04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2258)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Ég þarf ekki að svara hv. þm. Vestm., því að ekkert nýtt kom fram í ræðu hans, sem ekki var búið að hrekja áður. Mun ég því verja tíma mínum til að svara hv. þm. Snæf. Hann benti réttilega á það, að hagur útgerðarinnar hefði versnað mjög undanfarin ár. Hefir þá auðvitað hagur Samvinnufélags Ísfirðinga versnað, alveg eins og hagur Kveldúlfs. En hagur samvinnufélagsins hefir ekki versnað nærri því eins mikið og þeir Kveldúlfsbræður hafa haldið fram. Og ég hefi í ræðu hér í d. fyrir nokkru leiðrétt lygasögu, sem hv. þm. G.-K. fór með, þess efnis, að eignir félagsins væru aðeins 300 þús. kr., eða varla það. Þær nema 630 þús. kr., samkv. mati manns frá skuldaskilasjóði. Ég vil ráðleggja þessum hv. þm. að hætta slíkri lygi hér, sem engum er til tjóns nema sjálfum honum. (ÓTh: Ég hefi farið rétt með, það vita allir). Ég veit, að Kveldúlfsbræður eru illir út í mig, því að þeir kenna mér, að ég hafi viljað koma í veg fyrir, að stofnaður yrði sérstakur skuldaskilasjóður fyrir Kveldúlf, jafnhliða skuldaskilasjóði vélbátaeigenda, sem étið hefði upp eins mikið fé og skuldaskilasjóður vélbátaeigenda. Því leggja þeir á mig hatur og ljúga um mig ýmsum sögum í sambandi við fyrirtæki eitt, sem ég hefi stjórnað, og gera kröfu til, að það eitt af öllum fyrirtækjum græði á sama tíma og verið er að setja Kveldúlf á ríkissjóð, með því að gera hv. þm. G.-K. að aðilja í bankaráði, svo að hann geti séð fyrir því, að Landsbankinn verði skuldaskilasjóður Kveldúlfs.

Þá vík ég að því, sem hv. þm. Snæf. sagði um Spánarsamningana. Sagði hann, að samningarnir hefðu verið framlengdir 1. okt. 1934, en að nokkru leyti fyrir aðgerðarleysi stj. hefði Íslandi ekki verið veitt meiri réttindi en það, að ekki væri hægt að flytja þangað nema 6 þús. smálestir af fiski. Nú sést, hvers vegna íhaldsmenn hlupu eins og halaklipptir hundar úr utanríkismálan., sem sé til þess að geta í skjóli þess, að þeir vissu ekki betur, varpað allri ábyrgð á stj. En ég skora á hv. þm. að færa líkur fyrir því, að hægt hefði verið að framlengja samningana þannig, að samboðið hefði verið íslenzku þjóðinni.