04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2257)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil leiðrétta ranghermi, sem kom fram hjá hv. þm. Snæf. Hann sagði, að ráðh. hefði bannað S. Í. F. að selja saltfisk til Ameríku. Þetta er ekki annað en skrök. Gangur málsins er sá, að í marz, að ég ætla, kom formaður S. Í. F. ásamt framkvæmdarstjóra þess á fund ráðh., og óskuðu þeir eftir að fá löggildingu sem aðalútflytjendur á blautfiski til 14. maí. Ég benti þeim á, að ekki væri ástæða til að löggilda sérstakan aðilja sem blautfisksútflytjanda, og taldi rétt, að það biði, þangað til Sölusambandið hefði verið löggilt sem saltfisksútflytjandi. Fáum dögum síðar kom svo umsókn S. Í. F. um löggildingu sem aðalútflytjandi á fiski fyrir 1936. Sú beiðni var afgr. eftir svo sem 20 daga.

Í svona mikilvægu máli er það eðlilegt, að ekki sé hrapað að því að taka ákvörðun. Hitt er skrök, að þeim hafi verið bannað að selja saltfisk eða blautfisk á þessu tímabili. Ég átti tal um málið við formann S. Í. F., Magnús Sigurðsson. og benti ég honum á, að eina leiðin fyrir S. Í. F. væri að sækja um löggildingu. Það eitt var í veginum, að þeir töldu sig of mikilsráðandi menn til að þurfa að sækja um leyfi til fiskimálan. En auðvitað bar þeim að hlíta þeim l., sem um þetta eru sett.

Annað atriði hjá hv. þm., sem ekki er annað en fullyrðing, er það, að hægt hafi verið að selja Steadyfarminn fyrirfram við góðu verði. Þetta veit hann, að er ekki rétt, og það sannar ekkert, þótt hann lesi kafla úr bréfi frá umboðsmanni S. Í. F. um að þetta hafi verið hægt. Yfirleitt hefir það sýnt sig, hve þessi sala var illa undirbúin og hve mikið happ það var, að fyrir var maður þar í landi, sem tekið gat málin í sínar hendur.