22.02.1936
Neðri deild: 6. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2297)

9. mál, innlánsvextir og vaxtaskattur

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti: Þetta frv. hefir verið áður til meðferðar hér á Alþ. og aldrei komizt lengra en til n. — Ég geri ráð fyrir, að ég þurfi ekki að hafa í þetta skipti langa framsögu fyrir frv.

Það er öllum vitanlegt, að aðalatvinnuvegir landsmanna, sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn, rísa — eins og nú er ástatt fyrir þeim — ekki undir því að ávaxta það fé, sem í þeim stendur, nema tiltölulega lágt, líklega kringum 3%, eftir þeim gögnum, sem helzt er hægt að fá um það. Hinsvegar er það líka vitanlegt, að þeir, sem fjármagnið eiga, hafa til þessa getað ávaxtað fé sitt með 4, 4½, 5 eða 6%, eða jafnvel ennþá hærri vöxtum. Með frv. þessu er því reynt að finna leið til að láta nokkurn hluta af þeim vöxtum, sem peningaeigendur nú fá af sínu fé, ganga til þess að lækka vexti af því fé, sem atvinnuvegirnir þurfa að nota sem lánsfé, til þess að vinna með, þannig að peningamennirnir fái lægri vexti en þeir fá nú af sínu innlánsfé, til þess að atvinnuvegir landsmanna fái fremur staðizt. Það var álitið í fyrra, að þetta kæmi ekki nógu skýrt fram og að skattur þessi mundi verða til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Til þess nú að fyrirbyggja það, hefi ég sett nýja grein inn í frv., þar sem ákvæði eru um vaxtamiðlunarsjóð, sem eingöngu á að verja til lækkunar vaxta á lánsfé, sem atvinnuvegirnir nota.

Ég óska, að frv. þessu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og til fjhn., og vona ég, að ég þurfi ekki að kalla eins oft eftir frv. þessu frá þeirri hv. n. eins og ég kallaði eftir því frá fjhn. í fyrra, og þó árangurslaust. Nú vonast ég eftir, að ég þurfi aldrei að kalla eftir því frá n. og að mál þetta verði afgr. í einhverju formi á sem heppilegastan hátt á þessu þingi.