28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2269)

128. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Thor Thors):

Það má segja, að ekki sé langt síðan lögin um alþýðutryggingar voru lögfest og enn skemmra síðan þau öðluðust gildi. En þrátt fyrir það hefir það þegar komið í ljós að ýmsir agnúar eru á þeim 1., og þar á meðal þær misfellur, sem valda því, að 1. eru miður vinsæl.

Eitt af því, sem skapar l. miklar óvinsældir, er það, hvert hlutskipti þau veita þeim gamalmennum, sem eru komin yfir 60 ára aldur. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hafa öll fátæk gamalmenni, sem komin eru yfir 60 ár, haft rétt til nokkurra ellilauna, og enda þótt þar væri aðeins um smávægilega upphæð að ræða, því hefir hún samt orðið þessum allra fátækustu gamalmennum nokkur hjálp og uppreisn. En l. um alþýðutryggingar breyta þessu þannig, að gamalmenni á aldrinum 60–67 ára eru gerð gjaldskyld til ellilaunasjóðs, enda þótt það sé vitað, að mörg þeirra, og jafnvel allflest, eiga mjög erfitt með að inna þetta gjald af hendi, og þessi gamalmenni eru mörg hver svipt öllum styrk þangað til þau verða 67 ára.

Þetta hefir orðið til að vekja mikla óánægju hjá þessu fólki, og tel ég það mjög eðlilegt. Úr því að Alþingi álítur nauðsynlegt að hafa löggjöf um tryggingar, þá þykir mér það illa hlýða að gleyma þessu gamla fólki og gera hlutskipti þess verra en það var, áður en þessi löggjöf, sem þó er álitin stefna meira í mannúðaráttina, gekk í gildi.

Af því hér er um svo augljóst réttlætismál að ræða, þá leyfi ég mér að vænta þess, að frv. verði samþ. á þessu þingi.

Legg ég svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.