04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (2259)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Thor Thors:

Hæstv. atvmrh. sagði það skrök, að S. Í. F. hefði um tíma verið bannað að selja saltfisk. Hann verður þó að viðurkenna, að frá 6.–29. marz neitaði hann sölusambandinu um söluleyfi. Á meðan Sigurður Jónasson gekk mann frá, manni í New-York árangurslaust, fékk S. Í. F. ekki að selja, þó að það samkv. landsl. hefði rétt til þess. — Hæstv. ráðh. sagði það fleipur, að S. Í. F. hefði getað selt Steadyfarminn. Ég skal nú lesa kafla úr bréfi frá umboðsmanni S. Í. F. í New-York. Hann segir:

„Það gleður oss, að vér höfum nú loks tök á að selja 15-punda kassana í heild sinni. Oss þykir vitanlega mjög leitt, að oss voru ekki fyrr fengnar birgðirnar til sölu, á meðan hægt hefði verið að fá fyrir þær talsvert miklu hærra verð. Ef allur farmurinn hefði verið fenginn oss til sölu um leið og þér afhentuð oss 50 smálestirnar, þá hefði sami kaupandi vissulega tekið farminn miklu hærra verði, hvað svo sem herra Jónasson kann að segja í gagnstæða átt“ ... Ég læt þetta nægja til að hrekja þá staðhæfingu hæstv. ráðh., að við höfum ekki getað ráðstafað þessum farmi.

Þá sagði hæstv. ráðh., að enginn hefði getað vitað hér heima, að það skilyrði hefði verið sett, að skipið kæmi út á tilteknum tíma. En ég vil benda á, að söluskeytið að þessu vörumagni var samið uppi hjá fiskimálan., af Héðni Valdimarssyni og Kristjáni Einarssyni. Um þetta segir umboðsmaður S. Í. F. í sama bréfi:

„Enda þótt skipið kæmi of seint, miðað við þann tíma, sem ákveðinn hafði verið milli yðar og vor, þá hefði það aðeins þurft að kosta lítilsháttar bætur til handa kaupandanum vegna dráttar á afhendingu, en vissulega ekki þurft að hafa í för með sér það verð, sem vér vorum að síðustu neyddir til að selja vöruna fyrir“ ...

Hv. þm. Ísaf. var reiður, er hann svaraði mér, svo að hann gat varla rutt úr sér því, sem hann þurfti að segja. Hann taldi það lygasögu, sem við höfum sagt um efnahag Samvinnufélags Ísafjarðar o. s. frv. Reynslan mun nú skera úr um það, hve mikil lygi það er, sem sagt hefir verið um félagið. Kunnugir hafa sagt mér, að eignir félagsins hafi átt að mæta 800 þús. kr. skuld, en að þær séu ekki of lágt metnar á 300 þús. kr. Hv. þm. sagði, að við vildum koma á fót skuldaskilasjóði fyrir Kveldúlf. Við vildum koma á skuldaskilasjóði fyrir alla útgerð í landinu. Mun það sýna sig, að útgerðin verður að fá styrk, ef hún á að geta haldið áfram.

Hv. þm. sagði, að við sjálfstæðismenn legðum hatur á hann. Það er ofmælt. Hann er ekki svo merkileg persóna, að hann verðskuldi hatur nokkurs manns.