21.02.1936
Neðri deild: 5. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2314)

14. mál, samvinnufélög

*Flm. (Hannes Jónsson):

Það er væmið hrossakjötsbragð að því, sem kemur frá hv. þm. N.-Þ., og það er ekki heldur við öðru að búast. — Ég hafði ekki gert mér neina hugmynd um, að þessi hv. þm. eða ýmsir af hans flokksmönnum vildu neitt á sig leggja til þess að sýna sóma þeim málum, sem ég ber fram hér á þingi, en ég hélt ekki, að hann væri svo algerlega huglaus, að hann þyrði ekki að eiga orðastað við mig, um efni þeirra mála, sem ég flyt. Það er eingöngu vegna þess, að hugrekki hans er svo lítið, að hann óskar eftir, að málinu sé vísað til n., í því trausti, að hann geti í gegnum flokksmenn sína þar séð svo fyrir, að málið verði ekki framar tekið til umr. hér á þingi. Ég hefi fulla ástæðu til að halda, að málið komi ekki úr n., vegna þeirrar reynslu, sem ég fékk á síðasta þingi. Þá krafðist ég þess hvað eftir annað að fá málið úr n., og þótt hæstv. forseti legði þar einnig nokkuð af mörkum til þess að fá þeim óskum framgengt, þá var þeim aldrei fullnægt. Þetta mál er líka svo einfalt og óbrotið og öllum, sem um samvinnumál hafa hugsað, svo ljóst, að um það getur ekki orðið verulegur ágreiningur. Þess vegna er ástæðulaust frá sjónarmiði þeirra manna að láta málið velkjast lengi í nefnd.