarað — eins og hann orðaði það — „eins og bezt þykir henta í hvert sinn.“ Ég verð að telja það góða stefnu hjá hverju fyrirtæki og svara málum eftir því, sem bezt þykir henta í hvert sinn. — En út af spurningu hans, hvort Kveldúlfur hefði haft samband í Suður-Ameríku eftir stofnun Sölusambandsins, þá segi ég, að Kveldúlfur hefir engin viðskipti rekið þar eftir að Sölusambandið tók til starfa. Hlutafél. Kveldúlfur hefir haft þá reglu að gefa öll sín sambönd Sölusambandinu. (FJ: Gefa þau?). Já, gefa þau. Sambönd, sem byggð voru á margra ára reynslu og margra ára vináttu víðsvegar um heim, hefir félagið auðvitað gefið til Sölusambandsins og endurgjaldslaust. En að ýms fyrirtæki, sem eru í Sölusambandinu, hafa fengið að halda sínum samböndum, er reyndar ekkert athugavert við. S. Í. S. hefir fengið að halda sínum samböndum víðsvegar; t. d. heldur það saltfisksamböndum sínum í Englandi og hefir gert nokkra sölu.

Þessi hv. þm., sem hefir ekkert til brunns að bera þegar ræða er um markaði í Suður-Ameríku, kemur með allskonar staðhæfingar svo gersamlega út í loftið. Ég fullyrði, að hv. þm. veit ekkert um þetta mál annað en það, sem hann hefir reynt að lesa úr skýrslu minni, en lesið aftur á bak, og sennilega hefir hann ekki vitað, að Suður-Ameríka var til á hnettinum fyrr en hann sá skýrslu mína. Hann sagði, að engir örðugleikar væru á að fá hið hagstæðara gengi í Argentínu. Nú kemur glögglega fram í skýrslunni, að frá 24. sept. fram í desembermánuð var látlaus sókn af okkar hendi um að fá þetta mál leyst. Og hvað sem hv. þm. segir um mína sendiferð, — ég veit hann vill ekki viðurkenna aðra sendimenn en Fritz Kjartansson og aðra slíka menn, sem hafa verið hans trúnaðarmenn í fisksölunni, — þá staðhæfi ég, að einmitt fyrir það, að ég bar gæfu til að kynnast ýmsum málsmetandi mönnum í Argentínu, varð þetta mál leyst. Auðvitað ber jafnframt að geta þess, að það var sendiherra Dana, sem stjórnaði þessari sókn í málinu. En ég ætla að fullyrða, að hefði ég ekki komið þarna, hefði málið ekki leystst. En ég verð að vekja athygli á, að þessi lausn er ekki endanleg, því að hún er háð því skilyrði, að við hefjum kaup á vörum þaðan úr landi. Hv. þm. sagði, að þetta byggðist á því, að Danir hefðu svo hagkvæman verzlunarjöfnuð. Það má segja, að það hafi flýtt þessu máli, en engan veginn felst lausn málsins í því. Mönnum þar í landi er vitanlega kunnugt, að Danmörk og Ísland eru ekki eitt og sama ríki. Ég benti á leið, ef þessi frjálsa lausn gjaldeyrismálsins hefði ekki fengizt, og hún er sú, sem fram kemur í skýrslu minni, að festa þar í landi til vörukaupa 5 þús. sterl.pund. En ég verð því miður að halda fram, að eins og gjaldeyrismálum okkar Íslendinga nú er komið, hefir sú leið ekki verið fær. Enda get ég skýrt frá því, að þegar ég talfærði þetta við bankastjórana ettir að ég kom heim, þá töldu þeir þá leið alveg útilokaða eins og nú væri komið gjaldeyrismálum.

Ég ætla því að staðhæfa að lokum, um leið og ég skilst við Argentínuverzlunina, að þeir möguleikar, sem nú hafa skapazt þar í landi, voru ekki fyrir hendi áður.

Þá gat hv. þm. ekki annað en viðurkennt, að það, sem ég sagði um Brasilíu, væri rétt. Hv. þm. veit nú auðvitað ekkert, hvað rétt er eða rangt í þessu máli, af því að hann veit ekkert annað en það, sem ég segi. En ég ætla þó að láta mér lynda, að hann vefengir það ekki. En hann staðhæfir, að þegar ég fór út, hafi ég ekkert vitað, hvernig þessum málum var komið í Brasilíu. En daginn sem ég fór skrifaði ég grein í Morgunblaðið um þessa sendiferð, og þar segi ég einmitt, að gjaldeyririnn hafi verið gefinn frjáls í Brasilíu 11. febr. 1935. En ég sagði jafnframt, eins og ég tók fram í skýrslu minni, að ég gerði mér litlar vonir um árangur af sendiförinni vegna gengisfalls, en ekki gengishamla. Og ef hv. þm. hefði gert sér far um að lesa skýrsluna eins og maður, þá hefði hann veitt því athygli, að þar sem voru 40 milreis í sterlingspundi árið 1930, er það nú komið ofan í 80–90. Þetta veldur því, að almenningur í landinu, er tekur laun í milreis, á ekki kost á að kaupa nema að litlu leyti innfluttar vörur. Saltfiskur verður dýr neyzluvara fyrir almenning. Þetta kemur fram í skýrslu minni á þann hátt, að frá því er innflutningur til Brasilíu var fyrir nokkrum árum 41 þús. smál., þá er hann kominn ofan í 18800 smál. Vegna gengisfallsins eru það meir og meir hinar ódýrari tegundir saltfiskjar, sem seljast, en ekki hinar verðmeiri, eins og okkar saltfiskur nauðsynlega þarf að vera.

Hv. þm. gerði sig beran að fáfræði með því að segja, að það hafi verið létt verk og löðurmannlegt að ráðast inn á markaði Brasilíu, því að þaðan hafi bara þurft að kaupa kaffi. En þetta var bara ekki hægt, því að kaffiútflytjendur þurftu að skila gjaldeyri fyrir sína útfluttu vöru. Þess vegna festu líka Englendingar og aðrar þjóðir margar milljónir sterlingspunda inni þar í landi, sem þeir hafa fyrst fengið nú á síðustu tímum. Svo segir hv. þm. Ísaf.: Þið hefðuð bara getað selt Englendingum fiskinn og látið þá taka kaffið. Hv. þm. veit auðsjáanlega ekki, hvað hann er að segja. En hann ætti þó að vita, að við höfum haft ákveðinn saltfiskskvóta í Englandi, og hefir hann verið notaður alveg. Hv. þm. talaði um mann, sem farið hefði til Ameríku og fundið þar markað. Það skyldi þó aldrei hafa verið sendiherra hv. þm., Fritz Kjartansson. sem þessu markaði fann? Er þá ekki óeðlilegt, að þessu hafi verið tekið með vantrú. Annars hefir nokkuð verið að því gert að finna markaði þarna.

Þá greip hv. þm. til nál. frá fiskifélagsfundinum, þar sem fundarmenn lýsa ánægju sinni yfir þessari nýjung. Þar eru þeir að lýsa yfir því, sem Sjálfstfl. hefir alltaf látið í ljós. Þar er ekki verið að þakka fiskimálan., heldur er lýst yfir ánægju út af því, að eitthvað nýtt sé reynt í þessu efni.

Hv. þm. var með skæting um það, að ég hefði ekki enn slitið barnatönnunum. Ég veit ekki hverskonar tennur hann hefir, en líklega eru þær falskar, og væri það þá eftir öðru hjá honum. En ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá og treysti mér vel til að tala við hann. Hv. þm. sagði, að ég væri ekki hæfur til að stunda annað en hornsílaveiðar, en ég hafði kallað hann pólitískt hornsíli, og verður honum varla líkt við annað betur, er maður sér hann við hliðina á stórhvelum Alþfl. En ég hefi ekki hugsað mér að fara að dorga eftir honum. Fer bezt á því, að hann sé áfram hornsíli í hinni pólitísku fúlutjörn Alþfl.

Hér er deilt um það, hvort fækka eigi óþörfum störfum, hvort spara eigi þær 55 þús. kr., sem fiskimálan. hefir kostað á ári undanfarið, hvort ætlast megi til, að 10 menn, í manna stj. í S. Í. F. og 3 manna framkvæmdastj., séu einfærir um að ráða til lykta þessum málum, eða hvort nauðsyn beri til að hafa til þess enn 7 menn — og hvort taka eigi tillit til vilja fiskeigenda og fiskframleiðenda. Ég geri nú ráð fyrir, að stjórnarflokkarnir muni daufheyrast við óskum þessa hluta framleiðenda, eins og annara framleiðenda í landinu. Það er þá á þeirra ábyrgð, en að því mun, þó koma síðar, að þeir iðrast eftir að hafa virt að vettugi óskir þessara manna.